Fyrri skrif

miðvikudagur, 12. janúar 2011

Guatemala

Ég og Julian ákváðum að sofa út áður en haldið yrði yfir vatnið enda vorum við frekar þreyttir þegar farið var að sofa. Við byrjuðum á því að finna réttan stað til að ná báti en þeir voru þó nokkri r sem ferja fólk á milli staða umhverfis vatnið. Þegar við loks fundum réttan bát var haldið af stað með stuttu stoppi á miðri leið í þeim tilgangi að ná í fleiri farþega. Með okkur í för var fólk frá þessum slóðum ásamt tveimur frönskum strákum sem voru í stuttu ferðalagi frá Mexíkóborg. Bátsferðin var mjög ánægjuleg enda gullfallegt umhverfis vatnið, á meðan vatnið sjálft var frekar óaðlaðandi og nánast öldukennt. 

Einum og hálfum tíma síðar numum við land í San Pedro. Við vorum varla komnir frá borði þegar náungi sem var að vinna á bar við bryggjuna gefur sig á tal við okkur, hann segist heita Pancha og vera frá bænum. Þetta var hinn hressasti náungi og brosmildur mjög. Hann segir okkur að besti dílinn fyrir gistingu sé nokkuð frá miðkjarnanum en þar gætum við fengið einkaherbergi fyrir 200 kr. en tók því fram að ekki væri um að ræða neinn lúxus eins og gefur að skilja. Okkur leist ágætlega á þetta og ákváðum amk að skoða slotið áður en lengra væri haldið í gistileit.

Á leiðinni fengum við góða tilfinningu fyrir staðnum sem virkaði hinn vinalegasti, ekki síst fólkið sem auðsjáanlega býr þarna, kurteisin uppmáluð og brosmilt. Þegar við loks komum á áfangastað sáum við fljótt hvers vegna gistingin væri svona ódýr en engu að síður leist okkur bara fjandi vel á dílinn. Þarna vorum við í frið og spekt með eldfjallið í beinni sjónlínu frá herbergjunum, þannig að við létum slag standa. Næsta skref var að rölta um bæinn og fljótlega rákumst við á nýgifta parið sem hafði verið okkur samferða daginn áður. Við ákváðum að rölta um bæinn og sjá hvað væri í gangi en búið var að tilkynna okkur að mikil hátíðarhöld yrðu haldin um kvöldið með tilheyrandi flugeldum og músík. Strax um eftirmiðdaginn voru bönd farin að spila á nokkrum stöðum umhverfis miðkjarnann og hjó ég strax eftir því að um trúarlega tónlist væri að ræða, þrátt fyrir að maður heyrði það ekki á tónlistinni sjálfri, mikið frekar textunum og þeirri orðræðu sem var látin flakka á milli laga. Einnig tók ég fljótt eftir því að bærinn væri mjög kristinn þar sem að mörg húsin skörtuðu áletrunum líkt og Jesus es la vida eða Jesús er lífið!

Við fórum á mis við Julian stuttu fyrir göngutúrinn og ákváðum því að skella okkur á gistiheimilið sem að parið var staðsett í von um að Julian myndi átta sig og mæta þangað. Eftir að hafa beðið þar í nokkrar klst ákváðum við að drífa okkur aftur upp hæðina þar sem miðbærinn var staðsettur. Þegar við mættum þangað var fjörið að byrja og lentum við fljótlega á stað þar sem að mikil stemming var að skapast og fljótlega tók ég eftir því að nokkrir peyjar voru að undirbúa að kveikja í kínverjabeltum þar sem við stóðum. Ég kom mér undan rétt áður en herlegheitin byrjuðu, en parið tók ekki eftir neinu og endaði í sjálfheldu upp við vegg. Strákarnir voru ekki aldeilis hættir enda með stóran svartan plastpoka fullan af kínverjabeltum, þannig að þeir köstuðu hverju beltinu á fætur öðru í áttina að parinu ofl fólki í uþb 5 mín., þvílíkt ástand þarna á ferð. Þegar sprengingarnar voru yfirstaðnar kom fljótt í ljós að einn englendingur sem var með okkur á röltinu var með ágætis sár á fætinum eftir einn kínverjan en sem betur fer skaddaðist enginn annar. 

Við héldum næst niður að kirkjutorginu þar sem verið var að keppa í körfubolta á velli við hlið kirkjunnar. Þarna voru á ferð tvö lið bæjarins, einhverskonar FH og Haukar en annað liðið var bersýnilega betra á vellinum. Á meðan á leiknum stóð var verið að sprengja kínverja og tívolíbombur sem að breiddu úr sér nokkuð lágt yfir svæðinu þannig að neistaflugið dreyfði sér á stundum yfir völlinn. Við ákváðum að skella okkur á barinn eftir þetta, enda nóg komið af sprengingum hvað okkur varðaði. Hins vegar fréttum við síðar að sprengigleðin hefði tekið á sig nýja mynd þegar ein rakettan þaut beinustu leið í rakettubyrgðinar sem voru kyrfilega staðsettar við nýlegan gosbrunn torgsins og sprengdi stórt gat á laugina þannig að allt vatnið fossaði yfir torgið. 

Næstu dagar fóru meira og minna í að ráfa um bæinn, spila Fifa 2011 með rúmlega fertugum ítölum á stað þar sem að ég gat verið með þráðlaust netsamband, ásamt því að skemmta sér um kvöldið með mjög svo góðu fólki. Julian þurfti reyndar frá að hverfa eftir fyrstu 2 næturnar, þar sem að hann þurfti að vera kominn aftur til San Cristobal til að spila með hljómsveitum sínum. Ég fann samt að ég gæti ekki verið á þessum stað mikið lengur enda partýstandið farið að segja til sín. Ég ákvað því að taka síðasta daginn rólega og skella mér í kajakferð um vatnið ásamt nýgifta parinu. Dagurinn var virkilega góður enda fallegt veður og vatnið frekar stillt. Á heildina litið var þetta hinn besti staður til að dvelja á um stuttu hríð en ansi margir karekterar voru búnir að vera þarna í nokkur ár eftir að hafa komið í þeim tilgangi að vera í viku. Þetta fólk bar hins vegar auðsjáanlega þess merki að of mikið partýstand kostar sitt. Mér var einnig tjáð að sumir færu síðar yfir í næsta bæ til að stunda hugleiðslu osfv undir sömu ýktu formerkjum s.s. týndi sér í þeim geira einnig.

Ég tók því saman föggur mínar og stökk upp í skrautlega skreytta fyrrverandi bandaríska skólarútu áleiðis til Antigua, sem er bær inn í miðju landinu með einn einu eldfjallinu í baksýn. Rútuferðin tók nokkuð á, enda vegirnir frá vatninu vægast sagt illa farnir eftir miklar rigningar á þessum slóðum undangegna mánuði. Ofan á lag voru vegirnir brattir og hlykkjóttir upp og niður hvert fjallið af öðru, en Guatemala er þakið fjöllum og sum þeirra sem við fórum yfir náðu allt að 3000 metra hæð. Þegar ég loks komst á láglendið, hélt ég að þar með væri það versta yfirstaðið, en sú var ekki raunin. Við tók önnur eins rúta sem átti að taka mig síðustu kílómetrana en þessi var gjörsamlega pökkuð af fólki þannig að ég þurfti að sitja við sætisbrún, klemmdur við þann sem sat við hina sætisbrúnina. Ekki nóg með það, heldur þurfti fólk að vera klöngrast yfir mig í gríð og erg meðan ég reyndi að passa upp á föggur mínar. 

Ég steig út úr rútunni við aðal markaðssvæðið og átti í erfiðleikum með að átta mig á því hvert skyldi halda næst en fékk fljótlega úr því skorið með hjálp vinalegra íbúa. Ég hafði fundið nokkra gististaði á netinu og ákvað að gera tilraun á þann sem mér þótti líklegastur til að vera sá rólegasti eða hálfgerð heimagisting. Mér gekk ágætlega að finna staðinn og var líka svona heppinn að vera eini gesturinn þessa nóttina. Ég naut þess í botn með því að elda mér pastarétt og horfa á bíómyndir fram eftir nóttu með rauðvíni og poppkorni. Reyndar kom eigandinn við, undir léttum áhrifum áfengis, og reyndi að draga mig með sér útá lífið. Ég tjáði honum að ég þyrfti á hvíldinni að halda þetta kvöldið en það væri líklegt að ég væri til í tuskið daginn eftir. Hann sat hjá mér drykklanga stund og benti mér á góða staði til að rölta um daginn eftir ásamt því að bjóða mér á annað gistiheimili sem hann rekur til að þyggja drykk næsta kvöld.


Dagurinn fór í það rölta um þennan mjög svo fallega bæ, þar sem ég fór meðal annars upp hlíðar eins fjallsins til að njóta útsýnisins yfir bæinn og eldfjallsins í baksýn. Um kvöldið ákvað ég að taka boði eigandans og fá mér drykk á hinu gistiheimilinu en þar sátu nokkrir á þakinu undir berum himni og yljuðu sér við varðeld. Ég og eigandinn fórum síðan á pöbb þar sem að átti að vera lifandi tónlist. Þegar ég kem inn sé ég að tónlistamennirnir eru þeir sömu og ég var að skemmta mér með í San Pedro sem var skemmtileg tilviljun. Við hins vegar fórum yfir á annan stað þar sem að eigandinn vildi komast burt sem fyrst frá þessum pöbb, ástæðan var sú að innandyra var stúlka sem hann hafði lent í vandræðum með þegar hún gisti hjá honum nokkrum vikum áður. Hinn staðurinn var ágætur svo sem en fullur af dópuðu liði sem gerði stemminguna frekar dræma til lengri tíma. Ég ákvað því að koma mér á gistiheimilið með eigandann í eftirdragi. Við sátum síðan fram eftir nóttu og drukkum í garðinum í sem var staðsettur í miðju húsnæðisins.
Ég ákvað að koma taka eina nótt í viðbót áður en ég færi yfir til Hondúras enda heilsan ekki upp á marga fiska. Engu að síður skoðaði ég bæinn betur og kom mér síðan snemma í háttinn enda líklegast um erfiðan ferðadag að ræða daginn eftir.

2 ummæli:

  1. Gaman að lesa þetta ævintýri og sjá myndir og video.
    Keep up the good work ;)

    Kv. Danni

    SvaraEyða