Fyrri skrif

mánudagur, 16. apríl 2012

Knattspyrnuleikur í Medellín!

Ég kom mér ekki lappir fyrr en rétt undir hádegi og það tók mig klukkustund að ná sönsum eftir ævintýri liðinnar nætur. Eftir að hafa fengið mér kaffi og sígó, lenti ég á spjalli við hluta hópsins sem hafði farið með mér niður í bæ kvöldið áður. Flestir fölnuðu við að heyra á hvaða slóðum ég hafði endað og með hvaða hætti ég hafði komist aftur á gistiheimilið, sem er kannski eðlilegt þar sem að flestir erlendir ferðalangar halda hópinn á þessum slóðum. Ég var búinn að komast að því að það yrði spilað á leikvangi sem var ekki svo langt í burtu frá gistiheimilinu. Í nærliggjandi götum við gistiheimilið var að finna slatta af matsölustöðum og ákvað ég að skella mér á einn sem greinilega var vinsæll meðal heimamanna. Eftir að hafa borðað góðan kjúkling og rennt niður einum bjór, var kominn tími til að hefja gönguna að leikvanginum. Eftir að hafa gengið í um tuttugu mínútur kom ég loks að leikvanginum. Þrátt fyrir að enn væri tæpir tveir klukkutímar í leikinn var slatti að fólki samankomið í nánasta umhverfi leikvangsins. Ég keypti mér einn bjór úr einum sölubás og settist niður á blómabeðshleðslu til að fylgjast með hvort að fólk væri að versla miða af þeim sem gengu um kallandi og veifandi miðum með uppréttri hendi. Einnig tók ég eftir því að margir voru komnir með frumstæðar græjur til að elda eða hita upp mat sem þeir buðu til sölu. Þetta voru einhverskonar grill sem þeir festu við barnakerrur, til að geta fært sig um set ef á þyrfti að halda. Þessum áhöldum stilltu þeir síðan upp við hlið bifreiða sinna, sem voru flestar í vægast sagt slæmu ástandi, s.s. greinilega fólk úr fátækrarhverfunum að reyna ná sér í skotsilfur. 

Eftir að hafa séð nokkra aðdáendur kaupa miða af götusölum, hafði ég greinagóða hugmynd um hvert miðaverðið væri og lét því til skara skríða. Miðan fékk ég á 1500 kr. sem er sama verð og maður borgar fyrir að komast á leik í íslensku deildinni. Til að fagna þessum merka áfanga kom ekkert annað til greina en að fá sér annan bjór og fylgjast með stuðningsmönnum undirbúa sig fyrir átök dagsins. Ég tillti mér aftur á sama stað og hóf að fylgjast með menningunni. Á næsta bekk sátu fimm gaurar sem virtust vera harðir stuðningsmenn, klæddir litum heimaliðsins, með tilheyrandi fána og trefla til að undirstrika tryggð sína við klúbbinn. Þetta voru ungir peyjar, um og yfir tvítugt, sem greinilega ætluðu sér að þenja raddböndin þennan daginn, því þeir skelltu óspart í sig „kólumbíska brennivíninu“ á milli stuðningssöngva. Einn þeirra tók eftir því að ég var að reykja og nálgaðist mig til að biðja um sígarettu. Það endaði með því að við fórum að spjalla, enda sást að þeir voru forvitnir um þennan skrítna útlending sem sat þarna í makindum sínum sötrandi bjór. Eftir að hafa tjáð þeim í hvaða erindagjörðum ég væri, buðu þeir mér að slást í hópinn ásamt því að staupa mig af söngvatni þeirra. Við tókum fljótlega eftir því að miðinn minn var fyrir „elliheimilishluta“ vallarins, líkt og þeir komust að orði, golfklapp liðið í mínum orðaforða. Þetta þýddi að ég yrði að reyna fá miðanum skipt, en maðurinn sem seldi mér miðann var hvergi sjáanlegur. Einn af strákunum stökk því til og fann annan sölumann sem var tilbúinn að skipta miðanum gegn smá þóknun. ´
Þegar búið var að redda miðanum og klára brennivínspelann var komið að því að þramma í átt að leikvanginum. Þegar við nálguðumst leikvanginn tók ég eftir því að óeirðalögreglan/herinn var á svæðinu með þungavigta-búnað í farteskinu og voru þeir nokkuð fjölmennir í þokkabót. Félagarnir hófu þá að fela fána og trefla innan á sér og þegar ég spurði þá hvers vegna þeir væru að þessu, var mér tjáð að lögreglan hirti alla hluti sem hægt væri að nota sem vopn gegn þeim eða stuðningsmönnum aðkomuliðsins. Þegar ég tjáði þeim að mér fyndist nú ekki mikil hætta af fánum og treflum, sögðu þeir mér að þann búnað væri hægt að nota til að herða um kverkar lögreglunnar, ef á þyrfti að halda.  Ástæðan fyrir þessum harkalegu aðgerðum var sú að mánuði áður hefði brotist út óeirðir á einum leiknum, þar sem nokkrir létust og fjöldi manns slasaðist. Margir úr liði lögreglunnar slösuðust einnig og einhverjir lífshættulega og var því tekin ákvörðun um að engin mætti taka neitt lauslegt með sér á völlinn í nánustu framtíð. Þegar gaurarnir bentu mér á að ég gæti ekki einu sinni fengið að fara inn á völlinn með beltið mitt, fannst mér það ólíklegt, en þeir sögðu að það væri ekki möguleiki, þar sem að beltið væri með sylgju og því hægt að nota það sem vopn. Ég hélt þó í vonina um að lögreglan mundi hleypa saklausa útlendingnum inn með lítið belti um sig miðjan. Þegar ég kem að innganginum er verið að leita á öllum líkt og er gert hjá mörgum knattspyrnuþjóðum sem eru þekktar fyrir óspektir á knattspyrnuvöllum, en þegar ég nálgast vopnaleitina er mér tjáð að ég þurfi að láta beltið frá mér. Þegar ég mótmælti á hógværan hátt, fékk ég bara lítið bros með ítrekun um að láta frá mér beltið. Ég þurfti því að kasta beltinu frá mér og vera með buxurnar hangandi utan á mér líkt og rappararæfill.

Þegar við komum í stúkuna sem stóð fyrir aftan annað markið með fjallagarðinn í baksýn, tek ég eftir því að það er farið að þykkna all verulega upp í kringum fjöllin og þrumugnýr í næsta nágrenni. Það hafði svo sem verið eitthvað um rigningu síðustu daga án þess þó að úrhelli hafi skollið niður, þessi ský gáfu þó til kynna að þennan daginn yrðu úrkomumælar að hafa sig alla við. Það var ekki margt um manninn á vellinum sem tekur u.þ.b. 50 þúsund áhorfendur, kannski 20.000 manns. Engu að síður var mikil stemming og ekki versnaði hún eftir því sem við klifruðum upp stúkuna til að sameinast aðal kjarna stuðningsmanna heimaliðsins. Það var vel tekið á móti mér af nærstöddum stuðningsmönnum, sem fannst mjög sérstakt að hvítur náungi norður úr rassgati væri mættur til að styðja baki við liðið þeirra. Eftir að hafa komið okkur fyrir efst í miðri stúkunni, kemur sölumaður aðsvífandi, bjóðandi upp á snakk, bjór og marijúana-rettur. Hópurinn keypti sér nokkrar marijúana-rettur, á meðan ég lét mér bjórinn nægja. Á þessum tímapunkti voru liðin að hita upp, sem og lýðurinn sem kyrjaði stuðningssöngva í miðjum reykmekkinum. Eftir að liðin hefðu gengið til búningsklefa, róaðist ástandið örlítið, en það var ekki hægt að segja það sama um veðurskilyrðin. Skýjin voru orðin mjög dökk og komin skuggalega nálægt vellinum, með tilheyrandi eldglæringum og dúndrandi þrumum í sömu andrá, sem gaf til kynna að eldingarnar voru mjög nálægt okkur.
Söngvarnir voru skemmtilegir og auðvelt að raula með þeim, þannig að ég var fljótur að slást í hópinn, nærstöddum til mikillar gleði. Þegar leikurinn síðan hófst, magnaðist stemmingin svo um munaði, enda var komið aðeins meira af fólki á völlinn. Leikurinn byrjaði fjörlega og var knattspyrnan sem boðið var upp á hröð og lipur. Gestirnir komust fljótlega yfir með glæsilegu marki en stuttu síðar voru heimamenn búnir að jafna og lýðurinn gjörsamlega trylltist af gleði. Stuttu eftir jöfnunarmarkið byrjuðu dropar að falla af himnum ofan og það engin smá stykki, ekki leið á löngu þangað til að úrhellið var skollið á og við orðin gegndrepa á augabragði. Rigningin virtist ekki hafa nein áhrif á stuðningsmenn sem rifu sig úr treyjunum og byrjuðu að hoppa af meiri krafti til að halda á sér hita. Eftir  skamma stund var regnið farið að hafa áhrif á spilamennsku liðanna, enda var boltinn farinn að stoppa í stórum pollum sem mynduðust vítt og dreift um völlinn. Á sama tíma voru eldingar farnar að skella á bílastæðum sem stóðu við völlinn með tilheyrandi látum, líkt og væri verið að varpa sprengjum við völlinn. Satt best að segja leist mér ekkert á blikuna og hugsaði að kannski væri betra að leita skjóls, það var hins vegar ekkert fararsnið á lýðnum í kringum mig, sem bætti bara í taktinn og söng enn hærra. Það var til happs að langt var liðið á fyrir hálfleik, þannig að menn spiluðu við þessar aðstæður í 10 mínútur eða svo. Þegar flautað var til hálfleiks kom ég mér inn undir stúkuna til að verjast regni og eldglæringum. Stuttu síðar heyrði ég að töf yrði á leiknum sökum vatnsfalls, hins vegar ætluðu starfsmenn að reyna að valta vatninu af vellinum. Flestir héldu sér undir stúkunni á meðan beðið væri eftir því að flautað væri til leiks á ný, það var því ágætis stemming þar sem ég stóð gegndrepa. Þegar við stöndum á spjalli tek ég eftir því að einhver náungi er að klifra utan á byggingunni og undirbýr sig að halda áfram upp blautt rimlanet (líkt og er notað í leikskólagrindverk á Íslandi) þar sem við stóðum, í u.þ.b. 10 metra hæð. Hann hélt síðan áfram upp rimlanetið, en var næstum því dottinn á einum tímapunkti, s.s. kolruglaður einstaklingur vinnandi í því að komast frítt á völlinn. Sem betur fer komst náunginn yfir þessa hindrun og upp í stúkuna utanverða. Meðan á öllu þessu stóð var enn úrhelli og eldingarnar berjandi bílastæðin í grennd, virkilega sérstök stemming á sunnudags eftirmiðdegi. Fljótlega eftir að klifurkötturinn hafði lokið listum sínum, stytti örlítið upp og því von um að leikurinn myndi hefjast að nýju. Eftir um 50 mínútna bið var tilkynnt í kallkerfi vallarins að leikurinn myndi byrja að nýju og mannskapurinn byrjaði að koma sér fyrir í stúkunni á nýjan leik.

Seinni hálfleikur var skemmtilegur á að horfa og stemmingin góð þrátt fyrir að það byrjaði að rigna á nýjan leik, þó mun minni úrkoma en áður ásamt því að eldingarnar höfðu yfirgefið svæðið. Um miðjan seinni hálfleik geri ég mér grein fyrir að það er allt að verða vitlaust efst í stúkunni, þar sem nokkrir stuðningsmenn standa og hrópa niður á bílastæðaplanið fyrir neðan. Fljótlega voru fleiri búnir að slást í hópinn og farnir að fleygja lauslegum hlutum niður á planið fyrir utan völlinn. Þegar ég nálgast ástandið tek ég eftir því að menn eru að öskra á óeirðalögregluna fyrir neðan og nokkrar sprengingar heyrðust í nágrenni við lögregluna, líklegast hefur verið um að ræða stóra kínverja sem fleygt hafi verið í áttina að lögreglunni. Hrópin innhéldu grófan munnsöfnuð og ásakanir um að lögreglan væru óðir morðhundar osfv. Eftir að lögreglan hafði komið sér í skjól, snéri lýðurinn sér aftur að leiknum og stemmingin hélt sínu striki. Leikurinn var vel spilaður þrátt fyrir erfiðar aðstæður en til allra óhamingju töpuðu heimamenn 2-3 og því var mannskapurinn nokkuð súr að leikslokum. Ég rölti með strákunum af vellinum og ákvað síðan að kveðja mannskapinn fyrir utan völlinn, enda voru menn ekki líklegir til að kíkja á barinn eftir allt volkið. Sjálfur var ég gegndrepa með buxurnar hangandi utan á mér, enda beltið hvergi sjáanlegt fyrir utan völlinn. Það var ekki laust við að mér væri orðið svolítið kalt, enda var komð myrkur og því betra að koma sér á gistiheimilið í heita sturtu. 

Ég hóf því að rölta sömu leið til baka í votum strandarsandölum sem gerðu það að verkum að þeir héldust illa á fótunum. Þegar ég hafði rölt um stund, geng ég framhjá tveimur horuðum dópistum á tvítugsaldri. Þeir hófu að að biðja mig um pening en ég hunsaði þá og hélt mínu striki. Ekki leið á löngu þar til að ég finn fyrir því að þeir nálgast mig óðfluga og fyrr en varði eru þeir komnir sitthvoru megin við mig. Ég reyndi að láta sem ekkert væri og hélt áfram göngunni á meðan þeir hófu að krefja mig um eitthvað eigulegt úr fórum mínum. Á þessum tímapunkti var mér ekkert farið að lítast á blikuna, (enda eru svona kvikindi oftar en ekki vopnuð), en stóð fastur á mínu og sagði þeim að það kæmi ekki til mála að láta þá fá eitthvað. Þegar þeir hófu að rífa í öxlina á mér, gerði ég mér grein fyrir því að það stefndi í átök okkar á milli og ýtti því við öðrum þeirra. Á meðan á þessu stendur sé að á næsta götuhorni eru 3 náungar sem standa við skellinöðrur og tek ég eftir því að einn þeirra nálgast okkur með einhverskonar járnstöng í hendinni, hrópandi eitthvað sem ég gerði mér ekki grein fyrir hvað væri. Eitt augnablik hugsaði ég með mér að nú fyrst væri ég kominn í djúpan skít og óttatilfinning skreið niður mænuna. En fljótlega áttaði ég mig á því að dópistarnir voru hættir að atast í mér og lagðir á flótta yfir götuna, á meðan náunginn með járnstöngina hljóp í humátt á eftir þeim. Mér létti mikið enda gerði ég mér strax grein fyrir að þarna voru venjulegir borgarar að koma mér til hjálpar. Ég hóf því að rölta áfram mína leið í hálfgerðu sjokki, með það fyrir augum að koma mér sem fyrst á gistiheimilið. Ég þakkaði því fyrir mig án þess þó að nema staðar, sem ég síðar sá eftir, því það er aldrei að vita hvernig þetta hefði endað hefðu þessir 3 náungar ekki verið á næsta leiti. Þetta atvik staðfesti fyrir mér það sem ég hafði lesið mér til um, að kólumbíumönnum er mikið í mun um að bæta þá slæmu ímynd sem þjóðin hefur fengið á sig undanfarna áratugi. Ég var því ákveðin í því að láta þetta atvik ekki slá mig útaf laginu og halda áfram að bera traust til almennra borgara þessa fallega lands.
Þegar ég hafði sturtað mig og snætt, lenti ég á spjalli við aðra gesti og sérstaklega við finna einn sem er af rússnesku bergi brotinn. Hann tjáði mér að næsta dag hefði hann hug á því að skoða náttúruverndarsvæði sem samanstendur af miklu skóglendi og er staðsett á hálendinu fyrir ofan borgina. Mér leist vel á þessa hugmynd, enda fínt að komast í rólegra umhverfi til að endurhlaða batteríin. Ég sat um stund og spjallaði við þá gesti sem ég hafði þegar kynnst. Þá birtist Felipe enn og aftur með kólumbíska brennivínið, hvetjandi mannskapinn í enn eina flöskuferð á torgið góða. Í þetta skiptið ákvað ég að draga mig í hlé og horfa á eina kvikmynd eða svo. Þessi dagur var þegar orðin nógu viðburðaríkur og ævintýra-kvótinn því orðinn uppþurinn að sinni.  (Hægt er að stækka myndirnar með því að smella á þær)











Engin ummæli:

Skrifa ummæli