Fyrri skrif

mánudagur, 16. apríl 2012

Knattspyrnuleikur í Medellín!

Ég kom mér ekki lappir fyrr en rétt undir hádegi og það tók mig klukkustund að ná sönsum eftir ævintýri liðinnar nætur. Eftir að hafa fengið mér kaffi og sígó, lenti ég á spjalli við hluta hópsins sem hafði farið með mér niður í bæ kvöldið áður. Flestir fölnuðu við að heyra á hvaða slóðum ég hafði endað og með hvaða hætti ég hafði komist aftur á gistiheimilið, sem er kannski eðlilegt þar sem að flestir erlendir ferðalangar halda hópinn á þessum slóðum. Ég var búinn að komast að því að það yrði spilað á leikvangi sem var ekki svo langt í burtu frá gistiheimilinu. Í nærliggjandi götum við gistiheimilið var að finna slatta af matsölustöðum og ákvað ég að skella mér á einn sem greinilega var vinsæll meðal heimamanna. Eftir að hafa borðað góðan kjúkling og rennt niður einum bjór, var kominn tími til að hefja gönguna að leikvanginum. Eftir að hafa gengið í um tuttugu mínútur kom ég loks að leikvanginum. Þrátt fyrir að enn væri tæpir tveir klukkutímar í leikinn var slatti að fólki samankomið í nánasta umhverfi leikvangsins. Ég keypti mér einn bjór úr einum sölubás og settist niður á blómabeðshleðslu til að fylgjast með hvort að fólk væri að versla miða af þeim sem gengu um kallandi og veifandi miðum með uppréttri hendi. Einnig tók ég eftir því að margir voru komnir með frumstæðar græjur til að elda eða hita upp mat sem þeir buðu til sölu. Þetta voru einhverskonar grill sem þeir festu við barnakerrur, til að geta fært sig um set ef á þyrfti að halda. Þessum áhöldum stilltu þeir síðan upp við hlið bifreiða sinna, sem voru flestar í vægast sagt slæmu ástandi, s.s. greinilega fólk úr fátækrarhverfunum að reyna ná sér í skotsilfur. 

Eftir að hafa séð nokkra aðdáendur kaupa miða af götusölum, hafði ég greinagóða hugmynd um hvert miðaverðið væri og lét því til skara skríða. Miðan fékk ég á 1500 kr. sem er sama verð og maður borgar fyrir að komast á leik í íslensku deildinni. Til að fagna þessum merka áfanga kom ekkert annað til greina en að fá sér annan bjór og fylgjast með stuðningsmönnum undirbúa sig fyrir átök dagsins. Ég tillti mér aftur á sama stað og hóf að fylgjast með menningunni. Á næsta bekk sátu fimm gaurar sem virtust vera harðir stuðningsmenn, klæddir litum heimaliðsins, með tilheyrandi fána og trefla til að undirstrika tryggð sína við klúbbinn. Þetta voru ungir peyjar, um og yfir tvítugt, sem greinilega ætluðu sér að þenja raddböndin þennan daginn, því þeir skelltu óspart í sig „kólumbíska brennivíninu“ á milli stuðningssöngva. Einn þeirra tók eftir því að ég var að reykja og nálgaðist mig til að biðja um sígarettu. Það endaði með því að við fórum að spjalla, enda sást að þeir voru forvitnir um þennan skrítna útlending sem sat þarna í makindum sínum sötrandi bjór. Eftir að hafa tjáð þeim í hvaða erindagjörðum ég væri, buðu þeir mér að slást í hópinn ásamt því að staupa mig af söngvatni þeirra. Við tókum fljótlega eftir því að miðinn minn var fyrir „elliheimilishluta“ vallarins, líkt og þeir komust að orði, golfklapp liðið í mínum orðaforða. Þetta þýddi að ég yrði að reyna fá miðanum skipt, en maðurinn sem seldi mér miðann var hvergi sjáanlegur. Einn af strákunum stökk því til og fann annan sölumann sem var tilbúinn að skipta miðanum gegn smá þóknun. ´
Þegar búið var að redda miðanum og klára brennivínspelann var komið að því að þramma í átt að leikvanginum. Þegar við nálguðumst leikvanginn tók ég eftir því að óeirðalögreglan/herinn var á svæðinu með þungavigta-búnað í farteskinu og voru þeir nokkuð fjölmennir í þokkabót. Félagarnir hófu þá að fela fána og trefla innan á sér og þegar ég spurði þá hvers vegna þeir væru að þessu, var mér tjáð að lögreglan hirti alla hluti sem hægt væri að nota sem vopn gegn þeim eða stuðningsmönnum aðkomuliðsins. Þegar ég tjáði þeim að mér fyndist nú ekki mikil hætta af fánum og treflum, sögðu þeir mér að þann búnað væri hægt að nota til að herða um kverkar lögreglunnar, ef á þyrfti að halda.  Ástæðan fyrir þessum harkalegu aðgerðum var sú að mánuði áður hefði brotist út óeirðir á einum leiknum, þar sem nokkrir létust og fjöldi manns slasaðist. Margir úr liði lögreglunnar slösuðust einnig og einhverjir lífshættulega og var því tekin ákvörðun um að engin mætti taka neitt lauslegt með sér á völlinn í nánustu framtíð. Þegar gaurarnir bentu mér á að ég gæti ekki einu sinni fengið að fara inn á völlinn með beltið mitt, fannst mér það ólíklegt, en þeir sögðu að það væri ekki möguleiki, þar sem að beltið væri með sylgju og því hægt að nota það sem vopn. Ég hélt þó í vonina um að lögreglan mundi hleypa saklausa útlendingnum inn með lítið belti um sig miðjan. Þegar ég kem að innganginum er verið að leita á öllum líkt og er gert hjá mörgum knattspyrnuþjóðum sem eru þekktar fyrir óspektir á knattspyrnuvöllum, en þegar ég nálgast vopnaleitina er mér tjáð að ég þurfi að láta beltið frá mér. Þegar ég mótmælti á hógværan hátt, fékk ég bara lítið bros með ítrekun um að láta frá mér beltið. Ég þurfti því að kasta beltinu frá mér og vera með buxurnar hangandi utan á mér líkt og rappararæfill.

Þegar við komum í stúkuna sem stóð fyrir aftan annað markið með fjallagarðinn í baksýn, tek ég eftir því að það er farið að þykkna all verulega upp í kringum fjöllin og þrumugnýr í næsta nágrenni. Það hafði svo sem verið eitthvað um rigningu síðustu daga án þess þó að úrhelli hafi skollið niður, þessi ský gáfu þó til kynna að þennan daginn yrðu úrkomumælar að hafa sig alla við. Það var ekki margt um manninn á vellinum sem tekur u.þ.b. 50 þúsund áhorfendur, kannski 20.000 manns. Engu að síður var mikil stemming og ekki versnaði hún eftir því sem við klifruðum upp stúkuna til að sameinast aðal kjarna stuðningsmanna heimaliðsins. Það var vel tekið á móti mér af nærstöddum stuðningsmönnum, sem fannst mjög sérstakt að hvítur náungi norður úr rassgati væri mættur til að styðja baki við liðið þeirra. Eftir að hafa komið okkur fyrir efst í miðri stúkunni, kemur sölumaður aðsvífandi, bjóðandi upp á snakk, bjór og marijúana-rettur. Hópurinn keypti sér nokkrar marijúana-rettur, á meðan ég lét mér bjórinn nægja. Á þessum tímapunkti voru liðin að hita upp, sem og lýðurinn sem kyrjaði stuðningssöngva í miðjum reykmekkinum. Eftir að liðin hefðu gengið til búningsklefa, róaðist ástandið örlítið, en það var ekki hægt að segja það sama um veðurskilyrðin. Skýjin voru orðin mjög dökk og komin skuggalega nálægt vellinum, með tilheyrandi eldglæringum og dúndrandi þrumum í sömu andrá, sem gaf til kynna að eldingarnar voru mjög nálægt okkur.
Söngvarnir voru skemmtilegir og auðvelt að raula með þeim, þannig að ég var fljótur að slást í hópinn, nærstöddum til mikillar gleði. Þegar leikurinn síðan hófst, magnaðist stemmingin svo um munaði, enda var komið aðeins meira af fólki á völlinn. Leikurinn byrjaði fjörlega og var knattspyrnan sem boðið var upp á hröð og lipur. Gestirnir komust fljótlega yfir með glæsilegu marki en stuttu síðar voru heimamenn búnir að jafna og lýðurinn gjörsamlega trylltist af gleði. Stuttu eftir jöfnunarmarkið byrjuðu dropar að falla af himnum ofan og það engin smá stykki, ekki leið á löngu þangað til að úrhellið var skollið á og við orðin gegndrepa á augabragði. Rigningin virtist ekki hafa nein áhrif á stuðningsmenn sem rifu sig úr treyjunum og byrjuðu að hoppa af meiri krafti til að halda á sér hita. Eftir  skamma stund var regnið farið að hafa áhrif á spilamennsku liðanna, enda var boltinn farinn að stoppa í stórum pollum sem mynduðust vítt og dreift um völlinn. Á sama tíma voru eldingar farnar að skella á bílastæðum sem stóðu við völlinn með tilheyrandi látum, líkt og væri verið að varpa sprengjum við völlinn. Satt best að segja leist mér ekkert á blikuna og hugsaði að kannski væri betra að leita skjóls, það var hins vegar ekkert fararsnið á lýðnum í kringum mig, sem bætti bara í taktinn og söng enn hærra. Það var til happs að langt var liðið á fyrir hálfleik, þannig að menn spiluðu við þessar aðstæður í 10 mínútur eða svo. Þegar flautað var til hálfleiks kom ég mér inn undir stúkuna til að verjast regni og eldglæringum. Stuttu síðar heyrði ég að töf yrði á leiknum sökum vatnsfalls, hins vegar ætluðu starfsmenn að reyna að valta vatninu af vellinum. Flestir héldu sér undir stúkunni á meðan beðið væri eftir því að flautað væri til leiks á ný, það var því ágætis stemming þar sem ég stóð gegndrepa. Þegar við stöndum á spjalli tek ég eftir því að einhver náungi er að klifra utan á byggingunni og undirbýr sig að halda áfram upp blautt rimlanet (líkt og er notað í leikskólagrindverk á Íslandi) þar sem við stóðum, í u.þ.b. 10 metra hæð. Hann hélt síðan áfram upp rimlanetið, en var næstum því dottinn á einum tímapunkti, s.s. kolruglaður einstaklingur vinnandi í því að komast frítt á völlinn. Sem betur fer komst náunginn yfir þessa hindrun og upp í stúkuna utanverða. Meðan á öllu þessu stóð var enn úrhelli og eldingarnar berjandi bílastæðin í grennd, virkilega sérstök stemming á sunnudags eftirmiðdegi. Fljótlega eftir að klifurkötturinn hafði lokið listum sínum, stytti örlítið upp og því von um að leikurinn myndi hefjast að nýju. Eftir um 50 mínútna bið var tilkynnt í kallkerfi vallarins að leikurinn myndi byrja að nýju og mannskapurinn byrjaði að koma sér fyrir í stúkunni á nýjan leik.

Seinni hálfleikur var skemmtilegur á að horfa og stemmingin góð þrátt fyrir að það byrjaði að rigna á nýjan leik, þó mun minni úrkoma en áður ásamt því að eldingarnar höfðu yfirgefið svæðið. Um miðjan seinni hálfleik geri ég mér grein fyrir að það er allt að verða vitlaust efst í stúkunni, þar sem nokkrir stuðningsmenn standa og hrópa niður á bílastæðaplanið fyrir neðan. Fljótlega voru fleiri búnir að slást í hópinn og farnir að fleygja lauslegum hlutum niður á planið fyrir utan völlinn. Þegar ég nálgast ástandið tek ég eftir því að menn eru að öskra á óeirðalögregluna fyrir neðan og nokkrar sprengingar heyrðust í nágrenni við lögregluna, líklegast hefur verið um að ræða stóra kínverja sem fleygt hafi verið í áttina að lögreglunni. Hrópin innhéldu grófan munnsöfnuð og ásakanir um að lögreglan væru óðir morðhundar osfv. Eftir að lögreglan hafði komið sér í skjól, snéri lýðurinn sér aftur að leiknum og stemmingin hélt sínu striki. Leikurinn var vel spilaður þrátt fyrir erfiðar aðstæður en til allra óhamingju töpuðu heimamenn 2-3 og því var mannskapurinn nokkuð súr að leikslokum. Ég rölti með strákunum af vellinum og ákvað síðan að kveðja mannskapinn fyrir utan völlinn, enda voru menn ekki líklegir til að kíkja á barinn eftir allt volkið. Sjálfur var ég gegndrepa með buxurnar hangandi utan á mér, enda beltið hvergi sjáanlegt fyrir utan völlinn. Það var ekki laust við að mér væri orðið svolítið kalt, enda var komð myrkur og því betra að koma sér á gistiheimilið í heita sturtu. 

Ég hóf því að rölta sömu leið til baka í votum strandarsandölum sem gerðu það að verkum að þeir héldust illa á fótunum. Þegar ég hafði rölt um stund, geng ég framhjá tveimur horuðum dópistum á tvítugsaldri. Þeir hófu að að biðja mig um pening en ég hunsaði þá og hélt mínu striki. Ekki leið á löngu þar til að ég finn fyrir því að þeir nálgast mig óðfluga og fyrr en varði eru þeir komnir sitthvoru megin við mig. Ég reyndi að láta sem ekkert væri og hélt áfram göngunni á meðan þeir hófu að krefja mig um eitthvað eigulegt úr fórum mínum. Á þessum tímapunkti var mér ekkert farið að lítast á blikuna, (enda eru svona kvikindi oftar en ekki vopnuð), en stóð fastur á mínu og sagði þeim að það kæmi ekki til mála að láta þá fá eitthvað. Þegar þeir hófu að rífa í öxlina á mér, gerði ég mér grein fyrir því að það stefndi í átök okkar á milli og ýtti því við öðrum þeirra. Á meðan á þessu stendur sé að á næsta götuhorni eru 3 náungar sem standa við skellinöðrur og tek ég eftir því að einn þeirra nálgast okkur með einhverskonar járnstöng í hendinni, hrópandi eitthvað sem ég gerði mér ekki grein fyrir hvað væri. Eitt augnablik hugsaði ég með mér að nú fyrst væri ég kominn í djúpan skít og óttatilfinning skreið niður mænuna. En fljótlega áttaði ég mig á því að dópistarnir voru hættir að atast í mér og lagðir á flótta yfir götuna, á meðan náunginn með járnstöngina hljóp í humátt á eftir þeim. Mér létti mikið enda gerði ég mér strax grein fyrir að þarna voru venjulegir borgarar að koma mér til hjálpar. Ég hóf því að rölta áfram mína leið í hálfgerðu sjokki, með það fyrir augum að koma mér sem fyrst á gistiheimilið. Ég þakkaði því fyrir mig án þess þó að nema staðar, sem ég síðar sá eftir, því það er aldrei að vita hvernig þetta hefði endað hefðu þessir 3 náungar ekki verið á næsta leiti. Þetta atvik staðfesti fyrir mér það sem ég hafði lesið mér til um, að kólumbíumönnum er mikið í mun um að bæta þá slæmu ímynd sem þjóðin hefur fengið á sig undanfarna áratugi. Ég var því ákveðin í því að láta þetta atvik ekki slá mig útaf laginu og halda áfram að bera traust til almennra borgara þessa fallega lands.
Þegar ég hafði sturtað mig og snætt, lenti ég á spjalli við aðra gesti og sérstaklega við finna einn sem er af rússnesku bergi brotinn. Hann tjáði mér að næsta dag hefði hann hug á því að skoða náttúruverndarsvæði sem samanstendur af miklu skóglendi og er staðsett á hálendinu fyrir ofan borgina. Mér leist vel á þessa hugmynd, enda fínt að komast í rólegra umhverfi til að endurhlaða batteríin. Ég sat um stund og spjallaði við þá gesti sem ég hafði þegar kynnst. Þá birtist Felipe enn og aftur með kólumbíska brennivínið, hvetjandi mannskapinn í enn eina flöskuferð á torgið góða. Í þetta skiptið ákvað ég að draga mig í hlé og horfa á eina kvikmynd eða svo. Þessi dagur var þegar orðin nógu viðburðaríkur og ævintýra-kvótinn því orðinn uppþurinn að sinni.  (Hægt er að stækka myndirnar með því að smella á þær)











fimmtudagur, 12. apríl 2012

Turbo - Medellín

Ég vaknaði snemma um morguninn til að vera öruggur með að ná spíttbátnum til borgarinnar Turbo. Fjölskylduna sem rak gistiheimilið kvaddi ég með virtum og rölti í áttina að bryggjunni með nokkrum krókum til að kveðja fólk sem ég hafði lent á spjalli við síðustu daga. Þegar að bryggjunni er komið tek ég eftir því að fullt af fólki er þegar mætt og starfsmenn farnir að taka við farangri til að vigta, en á þessari litlu bryggju gilda sömu lögmál og á alþjóðlegum flugvöllum, það þarf að borga aukalega fyrir hvert kíló umfram 20 kílóa markið. Sem betur fer vó farangurinn minn ákkúrat 20 kíló, enda var ég ekki með pening fyrir einu skitnu aukakílói! Eftir nokkra bið var loksins komið að því að koma farþegum í bátinn, sem var opinn trébátur með 5 bekkjum þvert yfir skrokkinn og á hverjum bekk rúmuðust 4-5 manneskjur. Fyrir aftan bekkina stóð kapteinninn við stýrið og stjórnaði aðgerðum, á meðan hundtryggur aðstoðarmaður hans gekk úr skugga um að tveir risastórir utanborðsmótorar væru í lagi. Farangrinum var hlaðið fremst í bátinn og yfir hann var dregið segl. Ég tók eftir því að það var talsverð alda útivið og því viðbúið að ferðin myndi reyna á bakið og afturendann, þessa áætluðu þrjá tíma.
Ég kom mér fyrir á næst aftasta bekk lengst til vinstri, með það fyrir augum að fólkið fyrir framan mig mundi taka á sig mestu gusurnar þegar báturinn skylli á öldunum, en um leið hafði ég bátshliðina til að styðja mig við í mesta hamaganginum. Þegar allir voru komnir með sæti og búnir að festa á sig björgunarvesti var lagt í hann með hamagangi. Fyrr en varði var ég orðinn rennblautur, sökum þess að báturinn þurfti að hægja ferðina í mestu hliðaröldunum og við það skvettist sjórinn yfir mig allan. Það var svo sem ekki alslæmt enda mjög heitt í veðri þennan daginn og sólin dúndraði geislum sínum sem aldrei fyrr. Ég var fljótur að átta mig á því að kona um fimmtugt sem sat mér við hlið var langt frá því að vera allsgáð, það varð síðan staðfest þegar hún dró fram pela af rommi og slurkaði tveimur gúlpsopum í sig. Það var auðfundið nefinu einu, að hún var búin að vera við þessa iðju sína í þónokkurn tíma, því eimaður fnykurinn uppúr henni barst auðveldlega að vitum mínum, þrátt fyrir nokkuð sterka sjávargolu í áttina að henni. Ég sá að hún var frekar illa á sig kominn og bauð henni því vatn að drekka sem hún þáði með veiku brosi, síðan teigaði hún hálfa flöskuna á augabragði. Á móti bauð hún mér slurk af rommi sem ég afþakkaði pent.
Sjóferðin virtist ætla að vera lengri en ég bjóst við þar sem að báturinn þurfti reglulega að hægja á ferðinni vegna öldugangsins sem að mestu gekk á vinstri hlið bátsins, s.s. þar sem ég sat. Konan mér við hlið var mitt á milli svefns og vöku, sem gerði það að verkum að hún hallaði stundum höfðinu á öxlina mína svo að mér sortnaði um augun sökum eimaða andardráttsins. Ekki bætti úr skák þegar við loksins fórum að sjá land beggja megin flóans þá verður báturinn bensínlaus. Eftir hálftíma eða svo kemur aðsvífandi annar bátur úr gagnstæðri átt. Til allra hamingju gátu þeir lánað okkur nógu mikið bensín til að komast á leiðarenda, en til þess að það tækist yrðum við að fara hægar yfir. Það tók þessa snillinga 20 mínútur álpast við að koma bensíninu yfir í okkar bát sökum smá öldugangs, sem endaði með því að brúsanum var kastað fyrir borð með reipi bundið við haldfangið. Þegar þarna var komið við sögu var þolinmæði mín komin á ystu nöf svo ekki sé meira sagt. Eftir 5 tíma „eimaðan“ velting og gusugang komumst við loks á leiðarenda, reyndar með enn einu stoppi til að bæta á bensínið í blálokin. Það var fljótséð að Turbo væri ekki beint draumastaðurinn í þessari ferð, svo ég ákvað að finna gistiheimili til að skola af mér sjóinn og skipta um föt áður en lengra væri haldið. Fljótlega fann ég gistiheimili sem ég hafði punktað niður hjá mér þegar ég var í Panamá. Ég samdi við eigandann að borga honum hálfan sólarhring eftir að hafa verið tilkynnt um að flestar rútur til Medellín yfirgæfu Turbo um kvöldið.  Ég var reyndar fegin því, enda gat ég ekki hugsað mér að fara beinustu leið í 10 tíma rútuferð eftir allt volkið fyrr um daginn.

Eftir góða og langa sturtu ákvað ég að skella mér í göngutúr um bæinn til að snæða, taka út pening og ganga frá rútuferðinni. Turbo er ekki mikið fyrir augað en hefur verið í miklum uppgangi síðustu ár sökum góðrar staðsetningar fyrir uppskipun, enda með vegatengingar við aðal samgönguæðar landsins. Þungvopnaður lögreglumaður (M-16 rifill og skammbyssa) með Ray-ban sólgleraugu leiðbeindi mér góðfúslega að næsta hraðbanka og í kveðjuskyni ráðlagði hann mér að flagga ekki seðlum á þessum slóðum. Sem betur fer var lítið mál að taka út pening og því næsta skref að ganga frá rútuferðinni. Eftir að hafa gengið á milli staða og athugað með verð og tímasetningar, komst ég að þeirri niðurstöðu að best væri að taka næturrútuna, þrátt fyrir að ég mundi ekki sjá mikið af umhverfinu á leiðinni, en aftur á móti kæmi ég til borgarinnar í dagsbirtunni. Ég snæddi síðan á veitingastað sem stóð aðeins útúr miðkjarnanum enda var ég kominn með reynslu af því að á þessar slóðir sækja heimamenn, sem þýðir góður matur á sanngjörnu verði. Ég rölti síðan um nærliggjandi götur ásamt því að versla vatn og fleira fyrir rútuferðina. Eftir allt þetta rölt ákvað ég að koma mér aftur á gistiheimilið og taka létta kríu þar sem ég var með einstaklingsherbergi og því meiri möguleiki á einhverju næði.
Þegar ég kem í andyri gistiheimilisins, sem var á annarri hæð, ákvað ég að skella í mig einum bjór og reykja eina rettu á svölunum, svona rétt á meðan ég fylgdist með mannlífinu á torginu fyrir framan gistiheimilið. Þá kemur aðsvífandi maður um fimmtugt og byrjar að spjalla við mig á spænsku og tjáir mér að hann sé frá Bandaríkjunum. F-Fljótlega áttaði ég mig á því að þessi náungi væri léttruglaður, enda sagði hann mér allskyns vafasamar sögur af sér þarna um slóðir. Ekki bætti úr skák að náunginn var með stærðarinnar glóðurauga, sem honum áskotnaðist á bar þegar honum sinnaðist við einhvern heimamann, nokkrum kvöldum áður. Hann tjáði mér að hann væri bisnessmaður og stundaði helst innfluttning á allskyns vörum frá Mið og Suður Ameríku til Bandaríkjanna. Eftir klukkustunda spjall var ég orðinn þreyttur á þessum kynlega kvisti og tjáði honum að ég þyrfti að leggja mig um stund. Það tók mig hins vegar korter í viðbót að losna undan orðaflæminu út úr manninum, sem virstist engan enda ætla að taka.
Ég náði ekki að festa svefn í nema 30 mínútur en horfði þess í stað á sjónvarpið þangað til að klukkustund var til brottfarar. Eftir að hafa beðið í klukkustund umfram brottfaratíma, renndi rútan loks af stað. Ég var klæddur í stuttbuxur og bol, enda um 30 stiga hiti í Turbo, sem var mjög þægilegt í fyrstu eða þangað til að líða tók á ferðina, enda var ferðin að hluta til yfir hálendi. Loftkælingin var á fullu „blasti“ allan tímann og því átti ég erfitt með að festa svefn sökum kulda, enda hafði ég ekkert til að breiða yfir mig. Ekki sá ég mikið á leiðinni annað en þá bæi sem við renndum í gegnum. En þegar sólin fór að rísa aftur tók ég eftir því hversu fallegt landslagið er á þessum slóðum. Umhverfið var yfirfullt af fjalllendi og dölum með mismunandi grænum litum og blómlegum trjám þess á milli, virkilega fallegt landslag. 

Þegar rútan byrjaði síðan að renna niður á við, blasti við borgin Medellín í allri sinni dýrð, risastór borg í fallegum dal. Nokkra stund tók að smeygja rútunni niður hlíðina og í átt að stórri umferðamistöð neðarlega í dalnum, en það skipti engu máli því aðkoman var stórkostleg, enda sólin nýkominn uppfyrir fjöllinn á meðan dalalæðan hörfaði í makindum sínum. Það tók mig nokkrar mínútur að finna út hvernig væri best að koma sér í áttina að miðkjarna borgarinnar. Sem betur fer kom í ljós að ég gat tekið lestina beint frá umferðamiðstöðinni og þar af leiðandi beinustu leið að einu gistiheimilinu sem ég hafði kortlagt í nálægð við Metro-kerfi borgarinnar. Það kom mér nokkuð á óvart hvað lestarkerfið var flott enda búinn að vera í löndum þar sem að samgöngukerfin eru mun frumstæðari og langt frá því að vera eins örugg og þessi lestarferð. Einnig hjó ég eftir því að það var hægt að fara með „lestar-kálfum“ upp hlíðarnar, fyrir ofan byggðina, beggja megin dalarins. Á meðan lestinn renndi í gegnum þéttbyggðan dalinn, sá ég fátækrahverfi í fyrstu, en eftir því sem nær dró miðkjarnanum birtust nýlegri byggingar í bland við klassískan nýlendustíl. Á þessari stundu rann almennilega upp fyrir mér að nú væri ég kominn til Suður Ameríku, það var sem nýr tónn væri sleginn í hausinn á mér á þessu augnabliki, seinni hluti ferðalagsins var hafinn. Þegar ég kem á gistiheimilið tekur á móti mér þessi líka gyðja, sem tjáir mér brosandi að rúm séu á lausu en ég þurfi að bíða til hádegis til að fá rúmið. Ég henti því farangrinum í geymslu og kom mér þægilega fyrir í setustofunni með fartölvuna að vopni. Þar hóf ég að kynna mér betur fæðingar- og dánarstað Pablo Escobar, frægasta kókaínbaróns sögunnar. Eftir að hafa vafrað um stund á netinu tók ég þá ákvörðun að dvelja í u.þ.b. viku í þessari borg til að geta kynnt mér hana sæmilega, en í sama streng undirbúa næstu áfangastaði.
Frá fyrstu mínútu fann ég að þetta gistiheimili var ákkúrat í þeim anda sem mér fellur best við, rólegheitar stemming með vinalegu starfsfólki og gestum. Húsnæðið er stórt raðhús á tveimur hæðum með litlum garði og verönd, þar sem stendur lítill bar.  Ég ákvað því að festa 3 nætur og sjá síðan til um framhaldið. Eftir að hafa komið mér fyrir, ákvað ég að skoða nánasta umhverfi við gististaðinn, ásamt því að kíkja í stórmarkaðinn sem stóð spölkorn frá. Ég eyddi kvöldinu á gistiheimilinu og lenti á góðu spjalli við nokkra gesti sem höfðu verið þarna um nokkurt skeið. Hins vegar var farið snemma í háttinn þetta kvöldið, enda hafði ég ekki sofið mikið í rútunni nóttina á undan. 

Daginn eftir ákvað ég að kíkja í miðbæinn sem endaði með því að ég rölti yfir í annan borgarhluta þar sem aðal verslunarmiðstöð borgarinnar er staðsett, ætlunin var að finna einhvern fatnað en ég sá ekkert sem mig langaði beint í og því féll sú ferð um sig sjálfa. Þegar ég síðan nálgast eina af lestarstöðunum, tek ég eftir litlu torgi þar sem að ungt fólk safnast saman, drekkur bjór og spjallar. Þegar þarna var komið við sögu var ég orðinn nokkuð bjórþyrstur, enda vel heitt þennan daginn, svo að ég keypti mér einn og tyllti mér í á lágan vegg sem stóð við gangstéttina. Þar fyrir voru tveir kólumbíumenn á þrítugsaldri og við fórum að spjalla heima og geima. Þeir gáfu mér góð ráð varðandi að nálgast miða á knattspyrnuleiki og hvernig skemmtanalífið virkar í borginni. Þegar ég kvaddi þá, nokkrum bjórum síðar, var ég orðin ágætlega hífaður og því kominn tími á að skella sér í sturtu og hressa sig við. Þegar ég kem á gistiheimilið var nokkur hugur í mönnum þar á bæ, þar sem að ætlunin var að kíkja út á lífið, enda komið föstudagskvöld!
Einn kólumbíumaður var staddur á gistiheimilinu, Jelipe að nafni (sjá mynd) og dró hann upp „brennivín“ heimamanna eða „aguardiente“ sem er með anís-bragði. Það var hins vegar annað sem hann dró upp úr hattinum sem kom mér í opna skjöldu, hann skyldi íslensku og gat talað nokkuð í ofan álag. Hann útskýrði fyrir mér að hann hefði búið um hríð á Íslandi og átt tvær íslenskar kærustur. Kólumbíumenn héldu því áfram að koma mér á óvart og í þetta skipti hvað mest, ekki skemmdi fyrir að náunginn er stórskemmtilegur og hélt uppi stemmingunni þarna á gistiheimilinu. Það endaði með því að við þurftum að taka 3 leigubíla til að kíkja á aðal torgið þar sem fólk safnast saman áður en farið er á skemmtistaðina. Við enduðum á því að drekka fleiri pela af „aguardiente“ og spjalla fram eftir nóttu. Við urðum hins vegar aldrei svo fræg að fara á neinn skemmtistað enda engin þörf á því í góðum félagskap. Þynnkan var nokkuð ráðandi daginn eftir sem gerði daginn frekar daufan, smá rölt um nærliggjandi hverfi til fá sér í gogginn og síðan aftur á gistiheimilið í afslöppun. Seinni part dags mætir Jelipe aftur og byrjar að kynda undir kvöldið með frekar dræmum undirtektum viðstaddra, ég meðtalinn. Þegar leið á kvöldið mætir hann aftur með „kólumbíska brennivínið“ og byrjar að peppa menn upp í að kíkja út aftur. Það endaði með svipuðum hætti og kvöldið áður, nema í þetta skiptið var farið á einhverja bari. Ég endaði með því að missa af hópnum þar sem ég lenti á miklu spjalli við heimamenn, tvær stúlkur og einn náunga sem voru á leið í annan borgarhluta til að kíkja á salsa-stað, en taka skal fram að kólumbíumenn eru óðir í salsa-dans. Ég ákvað að skella mér með þeim, enda þótt einn úr hópnum hafi reynt að tala mig af því, sökum þess að honum leist ekkert á það að ég færi einn með heimamönnum. Við skelltum okkur upp í leigubíl og leiðin lá upp hlíðar borgarinnar. Þegar við síðan komum á áfangastað var nú ekki margt um manninn, enda klukkan aðeins eitt um nóttina og fólk fer ekki að streyma að fyrr en um 3 leytið. Eftir um klukkustund sá ég að þetta væri ekki alveg minn tebolli, enda fátt um manninn og félagskapurinn ekki að gera sig ásamt því að ég var á þessum tímapunkti orðinn heilaþveginn af salsa-tónlist, sem dundi í öllum rútum á ferð minni um Mið Ameríku, ég kvaddi því þremenningana. 

Þar sem að nóttinn var þægilega fersk, ákvað ég að rölta um stund og njóta útsýnisins yfir borgina á meðan ég lækkaði flugið í borgarhluta sem ég þekkti ákkúrat ekki neitt. Þegar ég var kominn á jafnsléttuna fór ég að taka eftir því að ég væri staddur í einhverskonar klúbbahverfi og því nokkuð um manninn. Það fór ekkert á milli mála að þetta væri kannski ekki alveg staðurinn til að fá sér heilsubótargöngu um miðja nótt, en ég hélt þó göngunni áfram í gegnum hverfið. Við eitt götuhornið mætti ég hópi fólks sem samanstóð af tveimur útigangsmönnum, einum dópsala og nokkrum skemmtanafíklum. Ég lenti á spjalli við þetta gengi, sem undraði sig á því að ég væri einn á vappi og það á þessum slóðum. Þrátt fyrir að þetta væri hættulegur staður fyrir útlending þá fann ég ekki fyrir neinni ógn í minn garð. Eftir hálftíma spjall kemur sendill aðsvífandi á skellinöðru. Þegar hjálmurinn seig niður kom í ljós að um væri að ræða unga fallega konu, en hvað hún var að sendast með tók ég ekki eftir. Hún lenti á spjalli við lýðinn á horninu (ég meðtalinn) og undraðist einnig á því hvað ég væri eiginlega að gera á þessum slóðum. Með áhyggjusvip spurði hún hvar ég væri með gistingu og kom þá í ljós að hún ætti leið þar framhjá á leiðinni til baka. Hún bauð mér því að sitja aftan á hjá sér, enda ekki mikið um leigubíla á þessum slóðum. Ferðin tók okkur u.þ.b. 20 mínútur sem við notuðum til spjalla aðeins. Kom þá í ljós að hún væri tveggja barna einstæð móðir sem þyrfti að sinna tveimur vinnum til að skrimta. Þegar ég loks fór að kannast við umhverfið lét ég hana vita og hún hleypti mér af hjólinu. Hún tók ekki í mál að ég borgaði henni fyrir farið, en eftir að ég krafðist þess með brosi á vör, féllst hún á smá greiðslu fyrir ómakið. Ótrúlega viðkunnaleg og góð manneskja þar á ferð. Eftir þetta ævintýri var lítið annað en að koma sér í bælið og takast á við nýjan dag, þar sem að planið var að skella sér á knattspyrnuleik í Kólumbísku deildinni. Þeim degi verða gerð betri skil í næsta bloggi !! 
(myndirnar stækka ef smellt er á þær)











mánudagur, 12. mars 2012

Fyrstu dagarnir í Kólumbíu...


Ég gleymdi að segja frá einu atviki sem ég og þjóðverjinn lentum í þegar við vorum að leita að gistingu eftir að við komum í land frá skútunni í þorpinu Zapzurro sem stendur við landamæri Panama og Kólumbíu. Allur hópurinn fór saman á eitt gistiheimili til að athuga með verð og aðstöðu. Aðstaðan var mjög fín en verðið var mjög hátt og því ákváðum ég og þjóðverjinn að athuga með aðra möguleika í nágrenninu, ekki síst til að fá sitthvort einkaherbergið. Við röltum aðeins út fyrir þar sem að nokkur hús stóðu við ströndina og sáum á skiltum sem stóðu við göngustíginn að um gistiheimili var að ræða. Það fyrsta sem við sáum var nýlegt og lítið strandhús með nokkur tjöld í garðinum. Okkur þótti báðum tilhugsunin að sofa í tjaldi við sjávarsíðuna mjög góð og ákváðum að banka upp á og athuga með laust rými og verð. Við bönkuðum uppá og kölluðum „Hola“ til að gera vart um okkur en fengum hinsvegar engin viðbrögð. Ég fór þá að skoða sturtuaðstöðuna sem var utandyra og athuga betur með tjöldin en þegar á því stóð ákvað þjóðverjinn einhverra hluta vegna að opna dyrnar til að athuga hvort einhver væri inni. Allt í einu kemur maður fram í dyrnar, alveg trylltur og hótar saklausa þjóðverjanum öllu illu. Ég náði að róa manninn örlítið niður og útskýra að hann hefði opnað hurðina í hugsunarleysi og að við værum ekki þjófar. Hann var hins vegar enn mjög reiður og sagðist hafa verið að njóta ásta með konunni sinni og að honum hefði brugðið mjög við þessa truflun, svo mikið að hann gleymdi að leita að skammbyssunni sem hann geymir við rúmgaflinn. Þjóðverjinn var alveg miður sín, svo miður sín að brunnið andlit hans var orðið mjög fölt að sjá. Á meðan þjóðverjinn stóð stjarfur og fölur, steig ég fram fyrir hann og bað manninn innilega afsökunar á þessu háttarlagi en tjáði honum jafnframt að við hefðum verið að hrópa fyrir utan í þeim tilgangi að athuga með gistingu en engin svör fengið. Hins vegar væri ekki hægt að útskýra hegðun þjóðverjans með öðrum hætti en að hann væri að jafna sig eftir siglinguna og reyndar mjög þreyttur eftir lítinn svefn undanfarnar nætur. Maðurinn sem sagðist vera frá Kólumbíu og bar það einhvern veginn með sér útlitslega séð, þ.e. hann var með þetta típíska útlit sem kólumbískir glæpamenn bera í bandarískum kvikmyndum. Hann hins vegar róaðist fljótt niður þegar hann áttaði sig á því að við vorum saklausir ferðalangar og tjáði okkur að við gætum vel gist í sitthvoru tjaldinu fyrir lítinn pening og að ég gæti fengið að athuga hvort ég gæti náð netsambandi til að hringja til Íslands. Það er ekki hægt að segja annað en að mín tvö fyrstu kynni af kólumbíumönnum í ferðinni hafi verið skrautleg, fyrst munngælarinn í Panamaborg og síðan þessi, sem var tilbúinn að skjóta mig með skammbyssunni sinni, reyndar fyrst og fremst þjóðverjann!

Stemmingin í þorpinu var ekki svo frábrugðin stemmingunni í þorpinu við strendur Panama, allir mjög afslappaðir og lítið um að vera. Ég reyndar tók eftir einu skondnu atviki þegar ég var að versla í sjoppunni sem stóð við hlið kirkjunnar. Þar var presturinn að bíða eftir að einhver myndi láta sjá sig í messu hjá honum. Loksins kom gömul kona og að mér virtist barnabarn hennar, sem þýddi að hægt væri að hefjast handa við messuhald. Ég gægðist stuttu síðar inn í kirkjuna og tók þá eftir að messunni var að ljúka og einungis einn hefði bæst í áheyrendahópinn, sem sagt ekki mikil kirkjustemming á þessum bæ. Sökum stemmingsleysis ákvað ég að fara snemma í háttinn og klára bókina sem ísraelska konan í Nigaragua gaf mér eftir matarboðið í Granada. Ég svaf eins og steinn þessa nóttina enda þægilegt að fá sjávargoluna inn í tjaldið á meðan öldurnar skullu á ströndinni 20 metrum frá tjaldinu.

Morguninn eftir fór allt föruneytið yfir í næsta bæ á mjög svo frumstæðum hraðbát í miklum öldugangi. Í þessum bæ, sem heitir Capurgana, gátum við fengið vegabréfsáritun en einnig áframhaldandi 3 tíma „spíttbáts-siglingu“ yfir til borgarinnar Turbo sem hefur vegatengingu við meginlandið, sjá kort. Það sama var upp á teningnum líkt og áður í þessu ferðalagi, vegabréfsáritunin var gefin án vankvæða. Næst fór ég með eigendum skútunnar, Bruno og Ingrid, til að skála í nokkrum bjórum í kveðjuskyni. Við tylltum okkur við lítið borð sem stóð í námunda við litlu höfnina þar sem var verið að afferma gamlan dall með trúarlegri áritun, líkt og tíðkast með rúturnar í Mið Ameríku. Þarna sátum við að spjalli mitt á milli þess sem að við vorum að sinna lítilli forvitinni stúlku sem var heilluð af myndbandsupptökutæki sem hjónaleysin voru með. Þá kemur aðsvífandi kvenlegur karlmaður og kynnir sig fyrir okkur. Hann segist vera frá Austurríki og sé að vinna að ljósmyndaverkefni og spyr mig hvort ég vilji sitja fyrir hjá honum. Ég spurði um hvað málið snérist og tjáði hann mér að um væri að ræða mynd af mér með fisk í hendi, líkt og ég hefði veitt hann sjálfur, þema verkefnisins var s.s. ferðamenn á fiskveiðum. Við brostum yfir þessari bón og ég sló til og hann tók nokkrar myndir af mér með stórum fisk í hendinnni, á meðan Ingrid og Bruno tóku myndir af atburðinum skellihlæjandi. Ljósmyndarinn bað mig síðan um netfangið mitt til þess að senda mér þá mynd sem yrði fyrir valinu og var hinn ánægðasti með fyrirsætuna þennan daginn (hann sendi mér myndina 4 vikum síðar). Ég kvaddi síðan Bruno og Ingrid með virtum þar sem að þau þurftu að koma sér með síðasta bátnum yfir í víkina þar sem að skútan var staðsett. Ég ákvað hins vegar að staldra við í þessum heillandi bæ þar sem að aðal farskjótarnir voru hestar, hestvagnar og reiðhjól, þar sem að eina vélknúna faratækið var traktor með vagn í eftirdragi sem notaður var til ruslasöfnunar. Sem sagt frekar afslappað ástand!

Ég varð að finna mér gistingu og ákvað að fara eftir ábendingu skipstjórans sem sagði mér frá gistiheimili sem stæði við strandlengjuna og þar gæti ég fengið einkaherbergi fyrir lítinn pening. Ég rölti um dágóða stund til að finna gistiheimilið og þegar ég loks fann það varð ég ekki fyrir vonbrigðum. Íburðalítið en fallegt gistiheimili með einkaherbergi og eigin sturtu. Ekki skemmdi fyrir að hafa útsýni yfir sjóinn og hengirúm á svölunum. Gistiheimilið var rekið af ungri fjölskyldu sem voru hin vinalegustu og vildu allt fyrir mann gera. Um kvöldið gerði ég mér göngutúr um þennan mjög svo afslappaða bæ og síðan á gistiheimilið þar sem að föruneytið var niðurkomið. Ég hafði hug á því að þá hressustu með mér til að spila pool á einni knæpu sem ég rakst á í göngutúrnum. En þeir voru ekki á staðnum, þannig að ég yfirgaf hina fljótlega enda hafði ég enga þörf fyrir félagskap þeirra. Þetta þýddi aðeins eitt, að skella sér á malartorgið þar sem að litli flugvöllurinn er staðsettur og fá sér einn kaldann. Á leið minni þangað fór ég að taka eftir hversu margir hermenn voru á vappi í bænum og gerði mér fljótlega ljóst að þeir væru þarna sökum þess að skæruliðahreyfingin FARC er staðsett í frumskóginum milli Panama og Kólumbíu. Á þessu tímapunkti var ég orðinn svo gegnsósa af allskyns vopnaburði á ferðum mínum, þannig að mér þótti þetta ekkert tiltökmál. Ég fór frekar snemma í háttinn til að lesa og njóta þess að vera loksins kominn með einstaklingsherbergi, með viftu „nota bene“!

Daginn eftir skellti ég mér í bakaríið sem stendur við endan á malarlögðum flugvellinum til að fá mér kaffi og með því, (reyndar sá ég aldrei flugvél á brautinni á meðan ég dvaldi þarna). Þegar ég kem í bakaríið þá eru þar fyrir 3 unga hermenn og spænskt par. Ég settist á næsta borð við hermennina og tók fljótlega eftir því að þrír M-16 riflar stóðu upp við vegginn í u.þ.b. einni armlengd frá mér, s.s. allt eins og það á að vera á friðsælum og fallegum morgni. Ég lenti fljótlega á spjalli við spænska parið og kom þá í ljós að þau væru að bíða eftir að hitta aðila sem gæti siglt með þau á skútu til Panama. Ég tjáði þeim að ég væri nýkominn úr slíkri ferð og mælti eindregið með því að þau skelltu sér í þessa ferð því hún væri ævintýri líkust. Stuttu síðar kemur Ingrid (kona skipstjórans) aðsvífandi að okkur þar sem við sátum fyrir utan bakaríið og kom þá í ljós að hún væri þessi aðili sem spánverjarnir voru að bíða eftir. Ég hjálpaði Ingrid með að útskýra tilhögun mála útfrá sjónarhorni ferðamannsins sem endaði með því að spánverjarnir slógu til. Ég spjallaði síðan aðeins við Ingrid sem tjáði mér að ég gæti leigt hesta í bænum til að skoða mig um í frumskóginum. Ég kvaddi hana með virtum en ákvað síðan að rölta þangað sem hún sagðist hafa leigt hross. Aumingja hestarnir sem voru til leigu voru bundnir við girðingu á meðan sólin bakaði þá, án þess þó að þeir kæmust í vott né þurrt. Af þessum sökum voru þeir ekki burðugir í vexti og því erfitt að skera úr um hver væri best til þess fallinn að bera mig yfir daginn. Ég ákvað að velja þann yngsta sem eigandinn sagði að væri 5 vetra en hrossið leit hins vegar út fyrir að vera nær tuttugasta vetrinum. Áður en ferðin gæti hafist þurfti ég að ganga frá fataþvottinum, því að allir larfarnir voru komnir á tíma og því best að nýta sólina til að þerra þá fyrir kvöldið. Þegar ég kem á gistiheimilið segir konan mér að ég þurfi ekkert að standa í þessu, hún muni sjá um þetta fyrir mig, enda stæði hún hvort sem er í miðjum þvottum. Virkilega almennileg kona þar á ferð.

Ég fór því að sækja hestinn en á leiðinni velti ég því fyrir mér hvort vesalings skepnan gæti yfir höfuð staðið undir mjög svo lágstilltum væntingum mínum. Þegar ég mætti var búið að leggja á klárinn en ekki gat ég séð að hann hefði fengið einhverja næringu í millitíðinni, þannig að ég ákvað að fara hægt yfir a.m.k. þangað til að ég væri búinn að finna grösugan stað til að hrossið safnað kröftum fyrir áframhaldandi leiðangur. Ég fór því að mestu á feti í gegnum bæinn og meðfram flugvellinum í áttina inn í frumskóginn. Þegar ég kom að fyrstu ánni ákvað ég að brynna hrossinu og leyfa því að bíta gras í 15 mín eða svo. Á meðan á þessu stóð röltu framhjá mér nokkrir innfæddir sem voru á leið í bæinn að sinna einhverjum erindagjörðum en fyrir utan bæinn var að finna eitt og eitt hús á stangli. Það var komið vel yfir hádegi og sólin var farin að berja á hausnum á mér, ég ákvað því að koma mér sem fyrst inn í skólendið og skuggann. Ferðinni var heitið að fossi sem átti að vera í u.þ.b. klst. göngufæri frá bænum en þar ætlaði ég að baða mig í köldu lindarvatninu. Hrossið lifnaði aðeins við að fá einhverja næringu ásamt því að ég beitti mér í því að vekja hann aðeins, enda hrossið vant því að hafa óvana túrista á herðum sér og var því dofin eins vill verða með leiguhross. Eftir að hafa farið yfir nokkra læki í viðbót með stór flöktandi fiðrildi ásamt ókunnugum en fallegum fuglasöng , ákvað ég að þræða mér upp með einni lítilli á. Þegar ég hafði þrætt ánna í 15 mín eða svo gerði ég mér grein fyrir því að ég hlyti að hafa farið á mis við réttu leiðina. Ég steig því aftur af hrossinu til að leyfa því að bíta, á meðan vafði ég mér sígarettu og hugleiddi næsta leik í stöðunni. Þá kemur aðsvífandi eldri maður með stóra sveðju í hægri hendi og virðist vera á leið upp í fjalllendið. Ég kasta á hann kveðju og við byrjum að spjalla saman. Hann sagði mér að hann byggi skógivöxnu fjalllendinu og hefði gert það síðastliðinn 25 ár. Hann hafði alist upp á þessum stað en ákveðið sem ungur maður að fara í borgina til að freista gæfunnar. Eftir 20 ár í borginni ákvað hann að snúa aftur á heimaslóðir enda fannst honum hann aldrei finna sig í hringiðju borgarinnar. Hann tjáði mér að nokkuð væri um að fólk byggi eins og hann þar sem að lífið er dregið af gjöfum náttúrunnar. Að lokum benti hann mér á að ég væri löngu farinn framhjá afleggjaranum sem lá að fossinum og þyrfti því að snúa við og leita að skilti á hægri hönd. Ég þakkaði honum kærlega fyrir og karlinn kvaddi mig glaðbeittur yfir þessum óvænta fundi okkar.
Ég var fljótur að átta mig á því hvar mér hafði misfarist áður og var því kominn á áfangastað fyrr en varði. Ég þurfti að skilja hestinn eftir nokkuð frá staðnum en það var allt í góðu því hann hafði gras og skugga til að láta sér líða vel. Ég kem því næst að húsi og einhverskonar opnu móttökskýli þar sem fyrir voru hjón sem bjuggu þarna og sáum um þetta verndarsvæði. Þau tjáðu mér að það þyrfti að greiða aðgangseyri sem ég fúslega greiddi enda orðinn spenntur fyrir að sjá þennan foss og baða mig í hylnum. Ég hóf því að ganga inn í lágstemmt gil en var fljótur að átta mig að þetta gæti nú ekki verið íburðamikið vatnsfall þar sem að þetta var hálfgerð spræna sem rann mér við hlið. Það kom svo á daginn að fossinn var lítið annað en spræna sem rann niður klettana, engu að síður var umhverfið mjög fallegt með alls kyns plöntum og dýrahljóðum, ekta frumskógarstemming! Ég naut þess því að kæla mig í fersku vatninu og tók mér góðan tíma í þann gjörning. Hesturinn var allur að hressast við í bakaleiðinni enda búinn að nærast þónokkuð yfir daginn. Ég stoppaði aðeins einu sinni á leiðinni til baka, svona til að gefa hestinum loka pústið fyrir síðustu kílómetrana. Það gerði honum gott því að hann var orðinn tilbúinn til að skella sér á stökk síðasta spölinn inn í bæinn. Ég reið síðan um flestar götur bæjarins sem var upplifun á við að vera kominn inn í einhverskonar latínskan vestra, moldargötur og engin bifreið á svæðinu. Frábær dagur var að kvöldi kominn og við tók rafmagnsleysi nánast allt kvöldið og nóttina, þar sem að rafmagninu sló út 25 sinnum.

Næstu dagar fóru í að baða sig í sólinni og sjónum, fara í göngutúra, drekka bjór og snæða í rólegheitum í félagskap hermanna, sem fannst mjög merkilegt að hafa víking við borðið og spurðu mikið um mínar heimaslóðir. Eftir 5 nætur á þessum yndislega afskekta stað var komið að því að halda ævintýrinu áfram og bregða sér í borgina Turbo, ég var einnig orðinn nánast peningalaus en það var helvítis mál og dýrt að nálgast meiri gjaldeyri á þessum stað. Til að komast þangað þarf að ferðast með opnum tré-hraðbát í u.þ.b. 3 klst. oft á tíðum í ágætis öldugangi. Ég vaknaði snemma til að vera öruggur með far en í kæruleysi mínu hafði ég ekki pantað farið deginum áður. Þegar ég kem að bryggjunni var ekkert pláss laust fyrr en daginn eftir og ég einungis með pening fyrir farinu og tveimur máltíðum. Ég var því staddur í krísu þar sem að augljóst var að ekki var til peningur fyrir gistingu. Engu að síður rölti ég aftur að gistiheimilinu til að fá að geyma farangurinn, en þegar ég útskýrði fyrir hjónunum hvernig væri komið fyrir mér buðu þau mér fría gistingu í sama herberginu, yndislegt fólk í alla staði. Vegna peningaleysis fór dagurinn í lestur og einn göngutúr til að snæða fyrir restina af peningunum, ásamt því að kaupa vatn og brauð fyrir sjóferðina daginn eftir.
Framhald síðar.... (sjá myndbönd hér að neðan)















föstudagur, 13. janúar 2012

Sigling um San Blas eyjaklasann!

Ég lagði af stað frá Panama City til að fara í sjávarpláss sem heitir Puerto Lindo þar sem ég átti að hitta skipstjórann af skútunni, Bruno að nafni. Ég þurfti fyrst að koma mér í stærri bæ og síðan skipta um rútu til að komast til Puerto Lindo. Mér hafði verið ráðlagt að stíga úr rútunni nokkuð áður en komið var að umferðamiðstöðinni þar sem ég gæti keypt áfengi osfv. til að taka með í ferðina, enda útilokað að komast í verslun næstu vikuna. Það var hins vegar ekki mikið úrval af áfengi í þessari verslun, en ég náði engu að síður að finna ágætis rauðvín og ásamt rommflösku til að dreypa á. Þegar ég er loks búinn að versla stilli ég mér upp þar sem að hinar litríku hænu-rútur stoppa. Hver rútan af fætur annarri stoppar en hvergi sést sú sem ég þurfti að taka, ég spyr mann sem stendur mér við hlið hvort ekki sé um réttan stað og rútu að ræða og hann tjáir mér að svo sé. Við lendum á spjalli og kemur í ljós að hann vinnur sem eftirlitsmaður varðandi öryggi og réttindi starfsmanna allra fyrirtækja á þessu svæði, virkilega viðkunnalegur náungi. Þegar rútan hans loks kemur þurfti ég að bíða í 2 klst í viðbót, sem liðu þó fljótt á meðan ég fylgdist með fjölbreyttu mannlífinu. Rútan var reyndar einungis á leið í áttina að áfangastað mínum, en þar sem að um sunnudag var að ræða tók ég ekki sénsinn á að bíða eftir réttu rútunni og ákvað því að stökkva upp í þessa. Rútan stoppaði síðan við afleggjara og skilti sem sagði að um 12 km vegalengd væri að bænum. Þar rétt á undan hafði rútan keyrt framhjá litlum frekar illa förnum bæ eftir jarðskjálfta, þar sem var verið að spila fótbolta við aðalveginn og allir horfandi á leikinn, einnig lögreglan.
Við afleggjarann stendur hálfgerður bar/verslun með einu billjardborði og málhöltum ógæfumanni til skreytingar. Ég bíð rónanum upp á sígarrettu rétt á meðan ég panta mér bjór og spyr um rútuferðir á svæðinu. Ég var varla búinn að taka nema 2 sopa af bjórnum þegar rútan rennir í hlað og er varla á því að stoppa fyrir mér. Mér var meinað að stíga inn með bjórinn þar sem að áfengisneysla er bönnuð í rútunum. Ég afhenti því þeim málhalta bjórinn minn, sem brosti útaf eyrum yfir heppni sinni þennan daginn. Í rútunni voru hressir náungar og létt værukær bílstjóri sem keyrði eins og „Bjössi á mjólkurbílnum“ og var nánast búinn að keyra niður jeppa með bát í eftirdragi í einni beygjunni. Spennuþrungin, skemmtileg, en kannski sem betur fer stutt rútuferð! Mannskapurinn í rútunni kvaddi mig með virtum og óskaði mér góðs gengis á ferðum mínum.

Bærinn sem ég gisti í var mjög látlaus, með um 200 íbúum og staðsettur við mjög svo fallega vík sem veitti nokkrum skútum skjól. Íbúarnir eru langflestir múlattar eins og algengt er við strendur karabíska hafsins. Ég byrjaði á því setjast niður hjá lítilli sjoppu við ströndina til þess að fá mér bjór og spyrjast fyrir um gistiheimili á svæðinu. Íturvaxin kona sem afgreiddi mig benti mér á nýtt gistiheimili á móti kirkjunni sem rekið er af Spánverja sem hafði flutt þangað fyrir um ári síðan. Þegar ég kem þangað sé ég strax að gistiheimilið er enn óklárað og verið að vinna að því að standsetja það. Engu að síður var eitt sameiginlegt svefnherbergi tilbúið og þar var einungis einn gestur, enn einn argentínumaðurinn. Þessi hins vegar var með sérstakara móti, þar sem hann var búinn að vera ferðast meira og minna síðan hann var tvítugur, þar af 10 ár á reiðhjóli um Suður og Mið Ameríku. Þarna var hann staddur á lítilli skútu og að undirbúa bókarskrif sem hann ætlaði að leggja lokahönd á Kúbu. Hann hafði skrifað bók fyrir nokkuð mörgum árum og fyrir það eignaðist hann einhvern pening sem hann notaði til að fjárfesta í bát og meiri ferðalögum, virkilega athyglisverður náungi.

Ég fékk að hringja í skiptstjórann með farsíma eigandans og þá kemur í ljós að hópurinn mundi ekki hittast fyrr en seinni partinn daginn eftir. Mér fannst það svolítið skrítið þar sem að talað var um að lagt yrði af stað snemma þann daginn en var um leið feginn þar sem að Arturo, eigandi gistiheimilisins, var búinn að bjóða mér að nota sjó-kajakinn sinn til að fara yfir á eyju rétt fyrir utan bæinn. Kvöldinu eyddi ég í að rölta um bæinn og fylgjast með hinum afslöppuðu íbúum drekka og spila fjárhættuspil á meðan börnin léku sér á götunni. Ég lenti í því að spila fótbolta-tölvuleik við nokkra unglinga á leið minni á staðinn þar sem áætlað var að hitta áhöfnina daginn eftir. Við hliðina á gistiheimilinu er kirkja þar sem að kór var að æfa gospelsöngva sem ómaði yfir öllum bænum. Fólkið þarna er frekar feimið þannig að ég lenti ekki mikið á spjalli við heimamenn.
Daginn eftir byrjaði ég á því að fara til gamallar konu sem ég hafði borðað hjá kvöldið áður og fá hjá henni morgunverð, sem var fiskisúpa þennan daginn. Þar lenti ég á spjalli við fjölskyldumeðlimi sem fannst mjög athyglisvert að hitta hvítan mann lengst úr norðrinu. Því næst var kominn tími til að prófa kajakinn og skoða þessa eyju. Ég náði að komast á eyjuna án vandræða en hlotnaðist þó ekki að sjá apaketti sem áttu að vera þar sprangandi. Engu að síður naut ég þess að rölta aðeins um og njóta fegurðarinnar á þessum stað. Á bakaleiðinni var sjórinn orðinn úfinn og flæddi stöðugt inn í tómarúm kajaksins, sem var með gat stefninum. Þegar ég síðan er að komast að landi er kajakinn orðinn fullur að vatni. Ég endaði á því að velta kvikindinu og gat með engu móti komist upp í hann aftur þar sem að jafnvægispunkturinn var gjörsamlega farinn. Þetta þýddi að ég þurfti að synda með bátinn í land en var svo óheppinn að lenda á gömlu kóralskeri sem gerði það að verkum að ég skar mig nokkuð á fótunum. Ég náði bátnum loks í land og tappaði af honum vatninu á meðan lítill strákur fylgdist með mér af athygli. Aftur þurfti ég að sjósetja kajakinn til að koma honum á réttan stað en sem betur fer gekk það snuðrulaust fyrir sig. Arturo gaf mér síðan sótthreinsandi púður til að setja á sárin enda nokkuð um sýkingarhættu á þessum slóðum. Hann fullvissaði mig síðan um að hann ætlaði að gera við bátinn án þess að ég færi fram á það við hann. Restinni af deginum eyddi ég í að rölta aðeins um bæinn og virða fyrir það sem fyrir augum bar, t.d. hvernig þeir bera sig að í byggingarframkvæmdum.

Þá var komið að því að hitta áhafnarmeðlimi og aðra farþega í ferðinni. Við hittumst á veitingastað og þegar ég mætti voru flestir komnir nema áhöfnin á skútunni, sem var svo sem alveg í anda spánverja. Þegar skipstjórinn og konan hans loksins mættu á svæðið var orðið ljóst að við vorum mun fleiri en áætlað var og því yrði þrengra á þingi fyrir vikið. Við borðuðum fisk á veitingastaðnum og drukkum nokkra bjóra áður en við vorum ferjuð að skútunni. Ég var í fyrsta holli, þar sem að ég ætlaði mér að ná í gott stæði fyrir næstu 5 nætur. Hins vegar var plássið ekki mikið í skútunni og því þyrfti einn að sofa í hengirúmi sem var fest við mastur skútunnar. Ég var ekki lengi að panta hengirúmið enda lengi ætlað mér að sofa amk eina nótt við slíkar aðstæður. Þegar allir voru loksins komnir um borð var mannskapurinn orðinn létt hífaður fyrir utan Þjóðverjann í hópnum. Annars samanstóð hópurinn af 3 Áströlum, 2 Nýsjálendingum, einum Ameríkana og einum Kanadabúa ásamt Þjóðverjanum, 3 konur og 5 menn. Þetta voru hressir krakkar en ég áttaði mig fljótt á því að þau voru ekki alveg minn tebolli, en ég ákvað hins vegar að láta það ekki eyðileggja ferðina, enda stutt í kofaveiki þegar svo þröngt er á þingi.
Þegar allir voru komnir til hvílu var ég orðinn einn eftir ásamt áhöfninni, en við þurftum að setja upp hengirúmið og lítið plastsegl sem átti að skýla mér fyrir regni og vindi. Nóttin var mjög fögur og stillt með nánast fullu tungli sem ég naut til hins ítrasta, sjá mynd. Hins vegar átti ég erfitt með svefn þar sem að vindar fóru að blása og þar af leiðandi var báturinn og hengirúmið á fleygiferð alla nóttina. Eftir að hafa skellt í mig nokkrum sopum af rommmi, náði ég loks að sofna.

Við lögðum í hann snemma um morguninn enda framundan lengsti leggurinn á siglingaleið okkar um San Blas eyjaklasann, sem innheldur 365 mismunandi stórar eyjur og því hægt að heimsækja nýja eyju alla daga ársins. Sjórinn var frekar úfinn og því var mannskapurinn ekki upp á marga fiska þann daginn, en þynnkan spilaði þar stórt hlutverk. Ég var sem betur fer ekki sjóveikur en hins vegar lítið sofinn eftir rokk og ról í hengirúminu, þannig að ég lagðist til hvílu í einum af þeim rúmum sem í boði voru niðri í þilfari. Þegar ég loks vakna erum við farin að sigla meðal eyjaklasanna sem voru vægast sagt fallegir á að líta, hvítur sandur og pálmatré, nánast óraunverulegt. Þegar við loks komum að eyjunum þar sem við ætluðum að eyða nóttinni, sjáum við mastur standa uppúr sjónum hjá einu kóralskerinu. Skipstjórinn tjáði mér að þarna hefði verið á ferð hópur í sömu erindagjörðum og við, en skipstjórinn hefði misreiknað sig og steypt þar af leiðandi á skerið. Tilraunir til að bjarga bátnum misheppnuðust og því fór sem fór, ekki fór hins vegar sögum af afdrifum ferðahópsins sem var um borð.
Hvert skipti sem við nálguðumst eyjaklasa þurfti að grípa til sérstaks korts sem greinir frá kóralrifum og hvernig á að sigla á milli þeirra, það tók því alltaf smá tíma að nálgast eyjurnar, þar sem að kapteinninn sat á stefni skútunnar og benti í hvaða átt ætti að beygja hverju sinni.
Um leið og bátnum hafði verið komið fyrir á góðum stað, stakk ég mér í volgan og heiðbláan sjóinn og synti til annarrar eyjunnar. Þar var nokkra vinalega frumbyggja að finna og frábær strönd. Ég synti fljótlega aftur í bátinn til að ná mér í pípu-köfunargræjur í þeim tilgangi að skoða kóralrif sem voru á næsta leiti. Þar náði ég að sjá nokkra fallega fiska og önnur kvikindi sem lifa við rifin. Það sem stóð samt upp úr var ljónfiskur (lionfish) sem er þakinn af eitruðum nálum, ég þurfti náttúrulega að lenda í návígi við hann þar sem ég gat ekki komið mér frá honum sökum sjávarstrauma en slapp með skrekkinn. Sökum sömu strauma var ég svo óheppinn að skera mig meira á fótunum en fínir skurðir frá kóralrifum svíða helvíti mikið og það í nokkra daga. Ég náði á endanum að koma mér í land á eyjunni í þeim tilgangi að rölta á stað þar sem væri styttra að synda yfir í skútuna. Ég ákvað að rölta hringinn í kringum eyjuna, sem er eins og hálf Viðey, í þeim tilgangi að skoða betur híbýli Kuna fólksins sem er ættbálkur indjána sem hefur búið á þessum eyjaklasa frá upphafi byggðar. Frumstæðari verða varla híbýlin en fólkið var hið vinalegasta og virtist vera hamingjusamt.

Næstu dagar fóru í að sigla í þessu stórkostlega umhverfi þar sem stoppað var um miðjan dag til að njóta eyjanna og sjávarins í kringum þær. Skútunni fylgdi einn kajak og einn tuðrubátur til að ferja fólk á milli, en oftast nær synti maður á milli í tærum sjónum. Ég byrjaði t.d. alla morgna á því að rísa úr hengirúminu og stinga mér beint í volgan sjóinn, algjör snilld. Á kvöldin var alltaf smá partýstand en unga fólkið fór þó alltaf fyrst að sofa á meðan ég, kapteinninn og konan hans sátum frameftir að spjalli. Ég var sá eini sökum aðstöðu minnar á bátnum sem náði að njóta stjörnuskinsins og ferska vindsins yfir nóttina, sem gerði það að verkum að ég svaf heldur minna en hinir. Sérstaklega svaf ég lítið þriðju nóttina þegar gerði smá storm með tilheyrandi rigningu, þannig að regnið steyptist undir seglið sem átti að skýla mér. Stuttu síðar kemur skiptstjórinn út þar sem að báturinn er farinn að reka að eyjunni og náðum við rétt svo að koma honum frá áður en hann strandaði, en það mátti engu muna. Að lokum slotaði veðrinu og ég sofnaði nokkuð votur en reynslunni ríkari.
Það var draumi líkast að sigla í þessu umhverfi og sleikja sólina ásamt því að skoða kóralrifin umhverfis eyjurnar sem við stöldruðum við hjá. Hins vegar var ég engan veginn í takt við sígjammandi enskumælandi farþega bátsins sem höfðu ferðast saman um tíma og því um nokkuð lokaðan hóp að ræða. Af þeim sökum hélt ég mér nokkuð til hliðar og notaði hvert stopp til að rölta um eða kafa eins míns liðs, á meðan hinir héldu hópinn blaðrandi. Síðustu nóttina bjuggum við til varðeld á ströndinni og sátum frameftir kvöldi eða þangað til unga fólkið fannst það þurfa komast aftur í bátinn, það þarf varla að taka því fram að ég var síðastur frá eyjunni það kvöldið.
Yfir höfuð var þetta ein sú besta ferð sem ég hef upplifað, þrátt fyrir að félagsskapurinn hefði getað verið betri. Þeim til varnar þá var ég þegar búinn að fá mig fullsaddann af enskumælandi túristum á ferðalagi mínu, sem hefur sjálfsagt haft einhver áhrif á mína upplifun á þessum ferðafélögum, sem eru þegar á botninn er hvolft, ágætis fólk.

Ég steig síðan í land í frumskógi Kólumbíu (sem skilur að Panama og Kólumbíu) um kvöldmatarleytið á laugardeginum 29. jan. s.s. á fertugasta afmælisdegi Fjólu systur. Mér var því nokkuð í mun að komast í internetsamband til að hringja til Vestmannaeyja, en var þó vonlítill þar sem að bærinn sem við námum land í var ekki líklegur til að hafa slíkan munað. Engu að síður komst ég loks í internettengingu og eftir að hafa strögglast við að komast í skype-samband náði ég loks til Vestmannaeyja en varla þó, svo lélegt var sambandið. Ég náði þó að kasta kveðju á systur mína og móður, sem voru í banastuði, enda partýið löngu byrjað. Þá nóttina gisti ég í tjaldi við ströndina, sem var ákveðin millilending frá hengirúms-nóttunum þar á undan. 

Næst mun ég fjalla um dvöl mína í Kólumbíu! ATH. myndirnar stækka ef smellt er á þær!