Fyrri skrif

miðvikudagur, 11. janúar 2012

Panama borg

Eftir að hafa eitt heilu kvöldi í leit að siglingu yfir til Kólumbíu ákvað ég að koma mér úr rúminu í fyrra fallinu í þeim tilgangi að skoða gamla borgarhlutann. Mér tókst einungis að koma mér af stað um hádegi daginn eftir og leiðinn var tekinn rakleiðis í átt að gamla hlutanum. Mini-rútan sem ég tók var alveg troðin af fólki og svitinn perlaði af mér í rakanum. Ég fór úr rútunni í nokkurri fjarlægð frá svæðinu í þeim tilgangi að ganga inn í þennan séstaka borgarhluta með því að gagna inn í Kínahverfi borgarinnar, en í sömu andrá til að fá sjávargoluna í fangið. Það fyrsta sem ber fyrir augum við innganginn er stór fiskmarkaður með kjötmarkað og grænmetismarkað sér við hlið. Ég renndi fyrst í gegnum fiskmarkaðinn sem var mjög áhugaverður, enda voru þar fjölmargar sjávartegundir sem ég hafði aldrei séð áður. Lyktin þarna innandyra var mikil og sterk enda rúmlega 30 stiga hiti utandyra. Þegar ég síðan nálgaðist aðal kjarna gamla hlutans hjó ég eftir því að vænn partur af honum var vaktaður af hermönnum og óeinkennisklæddum vörðum. Þegar ég spurði einn vörðinn hvað væri á seiði, tjáði hann mér að þetta væri dvalarstaður forseta landsins og að erlendur erindreki væri í heimsókn, þar af leiðandi þyrfti ég að taka á mig krók til að nálgast miðkjarnann og höllina sem þar stendur við sjávarsíðuna.

Flest húsin á þessum slóðum bera á herðum sínum 200 til 400 ár, sem fyrir vikið gerir þennan borgarhluta afar sérstakan og skemmtilegan til göngu. Einnig eru húsin mjög mismunandi eftir tímabili en þarna eru timburhús í bland við stein- og steypuhjalla. Eitthvað var af ferðamönnum þennan daginn og hjó ég sérstaklega eftir hóp af bandarískum feðamönnum sem státuðu af bermudabuxum og háum hvítum sokkum, sem var í alla staði átakanleg sjón, sjá mynd! Einnig fannst mér áhugavert að sjá símaklefa sem enn virkaði, en það er eins með þennan heimshluta sem flesta aðra, farsímar ráða hér ríkjum þegar kemur að talsambandi, með tilheyrandi okri. Útsýnið yfir til nýja hluta borgarinnar er mjög flott og eyddi ég miklum tíma í að taka ljósmyndir með mismunandi sjónarhornum. Þegar ég gekk síðan yfir í suður hluta hverfisins, bar fyrir augum fjöldi skipa sem annað hvort voru að koma í gegnum Panamaskurðinn eða að siglandi í átt að honum, tilkomumikil sjón í alla staði.
Þegar ég síðan legg leið mína til baka fer ég að taka eftir löngum biðröðum af fólki og þegar ég athuga nánar hvað sé á seiði, kemst ég að því að þarna sé um að ræða biðröð eftir strætó, mjög sérstakt í allri ringulreiðinni sem borginni fylgir. Ég ákveð engu að síður að ganga alla leiðina að gistiheimilinu sem tók mig 3 klst með viðkomu í einu skuggalegu hverfi sem ég álpaðist óvart inní, án þess þó að verða fyrir áreiti.

Þegar ég kem síðan á gistiheimilið hitti ég par sem kom þangað deginum áður og tjá þau mér að þeim hafi verið boðið að fara með heimamanni að sjá landsleik Panama og El Salvador sem var liður í úrslitum Mið Ameríku keppninnar, sem var haldin var í borginni. Ég ákvað að slá til og athuga hvort ég gæti ekki fengið að fljóta með, enda kominn tími til að skella sér á knattspyrnuleik í þessum heimshluta. Ég henti því frá mér dótinu mínu og rölti með parinu að nálægum veitingastað þar sem að sá innfæddi ætlaði að pikka þau upp. Þegar ég kynni mér fyrir manninum þá kemur í ljós að hann er lögfræðingur sem starfar fyrir borgina og með honum í för er unnusta hans. Þau eru hin almennilegustu og bjóða mér að slást í för með þeim, sem ég að sjálfsögðu þáði samstundis. Við tók 20 mín akstur í átt að leikvanginum með tilheyrandi töfum við að finna bílastæði.
Þegar við síðan nálgumst leikvanginn rétt fyrir upphaf leiksins, kemur í ljós að náunginn sem átti að redda miðunum er hvergi að finna. Fyrir utan leikvanginn var þó ekki mjög mikið um manninn og virtist sem að ekki væri mikil stemming fyrir þessum leik. Að sama skapi var eitthvert vesen fyrir fólk að komast inn á leikvanginn, sökum öryggisgæslu sem var í tómu tjóni þarna fyrir utan. Eftir dúk og disk finnum við okkar mann og mér er samstundis réttur rauður bolur með bjórauglýsingu, til að vera í lit með heimamönnum.

Fljótlega eftir að á leikvanginn var komið spratt upp í mér gamli vallarvörðurinn á Kaplakrika, sem undraðist yfir ástandi grassins á leikvanginum, en það var vægast sagt laust í sér og þar af leiðandi ekki séð fyrir að einhver sambabolti yrði á boðstólum þetta kvöldið. Einnig var leikvangurinn aðeins hálfsetinn, þrátt fyrir að miðaverðið hafi ekki verið hátt eða 1000 kr. Að sama skapi var ekki við því að búast að margir stuðningsmenn El Salvador væru á svæðinu þar sem að það kostar skildinginn að koma sér til Panama, það kom hins vegar á óvart hversu fáir heimamenn voru mættir.
Sökum fámennis fundum við fín sæti á meðal heimamanna og stuttu síðar byrjaði leikurinn. Ég var fljótur að hóa í einn af bjórsölustrákunum á svæðinu og keypti bjór handa samferðafólki mínu. Nokkrir stuðningsmenn sem sátu fyrir framan mig sátu ekki heldur á sér og keyptu restina af bjórunum sem pilturinn var að selja,  eða 10 stykki fyrir 4 menn. Það er svo sem ekkert fréttnæmt við það, nema fyrir þær sakir að öllum bjórnum var raðað þétt saman undir einu sætinu. Ég hugsaði ekkert meira út í þetta enda upptekin við að horfa á leikinn og fræðast um einstaka leikmenn. Þegar ég var búinn með bjórinn, kallaði ég snarlega í annan sölustrák sem birtist við innganginn. Ekki stóð á félögunum í þetta skiptið heldur og keyptu þeir upp restina af bjórnum, eða 6 stykki. Ég var aðeins búinn að taka nokkra sopa af bjórnum mínum þegar Panama skorar fyrsta mark leiksins og þá rann upp fyrir mér hvers vegna þessi bjórsöfnun hafi átt sér stað. Félagarnir, ásamt öðrum heimamönnum í grennd, hófu að kasta fullum bjórglösunum yfir hvorn annan líkt og að það þyrfti að slökkva eld á svæðinu. Á þessum tímapunkti var ég eini maðurinn á svæðinu sem lét nægja að láta mjöðinn renna niður kverkarnar. Þarna stóð ég steinhissa, rennblautur af bjór að innan sem utan á meðan ég velti því fyrir mér hvernig þetta endar ef að Panama tæki upp á því að raða inn mörkum.
Sagan endurtók sig einungis einu sinni í viðbót og hlóðu félagarnir því í mig nokkrum af sínum aukabjórum, enda hafði ég bent þeim á að mér finndist þetta nokkur sóun á góðum drykk!
Það var afslöppuð stemming á svæðinu eftir leikinn þar sem að engar bullur voru á svæðinu og því ekki mikið um óeirðalögreglu heldur. Við komust fyrir vikið nokkuð fljótt af svæðinu og inn í miðborgarkjarnann að nýju. Við kvöddum lögfræðinginn með virtum sem að þessu sinni skutlaði okkur upp að dyrum, helvíti fínn náungi þar á ferð. Það versta við þessa ferð var að ég gleymdi að taka með mér myndavélina og því eru engar myndir til, sem er synd og skömm!

Þegar inn í garð gistiheimilisins var komið rann upp fyrir okkur að eigandinn, vinir, starfsmenn og gestir voru að skemmta sér saman í garðinum. Parið var eitthvað þreytt eftir daginn og ákvað að draga sig í hlé, á meðan ég féllst á að fá mér romm að hætti heimamanna. Glaumurinn hélt áfram þangað til að við vorum 4 eftir, ég, tvær innfæddar stelpur og einn af starfsmönnum afgreiðslunnar sem var á þessum tímapunkti eini starfsmaðurinn á vakt.
Við höfðum setið um stund og rætt allt milli himins og jarðar þegar samkynhneigð varð viðfangsefni hringborðsumræðunnar. Ég tjáði þeim hversu mikið afstaða íslendinga gagnvart samkynhneigð hafi breyst  á undanförnum 20 árum. Svo mikið að í dag væri Forsetisráðherra okkar lespía og einn vinsælasti söngvari landsins hommi. Eitt leiddi að öðru þar til að ég gaf í skyn að starfsmaðurinn (sem er kólumbískt fiðrildi, rúmlega fertugt) væri samkynhneigður. Hann þverneitaði um stund, en viðurkenndi það síðan fyrir okkur með miklum létti, að er virtist. Hann spurði mig um hæl að hvoru kyninu ég hændist og fékk þær upplýsingar að ég heillaðist af konum! Ég sá í augnaráði starfsmannsins að hann væri ekki tilbúinn til að gefa mig upp á bátinn, þrátt fyrir þá staðreynd að himinn og haf væri á milli kynhneigðar okkar. Stelpurnar kvöddu stuttu síðar, enda klukkan orðinn 5 að morgni. Ég tjáði starfsmanninum að ég ætlaði mér að gera slíkt í hið sama enda orðinn þreyttur eftir viðburðaríkan dag. Þegar ég ætla síðan að kveðja biður hann mig um að leyfa sér að veita mér munnmök og kom mér þar af leiðandi í opna skjöldu. Ég ítrekaði fyrir honum að ég væri ekki samkynhneigður en þá benti hann mér á,  "að loka bara augunum". Ég horfði beint í augun á honum og sagði hægt og örugglega við hann að ég hefði ekki áhuga og þyrfti að fara að leggja mig, þakkaði honum fyrir kvöldið og gerði á mér fararsnið. Þá lagðist hann á skeljarnar og hélt utan um hægri fótinn á mér á meðan hann nánast grátbað mig, með hvolpaaugum, um að gefa sér 10 sekúndur til að veita mér munnmök, en þegar ég rykti fætinum aðeins til hliðar, datt bónin niður í 5 sekúndur. Ég reisti hann á fætur og sagði honum að það myndi aldrei gerast og því fyrr sem hann áttaði sig á þeirri staðreynd, því betra. Hann tók þá sönsum og baðst afsökunar á hegðun sinni sem ég tók gilda. Ég bauð góða nótt og lagðist til hvílu. Hins vegar tók ég aftur á móti góðan tíma til að fara í gegnum daginn og nóttina, enda þar á nógu að taka og ekki síst nýafstaðinn farsi!

Daginn eftir ákvað ég að skoða önnur gistiheimili og þá sérstaklega eitt sem er þekkt fyrir að útvega góðar skútur yfir til Kólumbíu. Þegar ég loksins finn gistiheimilið er mér tjáð að það sé laust rými daginn eftir en einungis í 2 nætur. En það sem betra var að það væri einnig laust rými í eina skútu sem ætti sennilega að leggja af stað eftir 5 daga. Ég slæ til og læt skrá mig á þessar tvær nætur og skútuna sömuleiðis, ekki þótti mér verra að heyra að skipstjórinn væri spænskur enda oft töluð full mikil enska í kringum mig á þessu ferðalagi mínu. Ég ákvað að taka kvöldið í að undirbúa mig fyrir næstu daga og skoða gistimöguleika á þeim stað þaðan sem skútan átti að sigla úr höfn. Einnig fór ég upp á skrifstofu til að láta vita að ég myndi stimpla mig út daginn eftir en þá er einmitt sá kólumbíski mættur til starfa að nýju, virkilega skömmustulegur þegar hann tók eftir mér. Ég gaf honum í skyn að það sem hafði gerst nóttina áður hefði ekkert með það að gera að ég væri á leið í burtu, heldur mikið frekar þörf fyrir að breyta til og að sama skapi væri hitt gistiheimilið með fleiri skútur á sínum snærum. Hann  var feginn því að ég væri ekki vondur út í hann eftir það sem á undan hafi gengið og óskaði mér velfarnaðar í sínu heimalandi.
Nýja gistiheimilið virtist búa yfir afslappaðri stemmingu og var ég breytingunni feginn, enda var þetta gistiheimili mun betur staðsett. Ég kynnist fljótt bandarískum náunga og tveimur stúlkum frá Kanada og Ástralíu. Sá bandaríski var ólmur að kaupa eitthvað sameiginlega í matinn og elda þetta kvöldið, sem mér leist mjög vel á enda var hugmyndin að kaupa sjávarfang. Í stuttu máli sagt þá gekk eldamennskan vel upp hjá okkur og saman sátum við með stúlkunum fram eftir nóttu að spjalli. Áður en við buðum góða nótt ákváðum við að skella okkur næsta dag í gamla bæinn en stúlkurnar voru ekki búnar að spóka sig um þar. Einnig var ákveðið að fara og skoða Panamaskurðinn enda ekki hægt að segja frá því að maður hafi ekki athugað þetta merka mannvirki. Dagurinn var mjög heitur og rakur, þannig að við fórum frekar seint af stað til að skoða gamla bæinn. Engu að síður var þægilegt að vera þar á þessum tíma enda ekki mikið um manninn í þessum hita. Þrátt fyrir að það væri langt liðið á daginn ákváðum við að skella okkur að Panamaskurðinum en þegar við komum á BSÍ Panamaborgar gerir líka þetta úrhellisveður, þannig að ekki var hundi úti sigandi. Við gerðum gott úr þessu og fórum á stúfana til að athuga með ferðir að karabísku ströndinni og aðra staði sem hinir höfðu hugnast að leggja leið sína. Ég ákvað að taka kvöldið í kvikmyndagláp enda enn úrhellis rigning úti og því lítið spennandi að tékka á næturlífinu. Mér var tjáð að ég gæti verið aðra nótt sem var alveg afbragð þar sem að skútuförinni hafði seinkað um 2 daga og því gæfist mér meiri tími til að áforma framhaldið, enda ekki á það treystandi að vera með internettengingu við ströndina.

Dagurinn fór rólega af stað og var ekki farið á rólið fyrr en eftir hádegi, fyrst til að snæða eitthvað og síðan til að gera aðra tilraun við skurðinn. Við héldum að umferðamiðstöðinni til þess að taka rútu sem keyrir meðfram skurðinum. Fyrst fórum við á vitlausan stað, þar sem ekki sást hvernig skurðurinn virkar varðandi hækkun og lækkun vatnsins. Engu að síður var flott að sjá þá fjölbreyttu skipaumferð sem fyrir augum bar á fljótinu, Olíufluttningaskip, Fragtskip og Skemmtiferðaskip. Við fengum þær upplýsingar hjá heimamanni að aðal útsýnisstaðurinn lokaði kl. 18 þannig að við þyrftum að koma okkur þangað sem fyrst ef við ætluðum að eyða þar góðum tíma. Sem betur fer renndi leigubíll framhjá stuttu síðar og kom okkur á áfangastað á góðum tíma. Þegar við erum að renna í hlað tek ég eftir einum náunga sem var með mér á eyjunni í Honduras, en hann var á leiðinni frá staðnum. Ég hrósaði happi yfir að hafa ekki verið fyrr á ferðinni, því að þessi náungi er ákveðið afbrigði af Cable Guy, uppáþrengjandi með afbrigðum. Það var virkilega merkilegt að fylgjast með skipunum renna í hólfið sem hækkar og lækkar vatnið og virkar því eins og skipalyfta. Sérstaklega var skemmtilegt þegar eitt stærsta skemmtiferðaskip heims Quenn Victoria II rétt svo náði að tilla sér í hólfið, með flesta gesti skipsins og starfsfólk veifandi til okkar. Á leiðinn heim að gistiheimilinu rakst ég á einstaklega sérkennilegt fyrirtæki en það bauð upp á 24 tíma líkkistuþjónustu, sjá mynd. Kvöldið var náðugt en fullt af tilhlökkun enda þurfti ég að vakna eldsnemma til að ná rútu að strandlengju Karabíska hafsins.

Í næstu færslu segi ég frá heimsókn minni í strandbæinn og siglingunni um San Blas eyjaklasann en hann býr yfir 365 eyjum sem einungis státa af sandi og pálmatrjám sem reyndar voru plöntuð af einum þjóðflokki indjána sem búa á stærri eyjunum....Draumi líkast!

Með því að smella á fyrstu myndina þá er hægt að skoða þær allar stækkaðar!














Engin ummæli:

Skrifa ummæli