Fyrri skrif

föstudagur, 9. desember 2011

Costa Rica til Panamá


Eftir að hafa komist áfallalaust yfir landamæri Costa Rica héldum við félagarnir í 2 tíma rútuferð til bæjar þar sem við ætluðum að gista eina nótt og síðan myndu leiðir skilja. Ég var ákveðinn í að dvelja ekki lengi í landinu en Bruno hafði ætlað sér að skoða nokkra staði. Það voru einna helst tvær ástæður fyrir því að ég gat ekki hugsað mér að dvelja lengi í landinu, miklar rigningar og mikill fjöldi stöðugt gjammandi bandarískra túrista hvarvetna. Daginn eftir hélt ég beinustu leið til höfuðborgarinnar, einungis til að rölta með mitt hafurtask í gegnum nokkur hverfi á leið minni að næstu rútustöð. Þar hoppaði ég uppí næstu rútu í átt að karabíska hafinu, í þeirri von að fá rigningalausan dag til að skoða skóglendi sem hýsir fjöldan allan af mismunandi dýrategendum.

Það var svo sem ekki mikið að sjá í allri rigningunni á leiðinni en ég fékk samt tilfinningu fyrir því hversu fallegt land Costa Rica er í rauninni og gæti því hugsað mér að snúa þangað aftur einhvern daginn til að njóta náttúrunnar þar. Menningin er hins vegar nokkuð mikið lituð af Bandaríkjunum og því sker landið sig svolítið frá þeim löndum sem ég var búinn að kynnast hingað til. Rútuferðin var ágæt og lenti ég á góðu spjalli við ungan mann sem vann við að viðhalda m.a. vökvunarbúnaði fyrir eina af hinum stóru bananaekrum sem bandaríks fyrirtæki eiga og reka. 

Þegar ég loks komst á áfangastað var kl. orðin níu um kvöldið og tók ég á það ráð að athuga með gistingu við hliðina á rútustöðinni þar sem að það leit út fyrir enn eina rigninga dembuna. Mér til mikillar gleði var laust rúm á þessu ágæta gistiheimili sem rekið var af Ítala á mínum aldri sem hafði byggt þetta upp frá grunni síðustu ár. Móðir hans var þarna líka, honum til halds og trausts, svona rétt á milli þess að hún skellti í sig áfengum drykkjum og spjallaði við gesti! Ég kom mér fyrir og tók síðan röltið um þetta litla þorp þar sem að Kreólar eru uppistaða íbúanna, þeir eru mjög dökkir á hörund, margir með rastafari-klippingu og heilsa hvor öðrum á skondin hátt eða „What happend“ („Hvað gerðist“ í beinni þýðingu). Sökum mikilla rigninga var ekki mikið um að vera í þorpinu, ég rölti samt um það og hjó eftir að það var sérstakt hljóð í umhverfinu sem síðar komí ljós að voru körtur að flippa í pollum og tjörnum allt í kring. Eftir göngutúrinn tók ég þá ákvörðun að elda eitthvað létt á gistiheimilinu og koma mér snemma í háttinn, enda þreyttur eftir allt ferðalagið.
Um morguninn dreif ég mig af stað til þess að taka göngutúr um verndað skóglendi sem stendur við hlið þorpsins, meðfram strandlengjunni. Ég rakst á tvær stúlkur þegar ég var nýkominn á aðal stíg skógarins og við ákváðum að rölta saman. Stuttu síðar rekumst við á ungan heimamann sem er öllu kunnugur um þessar slóðir, varðandi gróðufar og dýraríkið. Við ákváðum að þyggja boð hans um að kynna okkur svæðið en fljótlega eftir það byrjaði að rigna eldi og brennisteini þannig að við þurftum að leita skjóls undir einum yfirbyggðum bekk sem stóð við stíginn. Þegar stytti upp hófum við göngutúrinn sem var mjög áhugaverður, strákurinn benti okkur á allskyns kvikindi sem við höfðum ella aldrei tekið eftir í gróðrinum. Þarna var að finna eðlur, allskyns kóngulær, fjöldi fuglategunda, leðurblökur, snákar og þá aðallega Viper-snákurinn sem er gulur og einn sá eitraðasti í heimi, en þeir voru þarna allt í kring. Einnig rákumst við á nokkrar tegundir af apaköttum, mauraætur og þvottabirni, en einn þeirra nálgaðist mig forvitnilega og settist pollrólegur rétt fyrir framan tærnar á mér, falleg skepna þar á ferð.
Við enduðum á því að ganga einhverja 15km þennan daginn, aðallega í grenjandi rigningu sem gerði það að verkum að manni var orðið hálfkalt. Ég tók þá upp á því að skella mér í sjóinn þrátt fyrir háa ölduhæð enda sjórinn mun heitari en regnið. Þegar ég síðan byrjaði að ræða hvað strákurinn tæki fyrir túrinn, vildi hann ekki peninginn, sagðist hafa gert þetta ánægjunnar vegna. Ég hlustaði ekki á það og lét hann fá pening sem var ekkert annað en sanngjarnt, enda opnaði hann augu mín fyrir þessu umhverfi. Við enduðum síðan á því að versla heimabruggað romm fyrir kvöldið, svo allt yrði klappað og klárt eftir volgu sturtuna á gistiheimilinu.

Á gistiheimilinu var að finna fínasta fólk og sátum við við skál fram eftir kvöldi. Það endaði síðan með því að ég og tveir hressir mexíkanar ákváðum að kíkja á pöbbinn til að athuga stemminguna. Það endaði með léttu spjalli við innfædda og drykkju fram eftir nóttu sem þýddi að ég kom mér ekki á lappir fyrr en um 10 morguninn. Ég var staðráðinn í því að skella mér yfir landamæri Panamá þennan daginn enda lítið varið í það að dvelja lengur á þessum slóðum í allri rigningunni. Eins og svo oft áður á mínum ferðum fékk ég sæti í rútu sem var að leggja í hann þegar ég mætti á rútustöðina. Ferðin að landamærunum var að mestu í gegnum bananaekrur sem ég hafði ekki upplifað áður. Til að fara yfir landamærin þurfti ég að ganga yfir brú með lestarteinum sem minnti mig á atriði úr hinni sígildu kvikmynd „Stand by me“. Það tók nokkurn tíma að bíða eftir vegabréfsáritun en þegar það var afstaðið skellti ég mér uppí næsta farskjóta í þeim tilgangi að fara á enn eina eyjuna. 

Þegar ég loks kemst á áfangastað, eftir að farkosturinn hafði bilað á miðri leið, er mér tilkynnt um að sama rigningatíðin sé á þessum slóðum og ekki séð fyrir endan á henni. Ég hugsaði mig ekki tvisvar um og bað bílstjórann að nálgast næstu rútu í þeim tilgangi að fara alla leið yfir á Kyrrahafsströndina en þar átti að vera minna um rigningu. Þegar ég síðan kom á endastöð rútunnar sem var í borg einni nokkuð frá strandlengjunni, var kl. orðin 10 um kvöldið og því lá beinast að finna gistingu. Þar sem að einhver hátíð var að hefjast þarna í kring var það þrautinni þyngra að finna gistingu, allt uppbókað. Á einu hótelinu var mér bent á að taka ekki áhættuna á að rölta um þetta svæði þar sem að nokkuð væri um að útlendingar væru rændir á þessum slóðum. Fólkið benti mér á að allt væri upppantað í borginni þar sem að einhver hátíð væri að hefjast í næsta nágrenni. Þau bentu mér á einn stað sem gæti verið með gistingu og sögðu mér að taka leigubíl þangað, þó að það væri ekki ýkja langt þangað. Ég þakkaði þeim fyrir góð ráð og tók leigubíl á þennan stað til að vera ekki að storka örlögunum enn og aftur. Gistingin var hjá gamalli konu sem rak stórt og mikið gistiheimili. Hún lét mig fá herbergi fyrir 3 á verði fyrir einn sem var einstaklega hugulsamt af henni. Herbergið var svo sem ekki neinn lúxus en sturtan virkaði alla vega. Ég gerði lítið þetta kvöldið, annað en að rölta aðeins um svæðið til að finna sígarettur sem var þrautinni þyngri en loks hjálpaði mér einn ógæfumaður til að finna sígarettusala og fékk hann nokkrar rettur fyrir vikið. Eftir að hafa sagt skilið við ógæfumanni kom ég mér fljótlega í háttinn með það fyrir augum að komast á ströndina í dagsbirtu.

Ég hoppaði út úr smárútunni við afleggjarann til strandarinnar án þess að gera mér grein fyrir hversu langt væri þangað. Ég tók á það ráð að rölta meðfram veginum njótandi umhverfisins, en eftir ca. 6 km tjáði mér einn innfæddur að enn væru 10 km að ströndinni og ég væri best settur með að taka leigubíl þangað. Ég tók ráðum hans og veifaði næsta taxa sem renndi framhjá mér, reyndar eftir dúk og disk. Leigubílsstjórinn tjáði mér að ekki væri mikið úrval af gistingu á svæðinu en benti mér á ítalskt par sem væru að reka gistiheimili og ekki skemmdi fyrir að þau væru með góðar pizzur á boðstólum.
Það var lítið mál að fá gistiaðstöðu hjá þeim ítölsku enda fátt um manninn á svæðinu en að sama skapi ekki mörg gistiheimili, reyndar ekki mikið um byggingar á svæðinu sem var alveg eftir mínu höfði. Gistirýmið sjálft var frábrugðið þeim sem ég hafði komist í kynni við eða einhverskonar strákofi með grófum kojum sem reyndar höfðu flugnanet, til allrar hamingju. Parið hafði komið á þennan stað fyrir 10 árum, þegar þau voru að ferðast um landið. Þau urðu svo hrifinn af staðnum að þau fóru að spyrjast fyrir um hvort að hægt væri að fjárfesta í landi á þessum stað. Það kom í ljós að svo væri og ákváðu þau stuttu síðar að fara heim til Ítalíu og safna pening í þeim tilgangi að koma aftur og kaupa landskika. Fyrsta árið bjuggu þau í tjaldi á meðan var verið að reisa húsið þeirra, ásamt því að tengja vatn og rafmagn. Síðan hafa þau verið að bæta við gistirýmum hægt og bítandi, án þess að taka lán. Skemmtilegt og athyglisvert fólk þar á ferð.
Þegar ég síðan rölti niður á ströndina sé ég að strandlengjan nær yfir u.þ.b. 10 km og varla hræða á ferðinni, virkilega flott svæði. Næstu tvo daga eyddi ég á ströndinni ásamt nokkrum öðrum en á laugardagskvöldinu tóku rútur að berast á svæðið fullar af fólki í skemmtanahugleiðingum. Ég var ekki neinu stuði til að umgangast fólk og ákvað að fara snemma í háttinn til að eyða síðast deginum þarna í góðu ásigkomulagi. 

Daginn eftir var ströndin gjörsamlega pökkuð af fólki sem var þarna ennþá frá því um nóttina eða hefðu lagt leið sína þangað um morguninn. Þarna var mikið líf og fjör, fólk var að spila strandbolta og leika sér á brimbrettum, á meðan aðrir lágu í áfengisdauða undir pálmatrjám. Ég rölti alla strandlengjuna í félagskap hunds sem hafði tekið ástfóstri við mig á leiðinni. Á meðan á göngunni stóð flugu nokkrir hópar af Pelíkönum meðfram strandlengjunni, sem var afar tilkomumikil sjón. Þrátt fyrir að mér liði virkilega vel á þessum stað var ég ákveðinn í því að skella mér til Panamáborgar daginn eftir, enda var mér tjáð að það gæti tekið dágóðan tíma að fá pláss í skútu á leið til Kólumbíu.
Í þetta skipti tók ég leigubíl alla leið að vegamótunum þar sem hægt var að stökkva upp í litlar rútur á leið til næstu borgar. Enn og aftur þurfti ég aðeins að bíða í nokkrar mínútur eftir að næsta rúta yfirgæfi svæðið og í þetta skipti alla leið til Panamá-borgar. Leiðin til borgarinnar skartaði fallegu landslagi, sérstaklega var tilkomumikið þegar rútan fór yfir brúna yfir Panamáskurðinn, en ekki síður áhrifaríkt að sjá borgina rísa upp úr landslaginu. 

Ég var ekki búinn að plana neitt voðalega mikið hvar ég skyldi finna gistingu, nema fyrir utan eitt heimilisfang sem ég hafði fundið á netinu og litist ágætlega á staðsetninguna. Ég hoppaði því upp í enn eina smárútuna sem var troðfull af fólki án þess að vita hvar ég ætti að hoppa út. Bílstjórinn tók vel í bón mína um að láta mig vita þegar við værum nálægt götunni sem gistiheimilið er staðsett. Ekki frekar en fyrri daginn var ég með pantaða gistingu, en heppnin virðist fylgja mér á ferðalögum og í þetta skipti varð þar engin breyting á. Ég fékk laust rúm og tók því fegins hendi, þrátt fyrir að það væri ekki það hreinlegasta ákkúrat þá stundina. Þetta kvöldið skyldi vera tekið í rólegheitum þar sem að næsti dagur færi í að kynna mér borgina örlítið.
Ég náði að sofa ágætlega þessa nótt og var því nokkuð ferskur fyrir verkefni dagsins en það var að finna banka til að skipta gjaldeyri frá Kosta Ríka. Ég kom mér auðveldlega niður í bæ eftir að hafa kynnt mér hvar flestir bankarnir væru niðurkomnir. Það tók mig hins vegar allan daginn að flakka á milli banka þar sem hver og einn tjáði mér að þeir stæðu ekki í gjaldeyrisviðskiptum. Þetta voru s.s. allt fjárfestingabankar og það fór um mig íslenskur hrunhrollur í þeim 30 stiga hita sem var þennan daginn.Um kvöldið ákvað ég að skella mér í bíó í verslunarmiðstöð nálægt miðbænum, myndin var nýjasta verkefni Clint Eastwood og fjallaði um dauðann og framliðna, fínasta mynd. Þegar ég kom á gistiheimilið var fólk að fá sér neðan í því og bauð mér að taka þátt í gleðskapnum. Ég gerði það af hálfum hug og fór síðan nokkuð snemma í háttinn, enda staðráðinn í því að skipta peningunum daginn eftir.
Í stuttu máli sagt þá tók nánast allan næsta dag að fá þessum peningum skipt. Ég fór meira að segja í útibú Seðlabanka Kosta Ríka, en þeir gátu ekki einu sinni skipt fyrir mig sínum eigin gjaldmiðli í dollara, alveg með hreinum ólíkindum. Þetta endaði með því að ég fann eina af fáum gjaldeyrisbúllum borgarinnar og fékk peningunum skipt, eftir að hafa samið um ágætis kjör við eigandann, sem reyndar leit út fyrir að hafa lítinn áhuga á löglegum viðskiptum, en var þó sanngjarn í mínu tilfelli. Ég ákvað að eyða kvöldinu í að reyna finna skútu til að flytja mig yfir til Kólumbíu og dreif mig því í að versla inn og fara á gistiheimilið til að leita upplýsinga hjá starfsmönnum þess. Kvöldið fór því að mestu í að elda og leita að skútum sem væru að leggja í hann á næstu dögum. Það gekk reyndar mjög illa og var ég farinn að halda að ég yrði að kaupa mér rándýrt flug yfir landamærin, enda ekkert vit í að fara í gegnum frumskógarbeltið sem skilur löndin að því að það er bæði seinlegt og hættulegt. Seinlegt sökum lélegra samgangna og hættulegt sökum þess að á þessu svæði heldur andspyrnuhreyfing kólumbískra skæruliða sig, eða FARC eins og þeir eru kallaðir. 

Næsta færsla mun fjalla um síðustu dagana í Panamá og siglinguna yfir til Kólumbíu !











9 ummæli:

  1. Hey, I can't read the text at the moment but wanted to say that the photos are beautiful!! :) -Stephanie

    SvaraEyða
  2. Costa Rica - great memories :-)

    SvaraEyða
  3. sorry, ætlaði nú að skrifa þarna undir "Kv. Jarþr. Hanna" ;-)
    Góða ferð og hafðu það gott.

    SvaraEyða
  4. Takk fyrir það Jarþrúður :) Reyndar er þetta upprifjun frá því fyrr á arinu...nú er ég staddur í Buenos Aires...búsettur réttara sagt ;)

    SvaraEyða
  5. Gaman að sjá og lesa að það er heitt einhverstaðar í heiminum. Kveðja frá Patró Matti

    SvaraEyða
  6. Takk fyrir það Matti....hafðu það sem allra best :)

    SvaraEyða
  7. Suður Ameríka fellur greinilega fyrir þér ... bæði konur sem karlar :)

    Góðar stundir.

    Kv.Tóti

    SvaraEyða
  8. Hehehe, það má draga þá ályktun :)

    Hafðu það sem allra best!

    SvaraEyða