Fyrri skrif

fimmtudagur, 12. apríl 2012

Turbo - Medellín

Ég vaknaði snemma um morguninn til að vera öruggur með að ná spíttbátnum til borgarinnar Turbo. Fjölskylduna sem rak gistiheimilið kvaddi ég með virtum og rölti í áttina að bryggjunni með nokkrum krókum til að kveðja fólk sem ég hafði lent á spjalli við síðustu daga. Þegar að bryggjunni er komið tek ég eftir því að fullt af fólki er þegar mætt og starfsmenn farnir að taka við farangri til að vigta, en á þessari litlu bryggju gilda sömu lögmál og á alþjóðlegum flugvöllum, það þarf að borga aukalega fyrir hvert kíló umfram 20 kílóa markið. Sem betur fer vó farangurinn minn ákkúrat 20 kíló, enda var ég ekki með pening fyrir einu skitnu aukakílói! Eftir nokkra bið var loksins komið að því að koma farþegum í bátinn, sem var opinn trébátur með 5 bekkjum þvert yfir skrokkinn og á hverjum bekk rúmuðust 4-5 manneskjur. Fyrir aftan bekkina stóð kapteinninn við stýrið og stjórnaði aðgerðum, á meðan hundtryggur aðstoðarmaður hans gekk úr skugga um að tveir risastórir utanborðsmótorar væru í lagi. Farangrinum var hlaðið fremst í bátinn og yfir hann var dregið segl. Ég tók eftir því að það var talsverð alda útivið og því viðbúið að ferðin myndi reyna á bakið og afturendann, þessa áætluðu þrjá tíma.
Ég kom mér fyrir á næst aftasta bekk lengst til vinstri, með það fyrir augum að fólkið fyrir framan mig mundi taka á sig mestu gusurnar þegar báturinn skylli á öldunum, en um leið hafði ég bátshliðina til að styðja mig við í mesta hamaganginum. Þegar allir voru komnir með sæti og búnir að festa á sig björgunarvesti var lagt í hann með hamagangi. Fyrr en varði var ég orðinn rennblautur, sökum þess að báturinn þurfti að hægja ferðina í mestu hliðaröldunum og við það skvettist sjórinn yfir mig allan. Það var svo sem ekki alslæmt enda mjög heitt í veðri þennan daginn og sólin dúndraði geislum sínum sem aldrei fyrr. Ég var fljótur að átta mig á því að kona um fimmtugt sem sat mér við hlið var langt frá því að vera allsgáð, það varð síðan staðfest þegar hún dró fram pela af rommi og slurkaði tveimur gúlpsopum í sig. Það var auðfundið nefinu einu, að hún var búin að vera við þessa iðju sína í þónokkurn tíma, því eimaður fnykurinn uppúr henni barst auðveldlega að vitum mínum, þrátt fyrir nokkuð sterka sjávargolu í áttina að henni. Ég sá að hún var frekar illa á sig kominn og bauð henni því vatn að drekka sem hún þáði með veiku brosi, síðan teigaði hún hálfa flöskuna á augabragði. Á móti bauð hún mér slurk af rommi sem ég afþakkaði pent.
Sjóferðin virtist ætla að vera lengri en ég bjóst við þar sem að báturinn þurfti reglulega að hægja á ferðinni vegna öldugangsins sem að mestu gekk á vinstri hlið bátsins, s.s. þar sem ég sat. Konan mér við hlið var mitt á milli svefns og vöku, sem gerði það að verkum að hún hallaði stundum höfðinu á öxlina mína svo að mér sortnaði um augun sökum eimaða andardráttsins. Ekki bætti úr skák þegar við loksins fórum að sjá land beggja megin flóans þá verður báturinn bensínlaus. Eftir hálftíma eða svo kemur aðsvífandi annar bátur úr gagnstæðri átt. Til allra hamingju gátu þeir lánað okkur nógu mikið bensín til að komast á leiðarenda, en til þess að það tækist yrðum við að fara hægar yfir. Það tók þessa snillinga 20 mínútur álpast við að koma bensíninu yfir í okkar bát sökum smá öldugangs, sem endaði með því að brúsanum var kastað fyrir borð með reipi bundið við haldfangið. Þegar þarna var komið við sögu var þolinmæði mín komin á ystu nöf svo ekki sé meira sagt. Eftir 5 tíma „eimaðan“ velting og gusugang komumst við loks á leiðarenda, reyndar með enn einu stoppi til að bæta á bensínið í blálokin. Það var fljótséð að Turbo væri ekki beint draumastaðurinn í þessari ferð, svo ég ákvað að finna gistiheimili til að skola af mér sjóinn og skipta um föt áður en lengra væri haldið. Fljótlega fann ég gistiheimili sem ég hafði punktað niður hjá mér þegar ég var í Panamá. Ég samdi við eigandann að borga honum hálfan sólarhring eftir að hafa verið tilkynnt um að flestar rútur til Medellín yfirgæfu Turbo um kvöldið.  Ég var reyndar fegin því, enda gat ég ekki hugsað mér að fara beinustu leið í 10 tíma rútuferð eftir allt volkið fyrr um daginn.

Eftir góða og langa sturtu ákvað ég að skella mér í göngutúr um bæinn til að snæða, taka út pening og ganga frá rútuferðinni. Turbo er ekki mikið fyrir augað en hefur verið í miklum uppgangi síðustu ár sökum góðrar staðsetningar fyrir uppskipun, enda með vegatengingar við aðal samgönguæðar landsins. Þungvopnaður lögreglumaður (M-16 rifill og skammbyssa) með Ray-ban sólgleraugu leiðbeindi mér góðfúslega að næsta hraðbanka og í kveðjuskyni ráðlagði hann mér að flagga ekki seðlum á þessum slóðum. Sem betur fer var lítið mál að taka út pening og því næsta skref að ganga frá rútuferðinni. Eftir að hafa gengið á milli staða og athugað með verð og tímasetningar, komst ég að þeirri niðurstöðu að best væri að taka næturrútuna, þrátt fyrir að ég mundi ekki sjá mikið af umhverfinu á leiðinni, en aftur á móti kæmi ég til borgarinnar í dagsbirtunni. Ég snæddi síðan á veitingastað sem stóð aðeins útúr miðkjarnanum enda var ég kominn með reynslu af því að á þessar slóðir sækja heimamenn, sem þýðir góður matur á sanngjörnu verði. Ég rölti síðan um nærliggjandi götur ásamt því að versla vatn og fleira fyrir rútuferðina. Eftir allt þetta rölt ákvað ég að koma mér aftur á gistiheimilið og taka létta kríu þar sem ég var með einstaklingsherbergi og því meiri möguleiki á einhverju næði.
Þegar ég kem í andyri gistiheimilisins, sem var á annarri hæð, ákvað ég að skella í mig einum bjór og reykja eina rettu á svölunum, svona rétt á meðan ég fylgdist með mannlífinu á torginu fyrir framan gistiheimilið. Þá kemur aðsvífandi maður um fimmtugt og byrjar að spjalla við mig á spænsku og tjáir mér að hann sé frá Bandaríkjunum. F-Fljótlega áttaði ég mig á því að þessi náungi væri léttruglaður, enda sagði hann mér allskyns vafasamar sögur af sér þarna um slóðir. Ekki bætti úr skák að náunginn var með stærðarinnar glóðurauga, sem honum áskotnaðist á bar þegar honum sinnaðist við einhvern heimamann, nokkrum kvöldum áður. Hann tjáði mér að hann væri bisnessmaður og stundaði helst innfluttning á allskyns vörum frá Mið og Suður Ameríku til Bandaríkjanna. Eftir klukkustunda spjall var ég orðinn þreyttur á þessum kynlega kvisti og tjáði honum að ég þyrfti að leggja mig um stund. Það tók mig hins vegar korter í viðbót að losna undan orðaflæminu út úr manninum, sem virstist engan enda ætla að taka.
Ég náði ekki að festa svefn í nema 30 mínútur en horfði þess í stað á sjónvarpið þangað til að klukkustund var til brottfarar. Eftir að hafa beðið í klukkustund umfram brottfaratíma, renndi rútan loks af stað. Ég var klæddur í stuttbuxur og bol, enda um 30 stiga hiti í Turbo, sem var mjög þægilegt í fyrstu eða þangað til að líða tók á ferðina, enda var ferðin að hluta til yfir hálendi. Loftkælingin var á fullu „blasti“ allan tímann og því átti ég erfitt með að festa svefn sökum kulda, enda hafði ég ekkert til að breiða yfir mig. Ekki sá ég mikið á leiðinni annað en þá bæi sem við renndum í gegnum. En þegar sólin fór að rísa aftur tók ég eftir því hversu fallegt landslagið er á þessum slóðum. Umhverfið var yfirfullt af fjalllendi og dölum með mismunandi grænum litum og blómlegum trjám þess á milli, virkilega fallegt landslag. 

Þegar rútan byrjaði síðan að renna niður á við, blasti við borgin Medellín í allri sinni dýrð, risastór borg í fallegum dal. Nokkra stund tók að smeygja rútunni niður hlíðina og í átt að stórri umferðamistöð neðarlega í dalnum, en það skipti engu máli því aðkoman var stórkostleg, enda sólin nýkominn uppfyrir fjöllinn á meðan dalalæðan hörfaði í makindum sínum. Það tók mig nokkrar mínútur að finna út hvernig væri best að koma sér í áttina að miðkjarna borgarinnar. Sem betur fer kom í ljós að ég gat tekið lestina beint frá umferðamiðstöðinni og þar af leiðandi beinustu leið að einu gistiheimilinu sem ég hafði kortlagt í nálægð við Metro-kerfi borgarinnar. Það kom mér nokkuð á óvart hvað lestarkerfið var flott enda búinn að vera í löndum þar sem að samgöngukerfin eru mun frumstæðari og langt frá því að vera eins örugg og þessi lestarferð. Einnig hjó ég eftir því að það var hægt að fara með „lestar-kálfum“ upp hlíðarnar, fyrir ofan byggðina, beggja megin dalarins. Á meðan lestinn renndi í gegnum þéttbyggðan dalinn, sá ég fátækrahverfi í fyrstu, en eftir því sem nær dró miðkjarnanum birtust nýlegri byggingar í bland við klassískan nýlendustíl. Á þessari stundu rann almennilega upp fyrir mér að nú væri ég kominn til Suður Ameríku, það var sem nýr tónn væri sleginn í hausinn á mér á þessu augnabliki, seinni hluti ferðalagsins var hafinn. Þegar ég kem á gistiheimilið tekur á móti mér þessi líka gyðja, sem tjáir mér brosandi að rúm séu á lausu en ég þurfi að bíða til hádegis til að fá rúmið. Ég henti því farangrinum í geymslu og kom mér þægilega fyrir í setustofunni með fartölvuna að vopni. Þar hóf ég að kynna mér betur fæðingar- og dánarstað Pablo Escobar, frægasta kókaínbaróns sögunnar. Eftir að hafa vafrað um stund á netinu tók ég þá ákvörðun að dvelja í u.þ.b. viku í þessari borg til að geta kynnt mér hana sæmilega, en í sama streng undirbúa næstu áfangastaði.
Frá fyrstu mínútu fann ég að þetta gistiheimili var ákkúrat í þeim anda sem mér fellur best við, rólegheitar stemming með vinalegu starfsfólki og gestum. Húsnæðið er stórt raðhús á tveimur hæðum með litlum garði og verönd, þar sem stendur lítill bar.  Ég ákvað því að festa 3 nætur og sjá síðan til um framhaldið. Eftir að hafa komið mér fyrir, ákvað ég að skoða nánasta umhverfi við gististaðinn, ásamt því að kíkja í stórmarkaðinn sem stóð spölkorn frá. Ég eyddi kvöldinu á gistiheimilinu og lenti á góðu spjalli við nokkra gesti sem höfðu verið þarna um nokkurt skeið. Hins vegar var farið snemma í háttinn þetta kvöldið, enda hafði ég ekki sofið mikið í rútunni nóttina á undan. 

Daginn eftir ákvað ég að kíkja í miðbæinn sem endaði með því að ég rölti yfir í annan borgarhluta þar sem aðal verslunarmiðstöð borgarinnar er staðsett, ætlunin var að finna einhvern fatnað en ég sá ekkert sem mig langaði beint í og því féll sú ferð um sig sjálfa. Þegar ég síðan nálgast eina af lestarstöðunum, tek ég eftir litlu torgi þar sem að ungt fólk safnast saman, drekkur bjór og spjallar. Þegar þarna var komið við sögu var ég orðinn nokkuð bjórþyrstur, enda vel heitt þennan daginn, svo að ég keypti mér einn og tyllti mér í á lágan vegg sem stóð við gangstéttina. Þar fyrir voru tveir kólumbíumenn á þrítugsaldri og við fórum að spjalla heima og geima. Þeir gáfu mér góð ráð varðandi að nálgast miða á knattspyrnuleiki og hvernig skemmtanalífið virkar í borginni. Þegar ég kvaddi þá, nokkrum bjórum síðar, var ég orðin ágætlega hífaður og því kominn tími á að skella sér í sturtu og hressa sig við. Þegar ég kem á gistiheimilið var nokkur hugur í mönnum þar á bæ, þar sem að ætlunin var að kíkja út á lífið, enda komið föstudagskvöld!
Einn kólumbíumaður var staddur á gistiheimilinu, Jelipe að nafni (sjá mynd) og dró hann upp „brennivín“ heimamanna eða „aguardiente“ sem er með anís-bragði. Það var hins vegar annað sem hann dró upp úr hattinum sem kom mér í opna skjöldu, hann skyldi íslensku og gat talað nokkuð í ofan álag. Hann útskýrði fyrir mér að hann hefði búið um hríð á Íslandi og átt tvær íslenskar kærustur. Kólumbíumenn héldu því áfram að koma mér á óvart og í þetta skipti hvað mest, ekki skemmdi fyrir að náunginn er stórskemmtilegur og hélt uppi stemmingunni þarna á gistiheimilinu. Það endaði með því að við þurftum að taka 3 leigubíla til að kíkja á aðal torgið þar sem fólk safnast saman áður en farið er á skemmtistaðina. Við enduðum á því að drekka fleiri pela af „aguardiente“ og spjalla fram eftir nóttu. Við urðum hins vegar aldrei svo fræg að fara á neinn skemmtistað enda engin þörf á því í góðum félagskap. Þynnkan var nokkuð ráðandi daginn eftir sem gerði daginn frekar daufan, smá rölt um nærliggjandi hverfi til fá sér í gogginn og síðan aftur á gistiheimilið í afslöppun. Seinni part dags mætir Jelipe aftur og byrjar að kynda undir kvöldið með frekar dræmum undirtektum viðstaddra, ég meðtalinn. Þegar leið á kvöldið mætir hann aftur með „kólumbíska brennivínið“ og byrjar að peppa menn upp í að kíkja út aftur. Það endaði með svipuðum hætti og kvöldið áður, nema í þetta skiptið var farið á einhverja bari. Ég endaði með því að missa af hópnum þar sem ég lenti á miklu spjalli við heimamenn, tvær stúlkur og einn náunga sem voru á leið í annan borgarhluta til að kíkja á salsa-stað, en taka skal fram að kólumbíumenn eru óðir í salsa-dans. Ég ákvað að skella mér með þeim, enda þótt einn úr hópnum hafi reynt að tala mig af því, sökum þess að honum leist ekkert á það að ég færi einn með heimamönnum. Við skelltum okkur upp í leigubíl og leiðin lá upp hlíðar borgarinnar. Þegar við síðan komum á áfangastað var nú ekki margt um manninn, enda klukkan aðeins eitt um nóttina og fólk fer ekki að streyma að fyrr en um 3 leytið. Eftir um klukkustund sá ég að þetta væri ekki alveg minn tebolli, enda fátt um manninn og félagskapurinn ekki að gera sig ásamt því að ég var á þessum tímapunkti orðinn heilaþveginn af salsa-tónlist, sem dundi í öllum rútum á ferð minni um Mið Ameríku, ég kvaddi því þremenningana. 

Þar sem að nóttinn var þægilega fersk, ákvað ég að rölta um stund og njóta útsýnisins yfir borgina á meðan ég lækkaði flugið í borgarhluta sem ég þekkti ákkúrat ekki neitt. Þegar ég var kominn á jafnsléttuna fór ég að taka eftir því að ég væri staddur í einhverskonar klúbbahverfi og því nokkuð um manninn. Það fór ekkert á milli mála að þetta væri kannski ekki alveg staðurinn til að fá sér heilsubótargöngu um miðja nótt, en ég hélt þó göngunni áfram í gegnum hverfið. Við eitt götuhornið mætti ég hópi fólks sem samanstóð af tveimur útigangsmönnum, einum dópsala og nokkrum skemmtanafíklum. Ég lenti á spjalli við þetta gengi, sem undraði sig á því að ég væri einn á vappi og það á þessum slóðum. Þrátt fyrir að þetta væri hættulegur staður fyrir útlending þá fann ég ekki fyrir neinni ógn í minn garð. Eftir hálftíma spjall kemur sendill aðsvífandi á skellinöðru. Þegar hjálmurinn seig niður kom í ljós að um væri að ræða unga fallega konu, en hvað hún var að sendast með tók ég ekki eftir. Hún lenti á spjalli við lýðinn á horninu (ég meðtalinn) og undraðist einnig á því hvað ég væri eiginlega að gera á þessum slóðum. Með áhyggjusvip spurði hún hvar ég væri með gistingu og kom þá í ljós að hún ætti leið þar framhjá á leiðinni til baka. Hún bauð mér því að sitja aftan á hjá sér, enda ekki mikið um leigubíla á þessum slóðum. Ferðin tók okkur u.þ.b. 20 mínútur sem við notuðum til spjalla aðeins. Kom þá í ljós að hún væri tveggja barna einstæð móðir sem þyrfti að sinna tveimur vinnum til að skrimta. Þegar ég loks fór að kannast við umhverfið lét ég hana vita og hún hleypti mér af hjólinu. Hún tók ekki í mál að ég borgaði henni fyrir farið, en eftir að ég krafðist þess með brosi á vör, féllst hún á smá greiðslu fyrir ómakið. Ótrúlega viðkunnaleg og góð manneskja þar á ferð. Eftir þetta ævintýri var lítið annað en að koma sér í bælið og takast á við nýjan dag, þar sem að planið var að skella sér á knattspyrnuleik í Kólumbísku deildinni. Þeim degi verða gerð betri skil í næsta bloggi !! 
(myndirnar stækka ef smellt er á þær)











Engin ummæli:

Skrifa ummæli