Fyrri skrif

sunnudagur, 9. janúar 2011

Mexíkó á enda kominn og fyrsti dagurinn í Guatemala !


Mexiko að enda komin !

Í síðasta pistli gleymdi ég að minnast á ýmislegt en þó allra helst hversu marga skemmtilega karaktera ég hitti í Mazunte (strandbænum) og stendur þar upp úr aldraður Mexíkani sem hafði marga menninguna sopið. Hann hóf ferilinn sem tamningamaður á búgarði sem endaði með slysi eftir 20 ára feril. Þá tók hann upp á því að ferðast og kynnast framandi menningarheimum sem þróaðist í að vera starfsferill sem spannar yfir 30 ár. Hann hefur unnið mikið fyrir National Geografic og fleiri tímarit sem fjalla um slíka hluti. Hann hefur nánast alltaf dvalið í meira en ár með ættbálkum í Mið og Suður Ameríku  með tilheyrandi skrifum og myndatökum. Nú orðinn 73 ára er hann enn að og ferskur sem fyrr, s.s. stórmerkilegur maður. Hann bað mig á endanum um að fá að fylgjast með ferðum  mínum sem ég að sjálfsögðu samþykkti. Sauðurinn ég hef hins vegar týnt nafnspjaldinu hans og því eru góð ráð dýr hvað samskipti varðar.

Ég gisti þrjár nætur í San Cristobal eða 2 nóttum fleiri en ég ætlaði mér. Ástæðan er magakveisa sem herjaði á mig rétt áður en ég ætlaði að fara af stað til Guatemala. Það er engu líkara en Mexíkó sé að teygja lopann og halda mér lengur í landinu. Ég hressist samt fljótt enda fór ég í eitt af þeim fjölmörgu apótekum sem eru á hverju götuhorni i landinu og verslaði lyf sem líka svona svínvirkuðu. San Cristobal er samt staður sem hægt er að dvelja lengi vel, falleg smáborg með mikið menningarlíf, sérstaklega í lifandi músík sem spannar allan skalann. Til að mynda sá ég 4 mismunandi tónleika á einu kvöldi. Einnig er mikið um margskonar handverk frá frumbyggjum sem búa í nánasta umhverfi borgarinnar. Fjallasalir umlykja borgina sem stendur nokkuð hátt yfir sjávarmáli sem gerir það að verkum að hitastigið getur dottið niður í 5 gráður á nóttunni, sem er helvíti kalt þegar maður er að koma frá stað þar sem að hitastigið á nóttunni var 25-30 gráður.
Dvöl mín í Mexíkó var s.s. að enda komin og næsta skref er yfir landamæri Guatemala þar sem ég hef ætlað mér að dvelja í rúma viku á meðan ég mjaka mér yfir til Hondúras. Ferðafélagi minn Max ákvað að sleppa ferðalagi til Guatemala sökum tímaskorts og var ég því orðinn einn á ferð að nýju. Ég var því feginn fyrir þær sakir að nú tæki við nýr áfangi ferðalagsins í fullri merkingu.

Ferðin til Guatamala hófst snemma eða um 7 leytið um morguninn. Ég þurfti reyndar að bíða aðeins á gistiheimilinu eftir að skutlan (bifreiðin) kæmi að sækja mig en það var í góðu lagi þar sem að ég þurfti að sinna hægðum mínum osfv ;). Þegar bifreiðin loks kom var þurfti ég að vekja einn hippann og hundinn hans til að skila lyklinum að útidyrahurðinni. Hann bað mig um að fara varlega og óskaði mér góðrar ferðar standandi við útidyrahurðina á nærbuxunum með hundinn sér við hlið. Þegar ég steig upp í sendiferðabílinn ásamt öðrum náunga sem var að bíða eftir sama bíl fyrir utan, voru þar fyrir asíubúar, stúlka frá Kóreu og náungi frá Japan. Við keyrðum einstefnugötur San Cristobal þvert og endilangt til að ná í restina af ferðalöngunum. Nýgift hjón, hann frá Írlandi og hún frá Kanada, og síðan tvær konur frá Ástralíu. Þetta var s.s. föruneytið til Guatemala.

Guatemala
Það var komið að því að fara yfir fyrstu landamæri ferðarinnar og ekki laust við smá spenningi, þar sem maður hafði heyrt misjafnar sögur af álíka misjöfnum ferðalöngum. Hins vegar var upplifunin hin þægilegasta og hlutirnir gengu greiðlega fyrir sig. Mér brá hinsvegar í brún þegar ég uppgötvaði að verðlagið í Guatemala væri heldur hærra en í Mexíkó, en ég hafði talið að það væri ákkúrat þveröfugt. Að sama skapi hjó ég strax eftir því í okkar fyrsta stoppi að fólk var frekar vinalegt og kurteist sem fékk mann til að líða vel strax við fyrstu kynni af landinu. Ekki versnaði svo tilfinningin við að skoða náttúrufegurðina, en við keyrðum yfir mismunandi fjalllendi, öll vaxin þéttu skóglendi. Á leiðinni mátti líka sjá mikla fátækt í sveitum landsins og mjög svo skrautlega skreyttar gamlar skólarútur frá bandaríkjunum. Einnig hjó ég fljótlega eftir því að mikið var um einhverskonar fuglahræður við vegina en þegar ég spurði bílstjórann út í þetta, tjáði hann mér að um væri að ræða brúður sem fólk mundi brenna næstu nótt í þeim tilgangi að skaða djöfulinn, ÁKKÚRAT hugsaði ég.

Þegar við síðan stoppuðum í annað skipti til að hleypa asíubúunum út, var kominn tími á bjór en náunginn frá Argentínu greip hugmyndina á lofti og skellti sér á einn líka, sem gerði það að verkum að við fórum að spjalla saman. Frekar lágvaxinn, hippalega klæddur með frábrugðin stíl á skeggsöfnun, tjáði hann mér að hann héti Julian og byggi í San Cristobal þar sem hann vinnur sem tónlistarmaður, trommari nánar tiltekið, og væri að spila með 2-3 hljómsveim á börum og skemmtistöðum þar í borg. Það kom fljótt í ljós að ég hafði upplifað tónleika með honum 2 vikum áður þegar hann var að spila með raggee-bandi á bar. Það kom einnig fljótt í ljós að hann væri knattpyrnuáhugamaður og stuðningsmaður Boca Juniors í Buenas Aires.
Parið sem var með okkur í för byrjaði einnig að spjalla við okkur og drekka bjór okkur til samlætis. Það kom fljótlega í ljós að þau væru nýlega gift en þau hefðu kynnst í júlí síðastliðnum. Hann er Íri og hún frá Kanada, en tll þess að hann gæti verið lengur í landinu ákváðu þau að gifta sig og taka sambandið frá þeim punkti, sem mér þótti virðingarvert og áhugavert að sama skapi. Við kláruðum rommglögg sem Írin hafði tekið með sér í túrinn en rommið losaði enn meira um stemminguna í bílnum, sem var af hinu góða og stytti bíltúrinn svo um munaði.

Þegar við loks komumst til Panajachel sem stendur við stórt stöðuvatn vel inní landinu, var kominn myrkur og við frekar ferðalúinn eftir langan dag á ferðinni. Við ákvaðum því að finna okkur gistiaðstöðu í sameiningu og fara síðan og finna okkur eitthvað í gogginn. Fljótlega gekk að finna hentugan stað til að gista á og fyrr en varði vorum við kominn út í mannlífið á götunum  sem hafði að geyma notalega stemmingu, þrátt fyrir að verðir vopnaðir haglabyssum væru við aðra hvora verslun, en maður var orðinn vanur þeim í Mexíkó og kippti sér þar af leiðandi ekkert upp við það. 
Við snæddum á klassísku götueldhúsi sem rekið var af þéttvaxinni miðaldra konu með stórt bros í farteskinu. Eftir matinn ákváðu þau nýkvæntu að fara aftur á gistiheimilið á meðan ég og Julian ákváðum að skella okkur á litla rommflösku og rölta niður að vatninu.

Við áttum skemmtilegar samræður á meðan við kláruðum flöskuna og fylgdumst með fólkinu sem var í nágrenni við okkur. Julian tjáði mér að hann ætti eineggja tvíburabróður sem byggi í nágrenni við Buenas Aires og það væri lítið mál fyrir hann að redda mér miða og fara með mér á Boca Juniors leik þegar ég væri kominn til Argentínu. Ég hugsaði með mér að það gæti orðið svakaleg upplifun í alla staði, fyrir það fyrsta að hitta eftirmynd Julian og í annan stað að vera á leikvangi sem þekktur er fyrir svakalega stemmingu á leikjum Við komust að því að við hefðum sambærilegar lífsskoðanir líkt og fjölmargir aðrir argentínubúar sem ég hef kynnst á undanförnum 3 árum eða svo. 
Við ákvaðum því að vera samferða yfir stöðuvatnið daginn eftir og hjálpast að við að finna góða gistingu í bænum San Pedro, sem þekktur er fyrir að vera afslappaður gleðibær.
Meira efni von bráðar .....

Engin ummæli:

Skrifa ummæli