Fyrri skrif

miðvikudagur, 6. apríl 2011

Nicaragua

Líkt og ég greindi frá í síðasta pistli þá var ég síðast staddur í hættulegustu borg Hondúras, kominn með í magann og á leið yfir landamæri Nicaragua. Dagurinn byrjaði á því að reyna skila sem mestu í klósettið áður en reynt væri að ná fari að landamærunum. Eftir að hafa misst af rútu sem leit út fyrir að vera í ágætis lagi, ákváðum við (ég og Bruno) að skella okkur í típíska bekkjarútu (chicken bus) með tilheyrandi óþægindum og þar af leiðandi sérsniðið að mínum þörfum þann daginn. Þegar rútan loks kemst á áfangastað, s.s. þar sem að við þurfum að stimpla okkur úr landi, þá kemur í ljós að það er enn 2km að vegabréfsáritun Nicaragua. Ég var langt frá því að vera í stakk búinn að rölta með farangurinn þennan spöl og ákváðum við að taka boði tveggja unglingsstráka um að ferja okkur á einhverskonar bekkjarhjóli í gegnum rykmökkinn sem þyrlaðist upp frá öðrum farartækjum á svæðinu. Sjálf innritunin gekk líkt og ávalt vandræðalaust fyrir sig, enda ég og Bruno báðir talandi á spænsku sem virðist vera einhverskonar bólusetning við því að lenda í vandræðum með landamæraverði.
Ég þurfti að eiga enn eitt klósettdramað áður en ég gæti haldið áfram, í þetta skipti við viðbjóðslegan kamar. Þegar kamardramað var afstaðin ferjuðu strákarnir okkur að þeim stað þar sem við gætum tekið næstu rútu inn í Nicaragua, sem var að sjálfsögðu önnur bekkjarrúta en sem betur fer ekki troðfull af fólki eins og þær eru oft. Ég var núna farinn að hafa magaverki líka og því ekki í neinu farastuði. Ekki skánaði ástandið þegar hjá mér settist kona með tvö hænsni í poka, þannig að höfuð þeirra stóðu út og lágu við kjöltu mína, grunlausar um að þeirra viðvera á jarðríki yrði væntanlega brátt lokið. 
Við komust loksins til León eftir 8 tíma ferðalag og fundum okkur fljótlega gistiheimili mér til mikillar gleði því á þeim tímapunkti var ég orðinn hundveikur og vildi helst leggjast fyrir með þægilega fjarlægð frá baðherberginu. Við gistum þarna í eina nótt og eyddi ég mestum tímanum í herberginu á gistiheimilinu og get þar af leiðandi ekki greint mikið frá þessum annars ágæta stað. Við vorum hins vegar ákveðnir í að drífa okkur til borgarinnar Granada, sem var annáluð fyrir að vera athyglisverð og falleg lítil borg.

Það var því lagt í hann aftur snemma næsta dag og í þetta skipti var ferðamátinn aðeins betri eða rútukálfur sem bar 20 farþega og var ekki sístoppandi fyrir hinum þessum við vegakantinn. Við skiptum um rútu í höfuðborginni Managua og brunuðum beinustu leið til Granada, þar sem við komum um miðjan dag. Borgin lagðist strax ágætlega í mig enda minnti hún mig meira á gamla borg á Spáni en Mið Ameríku, enda flestar byggingar frá nýlendutímum spánverja enn uppistandandi. Við vorum hvorugir búnir að kortleggja borgina hvað varðar gistingu, nema ég hafði párað niður heimilisfang á gistiheimili sem mér hafði litist mjög vel á. Við ákváðum að athuga betur með þessa gistingu og lögðum í göngutúr með allt hafurtaskið í 30 stiga hita og sól. Við ráfuðum um svæðið spyrjandi unglingaklíkur, gamlar konur og búðareiganda til vegar án þess að finna staðinn og vorum því búnir að gefa þennan gistikostinn á bátinn þegar við ráfuðum á hann fyrir tilviljun, einungis til að komast að því að hann var lokaður yfir hátíðirnar. Við ákváðum að finna miðbæjarkjarnann og spyrjast fyrir þar í kring sem endaði með að við fundum gistiheimili sem var ekki upp á marga fiska en var nógu gott fyrir nóttina. Við fórum reyndar strax í göngutúr til að athuga með fleiri staði og fundum einn ákjósanlegan fyrir næstu nætur. Ég gerði ekki mikið meira það kvöldið enda enn með magann í eftirdragi. 

Næstu tvo daga var ég meira og minna á nýja gistiheimilinu með einstaka stuttum göngutúr, svona rétt til að láta blóðrásina ganga aðeins. Á gamlársdag var ég orðinn nokkuð ferskur aftur og því tilbúinn til að taka aðeins á því. Ég og Bruno höfðum aðeins kynnst fólkinu á gistiheimilinu og þá aðallega pari frá Chile sem var að ferðast alla leið til Alaska frá Chile á Volkswagen bjöllu. Við ákváðum því ásamt athyglisverðum frönskum strák (sjónhverfingamaður) að elda saman þetta kvöldið og fara síðan út á lífið.
Eftir ánægjulegt kvöld saman, skelltum við okkur í göngutúr til að ná flugeldasýningunni um miðnætti.
Við lendum fljótlega í því að heimamaður, búsettur í bandríkjunum, skellir sogskálum sínum á hópinn og er ekkert á því að sleppa takinu. Ágætis náungi, svolítið yfir strikið bæði í talanda og athæfi. Hann hins vegar sannfærði okkur um að koma með sér á skemmtistað, þar sem að stemmingin væri. Við létum til leiðast sérstaklega vegna þess að staðurinn var nokkrum skrefum frá gistiheimilinu.
En áður en við höldum í hann tek ég eftir myndarlegri stúlku sem greinilega er ekki á heimaslóðum, þar sem hún gengur ein um torgið skimandi í kringum sig. Ég hélt áfram að fylgjast með henni, svona til að ganga úr skugga um að hún sé ekki að bíða eftir einhverjum. Þegar mér virðist að svo sé ekki, ákvað ég að ganga að henni í þeim tilgangi að bjóða henni að koma með okkur á þennan skemmtistað sem hún þáði með virtum.
Ég og stúlkan enduðum síðan á því að dansa og skemmta okkur frameftir nóttu en ákváðum síðan að skella okkur niður að vatninu þar sem að lókallinn var enn að partýstörfum. Þar horfðum við á sólarupprásina meðan við spjölluðum um heima og geima. Því miður þurfti hún að ná flugi síðar um daginn, þannig að við þurftum að enda okkar góðu kynni fyrr en við vildum. 

Daginn eftir, á fyrsta sunnudegi ársins, ákváðum ég og Bruno að skella okkur í hjólreiðatúr um borgina til að skoða ytri hluta hennar. Á leið okkar um fátæklegt úthverfið rákumst við á tvo unga menn sem vildu endilega spjalla við okkur. Við vorum tvístíga í fyrstu en ákváðum að setjast með þeim að spjalli. Það kom fljótt í ljós að báðir höfðu marga fjöruna sopið en annar þeirra hafði þó komið undir sig fótunum á meðan hinn bjó enn nánast á götunni og þurfti oftar en ekki að treysta á ölmusu til að draga fram lífið. Þetta voru fínir náungar og því ákváðum við að hitta þá aftur um kvöldið til að grípa nokkra drykki saman. Áður en við kvöddumst bentu þeir okkur á athyglisverða hluta borgarinnar þar sem túristar láta ekki sjá sig að jafnaði. Við vorum ekki lengi að taka þá á orðinu og renndum þangað með viðkomu í kirkjugarði borgarinnar. Þegar við erum að rölta um aðalinnkeyrsluna að kirkjugarðinum, rennir pallbíll framhjá okkur með nokkrum innfæddum standandi í kringum líkkistu. Þegar við spurðumst fyrir hvort að þetta væri venjan við flutning látinna í garðinn tjáði okkur ein gömul kona að þarna væri líklegast á ferðinni heimilislaus einstaklingur með enga ættingja til að kosta útför. Í slíkum tilfellum flytja sjálfboðaliðar kistuna í garðinn þar sem greftrun fer fram í sérstökum hluta garðsins, mjög sérstakt allt saman. Kirkjugarðurinn sjálfur var mjög fallegur á að líta og smelltum við því nokkrum myndum af honum áður en við héldum för okkar áfram.
Þegar við síðan renndum inn í úthverfin var þar að finna mikið líf og fjör, þar sem að í flestum götum var fólk að stunda ýmsa götuleiki með áhorfendum í flestum tilfellum. Við fylgdumst með þessari skemmtilegu menningu í dágóða stund en héldum síðar enn lengra að útjaðri borgarinnar. Þar var að finna húsdýr fyrir utan flest híbýli og í flestum tilfellum hestar. Einnig var verið að reka nautgripi um göturnar á meðan fjölskyldur voru á rölti saman á þessum fallega sunnudegi. Við enduðum á því að spjalla við hóp fólks sem sat saman í rólegheitum og beið þess að dagurinn liði. Mennirnir tjáðu okkur að lífið væri langt frá því að vera dans á rósum, mikið frekar á þyrnum þeirra. Virkilega vinalegt fólk sem þótti athyglisvert að við værum staddir í útjaðri borgarinnar. Næst héldum við að vatninu til að fá okkur einn kaldann og fylgjast með sólsetrinu, en vatnið sjálft er á við 30 Þingvallavötn og það eina í heiminum þar sem hákarlar lifa góðu lífi í ferskvatninu. Við ákváðum að skella okkur sem fyrst á aðaleyju vatnsins sem er eldfjallaeyja að nafni Ometepe.

Um kvöldið hittum við síðan félagana frá því fyrr um daginn en annar þeirra tók með sér unnustu sína frá Ísrael. Sú var stór og mikil kona með miklar ranghugmyndir um eigið ágæti, þar sem að hún tjáði okkur einlægt hversu vel gefin hún væri og að hún ætti erfitt með að eiga samskipti við einfalt fólk, sem reyndar sagði mér að hún væri frekar einföld í sínu gáfnafari. Ég endaði kvöldið með að bjóða stráknum sem bjó á götunni að borða og kvaddi hann síðan með virtum. Bruno og ég féllumst síðan á að drífa okkur til þessarar eldfjallaeyju daginn eftir.
Báturinn sem við skelltum okkur með var varla sjófær ef svo má að orði komast, þar sem að öldurnar þeyttust inni rýmið þar sem við sátum með tilheyrandi vatnsflæmi undir fótum okkar. Tveimur tímum síðar erum við komnir á áfangastað en einungis til að uppgötva að framundan væri hægfara standandi rútuferð yfir á annan enda eyjunnar. Þegar við síðan loks komum á þann stað sem Bruno hafði í huga varðandi gistingu, kemur í ljós að hann er yfirbókaður og því ekki um annað að ræða en að rölta 5 km upp að rótum annars eldfjallsins í svarta myrkri. Þegar við síðan loks komum á staðinn kemur í ljós að um er að ræða mjög svo einfalda gistingu með lélegum hermannabeddum. Þegar loks er búið að finna fyrir okkur bedda innan um 10 aðra ákváðum við að taka göngutúr í myrkrinu í þeim tilgangi að finna stað þar sem hægt væri að fá góða pizzu. Sá göngutúr tók rúma klukkustund en þegar við loks fundum staðinn var verið að loka ofninum og ekki fyrirséð að hægt væri að fá pizzu. Ég var ekki alveg á því og náði að sannfæra konurnar sem voru þar að störfum um að skella einni í ofnin enda værum við búnir að leggja á okkur mikið ferðalag til að bragða þeirra frægu flatbökur.
Eftir að hafa snætt gómsæta flatbökuna stakk ég upp á því að halda enn lengra inn í myrkrið og heimækja annan gististað sem ég hafði heyrt að væri mikið gleðibæli. Bruno var ekki alveg á því í fyrstu en ég náði að sannfæra hann um að við yrðum ekki lengi. Þegar við loks fundum þann staðinn kom fljótt í ljós að sögusagnirnar voru sannar, mikið fjör og ekki síst á eigandanum sjálfum sem er Íri, en honum fannst ekkert verra að vera með Íslending í heimsókn og hellti því óspart í okkur Bruno. Það þarf varla að taka því fram að göngutúrinn til baka í kolniða myrkrinu tók mun lengri tíma en eðlilegt þykir.

Daginn eftir leigðum við okkur hjól og hjóluðum um nánasta umhverfi en vegirnir þarna voru vægast sagt í slæmu ásigkomulagi, þannig að fjallahjólin komu að góðum notum. Við enduðum á stað þar sem hægt var að baða sig í vatni einu sem var kærkomið því það var mjög heitt þennan daginn. Annars var sá hluti eyjunnar sem við dvöldum á mjög svo framandi. Einu samgöngurnar voru „ varla hangandi saman rútur“, reiðhjól og hestar. Svín, hestar, hænur og hundar léku lausum hala hvarvetna og hver og einn íbúi pollrólegur varðandi lífið og tilveruna.
Engu að síður ákvað ég daginn eftir að drífa mig aftur upp á meginlandið á meðan Bruno kleif eldfjallið skýjum hulið :). Ég dreif mig beinustu leið í strandbæ sem heitir San Juan del Sur og dvaldi þar í góðu yfirlæti hjá konu einni sem rak lítið gistiheimili. Þar var ég með mitt eigið herbergi í umhverfi sem líktist meira heimili en gististað. Staðurinn sjálfur var típískur ferðamannastaður án þess þó að tapa sínum upprunalega karakter, þannig að þarna var gott að vera um stund. Bruno mætti síðan tveimur dögum síðar og djömmuðum við með nokkrum heimamönnum tvö kvöld í röð en þá fannst okkur vera nóg komið og tími til kominn að fara yfir landamæri Costa Rica. 

Yfir höfuð er Nicaragua mjög áhugavert land í alla staði en það skemmdi aðeins fyrir mér að vera veikur nánast helminginn af dvöl minni þar. Þar af leiðandi gæti ég alveg hugsað mér að heimsækja þetta ágæta land aftur og dvelja lengur í það skiptið enda eru tvær vikur varla teljandi í jafn áhugaverðu landi.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli