Fyrri skrif

laugardagur, 5. febrúar 2011

Hondúras

Ég tók svokallaðan colectivo (9 manna bílar) yfir landamærin til Hondúras, sem vanalega er þægilegur ferðamáti. Hins vegar þegar bíllinn bar að garði var hann þegar orðinn troðfullur og þurfti ég að sitja á kolli milli sæta í 2 klst eða alla leið til flugvallarins þar sem að hluti af hópnum átti flug þennan daginn. Það tók hins vegar einn og hálfan tíma að komast inn og út úr höfuðborginni sem gerði það að verkum að við komum ekki á áfangastað fyrr en um kvöldið. Við landamærin var rólegt ástand og hlutirnir gengu eins og í sögu, en ég hafði heyrt ýmsar sögur um landamæri Hondúras, en líkt og fyrr í ferðinni, flaug ég í gegn án vankvæða.

Þegar ég kom loks til Copan de Ruinas var ekki um auðugan garð að gresja varðandi gistingu, sem var einnig frekar dýr miðað við það sem ég var orðinn vanur á ferðalaginu. Ég ákvað að taka rúm á gistiheimili sem síðar kom í ljós að væri troðfullt af ungum ferðalöngum í partýhug. Um kvöldið lenti ég á spjalli við enn einn Argentínumanninn, en þessi var kafari og starfaði á Roatan sem er ein af þessum eyjum rétt fyrir utan Hondúras. Einnig hitti ég hollenska stúlku, Jude að nafni, sem ég hafði kynnst í byrjun ferðar og meðal annars stundað með henni jarðsigshella í Mexíkó. Daginn eftir dreif ég mig að skoða síðustu fornminjar/pýramída Maya indjána í þessu ferðalagi. Pýramídarnir voru mjög flottir og þá sérstaklega fórnarstiginn og einhverskonar knattspyrnuvöllur á miðju svæðinu. Það var þess virði að stoppa í þessum bæ til að bera þá augum, en að sama skapi hugsaði ég með mér að nú væri ég búinn að sjá nóg af slíku, eða þangað til Perú verður komið. Ég tók síðan góðan göngutúr um nágrenni pýramídanna sem var fullt af fuglalífi, eðlum, fiðrildum og ýmsum öðrum kvikindum, mjög fallegur staður. Kvöldið fór í að drekka nokkra bjóra og borða á gangstéttinni ásamt öðrum íbúum við matarvagna sem þar voru staðsettir. Nóttin var erfið þar sem að unga fólkið var að skemmta sér með tilheyrandi látum og vanvirðingu gagnvart þeim sem voru að reyna að sofa. Á endanum fékk ég nóg og lét þau heyra það án þess þó að vera dónlegur, enda hef ég svo sem verið þeirra megin við borðið oftar en einu sinni.

Ég vaknaði kl.5 um morguninn í þeim tilgangi að ná rútunni alla leið til La Ceiba eða 9 tíma ferð ef allt gengi að óskum. Bærinn var umlukinn þoku þennan morguninn sem gerði stemminguna mjög sérstaka. Ég fékk ágætis sæti og rútan var ekki sem verst, þó svo að hún fengi væntanlega ekki skoðun á Íslandi líkt og flest faratækin sem ég hef ferðast með hingað til. Þegar til borgarinnar San Jose var komið þurfti ég að skipta um rútu með smá bið, sem ég nýtti til að skella mér afsíðis og reykja eina rettu eða svo. Þar sem ég stend og reyki kemur að mér miðaldra maður og bíður mér að kaupa vindla af sér, sem ég varð að afþakka þar sem að ég var ekki með nógu mikinn pening á mér. Við fórum hins vegar að spjalla og þá helst um hið pólitíska ástand sem ríkir í landinu ásamt þeim breytingum sem að heimurinn virðist vera að ganga í gegnum varðandi ýmsa hluti. Þegar ég síðan geri mig reiðubúinn að koma mér í rútuna, vill kallgreyið endilega gefa mér einn vindil ásamt símanúmerinu sínu ef ég skyldi koma aftur til borgarinnar. Ég gat ekki annað en þegið gjöfina og óskað honum góðs gengis.

Næsta rúta var vægast sagt léleg en hún þurfti að stoppa í ein 5 skipti til að laga þrýstikerfið á bremsunum, sem gerði það að verkum að ég var farinn að hafa áhyggjur af því að ná ferjunni yfir til eyjunnar Utila. Í einum af bremsustoppunum byrjar ameríkani að spjalla við mig og segja mér skuggalegar og vænissjúkar rútusögur frá Hondúras. Ein þeirra fjallaði um par sem var á ferðalagi þegar rútan skyndilega stoppar og inn koma vopnaðir ræningjar. Einn þeirra hins vegar fer eitthvað að eiga við stúlkuna sem kærastanum líkaði ekki við og hafði því afskipti af, en það endaði með því að ræninginn skaut hann í höfuðið og þar með aflífaði hann í rútunni. Hressandi saga frá ameríkananum sem síðan stökk upp í næstu rútu í þeim tilgangi að taka enga sénsa. Ég horfði á eftir honum og hugsaði með mér „ hvers vegna í andskotanum er maðurinn búsettur hérna ef hann er á tauginni alla daga“.

Þrátt fyrir öll þessi stopp náðum við loks að komast til borgarinnar áður en síðasta ferjan færi yfir til eyjunnar. Ég var hins vegar enn óákveðinn um hvor eyjanna ég ætti að fara til, Roatan eða Utila. Sú fyrri rándýr en með fallegum ströndum, sú síðari með ódýrum köfunarnámskeiðum og hippastemmingu. Ég ákvað á endanum, eftir að hafa ráðfært mig við strák sem var að umskipa farangri frá Roatan-ferjunni, að skella mér til Utila enda var það planið í byrjun. Þegar ég hins vegar spurðist fyrir um ferðir á milli eyjanna var mér tjáð að ég þyrfti að koma aftur til meginlandsins til að komast yfir á hina eyjuna, nema ég gæti snapað mér far með einhverri skútu sem var frekar langsótt. Ferðin yfir til Utila gekk snuðrulaust fyrir sig og var ég kominn á áfangastað einum og hálfum tíma síðar eða um kvöldmatarleytið.
Þegar ég kem í land bíður fjöldi manns með auglýsingamiða frá hinum og þessum köfunarskólum með tilheyrandi tilboðum. Mér leist strax vel á einn af þeim, enda var hann með sendiferðabíl til að ferja fólk og boðið var upp á fría gistingu fyrstu nóttina og bjór við komuna. Ég ákvað að láta slag standa og athuga hvað fleira væri í sekknum, enda engin skuldbinding á bakvið tilboðið. Þegar ég loks kem á staðinn finn ég strax að um góðan stað sé að ræða. Fyrir það fyrsta leit búnaðurinn fyrir að vera nýlegur, vinalegt viðmót frá starfsfólki án þess að vera falkst og síðast en ekki síst var væntanlegur kennari minn myndarleg kona frá Spáni. Ekki nóg með að hún væri frá Spáni heldur var hún vinur spænsks pars sem ég kynntist í Mazunte í Mexíkó, en þau ráku gistiheimili sem ég sótti oft til að hitta skemmtilegt fólk. Þetta þótti mér skýrt merki um að ég væri á réttum stað. Ég ákvað því án frekari umhugsunar að skella mér á svokallað „Open Water“ eða byrjenda-námskeið hjá þessari köfunarmiðstöð. Ég fékk herbergi með enskri stúlku sem talaði svo háfleyga „oxford ensku“ og lágróma í þokkabót að ég átti í stöðugt í vandræðum með að skilja hana.

Næsti morgun fór í það að horfa á hræðilega væmið amerískt kennslumyndband um undirstöðuatriði í köfun, ósofinn og skítþunnur. Kvöldið hafði nefnilega farið í það að athuga nokkra bari með hressu liði sem var annað hvort að kafa sér til skemmtunar eða læra köfun hjá sömu miðstöð. Seinni part dags var síðan farið í það að kynnast búnaðinum og prófa hann við bryggjusporðinn. Það gekk mjög vel en við vorum í sjónum í nánast 3 klst. þar sem að sumir nemendur voru eitthvað að vandræðast. Það var hins vegar skrítin tilfinning að anda að sér undir yfirborðinu en mjög góð að sama skapi, enda er ég ekki í fiskamerkinu fyrir ekki neitt, fjandinn hafi það. Daginn eftir var síðan farið með okkur snemma morguns út á haf til að kafa í umhverfi kóralrifa á litlu dýpi. Það var vægast sagt ein sú besta upplifun sem ég hef kynnst á minni lífsleið, endalaust magn af mismunandi sjávardýrum í kristaltærum sjónum, stórkostlegt ástand vægast sagt.
Þriðja daginn var aftur farið útá haf en á meira dýpi í þetta skipti. Ég gerði þau mistök að fara út á lífið með tilheyrandi vöku frameftir nóttu eftir á, þar sem ég sat að drykkju með næturverðinum á svæðinu, en honum mun ég gera betri skil síðar í þessum pistli. Þetta þýddi að ég var bæði ósofinn og mitt á milli þess að vera fullur og þunnur. Það er skemmst frá því að segja að mér gekk ekki vel með köfunina þennan daginn og náði aðeins annarri af tveimur en ég fékk þvílíka ónotatilfinningu í þeirri síðari að ég gat ekki hugsað mér að fara niður. Það hins vegar reddaði alveg deginum þegar við tókum eftir hvalhákarli í nágrenni við okkur. Þegar við loks náðum að staðsetja hann fóru allir út í sjóinn með pípu-köfunarbúnað. Þegar ég kem ofan í sjóinn og lít niður sé ég að kvikindið er tveimur metrum frá mér og stefnir undir mig, sem  hann gerði með fjölda fiska í eftirdragi, stórkostleg upplifun hreint út sagt.
Ég ákvað að láta áfengið eiga sig þetta kvöldið í þeim tilgangi að klára námskeiðið með stæl. Ég var því í ferskari kantinum daginn eftir sem gerði köfunina auðvelda og það líka í stórkostlegu umhverfi allskyns kynjavera við kóralrifin. Ég kláraði síðan skriflega áfangann með 90 % árangri, en ég var kominn í bjórinn þegar ég tók prófið! :)


Aðfangadagskvöldi eyddi ég á eyjunni með skemmtisiglingu og tilheyrandi djammi langt frameftir nóttu með gestum og starfsmönnum köfunarmiðstöðvarinnar, þar sem að lokatóninn var sleginn í félagskap næturvarðarins enn og aftur. Jóladagur fór mest megnis í það að jafna sig á syndum fyrri nætur með því að ganga um staði sem ég hafði ekki séð, sundurbitinn á fótunum sökum sandflugna sem er einn mesti vargur sem ég hef komist í kynni við. Kvöldinu eyddi ég með hópi fólks sem ákvað að elda og borða saman þetta kvöld. Að málsverðinum loknum reyndum við að standsetja ákveðna tegund af loftbelg sem hefur sig á loft með hjálp hita sem kemur frá einhverskonar kerti sem staðsett er í botninum á belggrindinni. Það er skemmst frá því að segja að loftbelgurinn fuðraði upp áður en hann náði að hefja sig á loft. Að þessu loknu ætlaði ég í háttinn enda útkeyrður eftir köfun og djamm síðustu daga en þá kom upp leiðindar atvik á svæðinu, en áður en ég kem að því er best að greina ykkur betur frá áðurnefndum næturverði.

Fyrsta kvöldið mitt á eyjunni kynntist ég Augustín, maður um fimmtugt, næturverði köfunarskólans og gistiaðstöðunnar. Augustín er virkilega sérstakur náungi sem hefur nánast óbeit á útlendingum og þá sérstaklega Bandaríkjamönnum. Hann var í andstöðu við sína eigin þjóð eftir að hafa verið látin dúsa í fangelsi í 9 ár fyrir að hafa undir höndum ákveðið magn af marijúana að eigin sögn. Fangelsisvistin hefur svo sannarlega undið hann upp og ekki hægt að segja að um betrunarvist hafi verið að ræða, enda eru fangelsi í Hondúras engin dans á rósum. Engu að síður þá náðum við ágætlega saman, þ.e. að ég náði til hans með þolinmæðinni sem gerði það að verkum að hann sagði mér hluti sem að hann vanalega talaði ekki um. Þrátt fyrir að vera næturvörður/öryggisvörður á svæðinu, var hann lepjandi áfengi alla vaktina en var engu að síður mjög vakandi í sínu starfi, s.s. sinnti starfinu að mestu þrátt fyrir að vera í annarlegu ástandi oftast nær. Hann var oftast í góðu skapi og stutt í húmorinn, t.d. urraði hann oft og títt á gesti staðarins, með bjór í hendi og nokkra götuhunda í eftirdragi. Hann hins vegar talaði mikið um það að hann ætti erfitt með svefn og að hann þyrfti að komast undir læknishendur og þá helst til geðlæknis því honum fannst hann vera að missa vitið. 

Á annan í jólum var hann búinn að vera vakandi og drekkandi í tvo sólarhringa. Ég ákvað því að taka af honum rommflöskuna sem hann hafði keypt handa okkur með það fyrir augum að koma í veg fyrir frekara ástand af hans hálfu. Þegar ég síðan er á leið í háttinn heyri ég mikil læti frá eldhúsaðstöðunni. Þegar ég athuga hvað er á seiði kemur í ljós að Augustín og bandarísk kona hafi lent saman og fyrir misskilning varð konan ofsa hrædd því kallinn, því hann hafði verið að skera eitthvað matarkyns og hélt því á hnífnum þegar þeim urðu á orðaskipti. Þetta gerði að verkum að kokkurinn á svæðinu hafði afskipti af og endaði það með slagsmálum milli Augustín og kokksins, þar sem að Augustín gaf kokknum nokkur hnefahögg í andlitið. Eftir það áttaði hann sig á því hvað hann hefði gert og var fullur iðrunar, á meðan kokkurinn (bandarískur) hellti yfir hann blótsyrðum og hótaði að kæra hann til lögreglunnar og koma honum þar með í fangelsi aftur, enda kallinn á skilorði.
Ekki var það til að bæta ástandið á kallinum sem grét og grét liggjandi á götunni, á meðan hundarnir hans geltu stanslaust af áhyggjum. Á endanum náðu ég og fleiri að sefja kallgreyið og róa ástandið. Bandaríska konan hafði áttað sig á að ekki hefði verið um hættuástand að ræða í eldhúsinu og ætlaði ekki að fara með málið lengra. Það gerði hins vegar kokkurinn eftir að hafa ráðfært sig við eiganda staðarins og því var Augustín í varðhaldi þegar ég yfirgaf eyjuna, væntanlega á leið í fangelsi aftur. (sjá mynd af eigendanum og Augustín með bjórinn nokkrum dögum áður)

Ég reyndar náði ekki að yfirgefa eyjuna fyrr en degi síðar þar sem að ekki var hægt að sigla inn í höfnina við meginlandið sökum ölduróts. Þegar ég loks komst í land ákvað ég að bruna strax til annarrar borgar stutt frá landamærum Nicaragua í þeim tilgangi að sofa eina nótt og drífa mig síðan yfir landamærin. Ástæðan var sú að ástandið í Hondúras er frekar eldfimt og mikið um glæpi og því engin ástæða til að staldra við, ég hætti því við að athuga með sjálfboðastarf á þessum slóðum. Með mér í för var Frakki að nafni Bruno (Stuttur Frakki), en við töluðum saman á spænsku sem var kærkomið eftir að hafa verið alltof mikið innan um enskumælandi fólks. Við ákvaðum að gista nálægt rútumiðstöðinni á hættulegasta stað borgarinnar Tegucicalpa, sem er reyndar hættulegasta borg Hondúras. Það er skemmst frá því að segja að við héldum okkur innandyra það kvöldið, enda mikil spenna í loftinu þarna með tilheyrandi vopnaburði osfv. Við hins vegar emjuðum úr hlátri þegar við heyrðum lagið „We are the World“ glymja yfir hverfinu og alla leið upp í herbergi okkar, enda frekar kaldhæðnislegt að heyra slíkan friðarsöng í jafn hættulegu hverfi.
Þegar hér var komið við sögu var meltingarkerfið farið að gefa sig meira en góðu hófi gegnir, sem kunni ekki góðri lukku að stýra þar sem ég var á leið í langt og erfitt rútuferðalag.
Meira um það og fleira í næsta pistli......











8 ummæli:

  1. Vá spennandi að vera þarna úti hnífabardagar á kvöldin og allt :)

    Kv. Danni

    SvaraEyða
  2. Hehehe....það er kleppur víða :)

    SvaraEyða
  3. Ertu viss um að stúlku í Copan var Belgíu, ekki Hollensku? :)

    SvaraEyða
  4. Hehehe, You got me Jude....sorry about this :)

    I´ll change it, like right now!

    SvaraEyða
  5. Haha, awesome. See you in Peru!

    SvaraEyða
  6. I will let you know when I´m nearby Peru....first I´ll probably go through Ecuador and do some scuba-diving. We´ll be in touch ;)

    SvaraEyða
  7. Sæll Addi

    Gaman að fylgjast með ferðum þínum hér á blogginu þínu.

    Ég vill fá meira :)

    Kv. Tóti

    SvaraEyða
  8. Takk fyrir það Tóti minn :)

    Ég veit að ég er búinn að vera húðlatur við að skrifa, en hef þó párað niður nokkrar nótur við og við. Ég ætla að gefa mér tíma eftir næstu rútuferð og fræða mannskapinn um Costa Rica og Panamá, að sjálfsögðu með myndum og video meðfylgjandi.

    Takk fyrir að fylgjast með :)

    Bestu kveðjur

    SvaraEyða