Fyrri skrif

föstudagur, 13. janúar 2012

Sigling um San Blas eyjaklasann!

Ég lagði af stað frá Panama City til að fara í sjávarpláss sem heitir Puerto Lindo þar sem ég átti að hitta skipstjórann af skútunni, Bruno að nafni. Ég þurfti fyrst að koma mér í stærri bæ og síðan skipta um rútu til að komast til Puerto Lindo. Mér hafði verið ráðlagt að stíga úr rútunni nokkuð áður en komið var að umferðamiðstöðinni þar sem ég gæti keypt áfengi osfv. til að taka með í ferðina, enda útilokað að komast í verslun næstu vikuna. Það var hins vegar ekki mikið úrval af áfengi í þessari verslun, en ég náði engu að síður að finna ágætis rauðvín og ásamt rommflösku til að dreypa á. Þegar ég er loks búinn að versla stilli ég mér upp þar sem að hinar litríku hænu-rútur stoppa. Hver rútan af fætur annarri stoppar en hvergi sést sú sem ég þurfti að taka, ég spyr mann sem stendur mér við hlið hvort ekki sé um réttan stað og rútu að ræða og hann tjáir mér að svo sé. Við lendum á spjalli og kemur í ljós að hann vinnur sem eftirlitsmaður varðandi öryggi og réttindi starfsmanna allra fyrirtækja á þessu svæði, virkilega viðkunnalegur náungi. Þegar rútan hans loks kemur þurfti ég að bíða í 2 klst í viðbót, sem liðu þó fljótt á meðan ég fylgdist með fjölbreyttu mannlífinu. Rútan var reyndar einungis á leið í áttina að áfangastað mínum, en þar sem að um sunnudag var að ræða tók ég ekki sénsinn á að bíða eftir réttu rútunni og ákvað því að stökkva upp í þessa. Rútan stoppaði síðan við afleggjara og skilti sem sagði að um 12 km vegalengd væri að bænum. Þar rétt á undan hafði rútan keyrt framhjá litlum frekar illa förnum bæ eftir jarðskjálfta, þar sem var verið að spila fótbolta við aðalveginn og allir horfandi á leikinn, einnig lögreglan.
Við afleggjarann stendur hálfgerður bar/verslun með einu billjardborði og málhöltum ógæfumanni til skreytingar. Ég bíð rónanum upp á sígarrettu rétt á meðan ég panta mér bjór og spyr um rútuferðir á svæðinu. Ég var varla búinn að taka nema 2 sopa af bjórnum þegar rútan rennir í hlað og er varla á því að stoppa fyrir mér. Mér var meinað að stíga inn með bjórinn þar sem að áfengisneysla er bönnuð í rútunum. Ég afhenti því þeim málhalta bjórinn minn, sem brosti útaf eyrum yfir heppni sinni þennan daginn. Í rútunni voru hressir náungar og létt værukær bílstjóri sem keyrði eins og „Bjössi á mjólkurbílnum“ og var nánast búinn að keyra niður jeppa með bát í eftirdragi í einni beygjunni. Spennuþrungin, skemmtileg, en kannski sem betur fer stutt rútuferð! Mannskapurinn í rútunni kvaddi mig með virtum og óskaði mér góðs gengis á ferðum mínum.

Bærinn sem ég gisti í var mjög látlaus, með um 200 íbúum og staðsettur við mjög svo fallega vík sem veitti nokkrum skútum skjól. Íbúarnir eru langflestir múlattar eins og algengt er við strendur karabíska hafsins. Ég byrjaði á því setjast niður hjá lítilli sjoppu við ströndina til þess að fá mér bjór og spyrjast fyrir um gistiheimili á svæðinu. Íturvaxin kona sem afgreiddi mig benti mér á nýtt gistiheimili á móti kirkjunni sem rekið er af Spánverja sem hafði flutt þangað fyrir um ári síðan. Þegar ég kem þangað sé ég strax að gistiheimilið er enn óklárað og verið að vinna að því að standsetja það. Engu að síður var eitt sameiginlegt svefnherbergi tilbúið og þar var einungis einn gestur, enn einn argentínumaðurinn. Þessi hins vegar var með sérstakara móti, þar sem hann var búinn að vera ferðast meira og minna síðan hann var tvítugur, þar af 10 ár á reiðhjóli um Suður og Mið Ameríku. Þarna var hann staddur á lítilli skútu og að undirbúa bókarskrif sem hann ætlaði að leggja lokahönd á Kúbu. Hann hafði skrifað bók fyrir nokkuð mörgum árum og fyrir það eignaðist hann einhvern pening sem hann notaði til að fjárfesta í bát og meiri ferðalögum, virkilega athyglisverður náungi.

Ég fékk að hringja í skiptstjórann með farsíma eigandans og þá kemur í ljós að hópurinn mundi ekki hittast fyrr en seinni partinn daginn eftir. Mér fannst það svolítið skrítið þar sem að talað var um að lagt yrði af stað snemma þann daginn en var um leið feginn þar sem að Arturo, eigandi gistiheimilisins, var búinn að bjóða mér að nota sjó-kajakinn sinn til að fara yfir á eyju rétt fyrir utan bæinn. Kvöldinu eyddi ég í að rölta um bæinn og fylgjast með hinum afslöppuðu íbúum drekka og spila fjárhættuspil á meðan börnin léku sér á götunni. Ég lenti í því að spila fótbolta-tölvuleik við nokkra unglinga á leið minni á staðinn þar sem áætlað var að hitta áhöfnina daginn eftir. Við hliðina á gistiheimilinu er kirkja þar sem að kór var að æfa gospelsöngva sem ómaði yfir öllum bænum. Fólkið þarna er frekar feimið þannig að ég lenti ekki mikið á spjalli við heimamenn.
Daginn eftir byrjaði ég á því að fara til gamallar konu sem ég hafði borðað hjá kvöldið áður og fá hjá henni morgunverð, sem var fiskisúpa þennan daginn. Þar lenti ég á spjalli við fjölskyldumeðlimi sem fannst mjög athyglisvert að hitta hvítan mann lengst úr norðrinu. Því næst var kominn tími til að prófa kajakinn og skoða þessa eyju. Ég náði að komast á eyjuna án vandræða en hlotnaðist þó ekki að sjá apaketti sem áttu að vera þar sprangandi. Engu að síður naut ég þess að rölta aðeins um og njóta fegurðarinnar á þessum stað. Á bakaleiðinni var sjórinn orðinn úfinn og flæddi stöðugt inn í tómarúm kajaksins, sem var með gat stefninum. Þegar ég síðan er að komast að landi er kajakinn orðinn fullur að vatni. Ég endaði á því að velta kvikindinu og gat með engu móti komist upp í hann aftur þar sem að jafnvægispunkturinn var gjörsamlega farinn. Þetta þýddi að ég þurfti að synda með bátinn í land en var svo óheppinn að lenda á gömlu kóralskeri sem gerði það að verkum að ég skar mig nokkuð á fótunum. Ég náði bátnum loks í land og tappaði af honum vatninu á meðan lítill strákur fylgdist með mér af athygli. Aftur þurfti ég að sjósetja kajakinn til að koma honum á réttan stað en sem betur fer gekk það snuðrulaust fyrir sig. Arturo gaf mér síðan sótthreinsandi púður til að setja á sárin enda nokkuð um sýkingarhættu á þessum slóðum. Hann fullvissaði mig síðan um að hann ætlaði að gera við bátinn án þess að ég færi fram á það við hann. Restinni af deginum eyddi ég í að rölta aðeins um bæinn og virða fyrir það sem fyrir augum bar, t.d. hvernig þeir bera sig að í byggingarframkvæmdum.

Þá var komið að því að hitta áhafnarmeðlimi og aðra farþega í ferðinni. Við hittumst á veitingastað og þegar ég mætti voru flestir komnir nema áhöfnin á skútunni, sem var svo sem alveg í anda spánverja. Þegar skipstjórinn og konan hans loksins mættu á svæðið var orðið ljóst að við vorum mun fleiri en áætlað var og því yrði þrengra á þingi fyrir vikið. Við borðuðum fisk á veitingastaðnum og drukkum nokkra bjóra áður en við vorum ferjuð að skútunni. Ég var í fyrsta holli, þar sem að ég ætlaði mér að ná í gott stæði fyrir næstu 5 nætur. Hins vegar var plássið ekki mikið í skútunni og því þyrfti einn að sofa í hengirúmi sem var fest við mastur skútunnar. Ég var ekki lengi að panta hengirúmið enda lengi ætlað mér að sofa amk eina nótt við slíkar aðstæður. Þegar allir voru loksins komnir um borð var mannskapurinn orðinn létt hífaður fyrir utan Þjóðverjann í hópnum. Annars samanstóð hópurinn af 3 Áströlum, 2 Nýsjálendingum, einum Ameríkana og einum Kanadabúa ásamt Þjóðverjanum, 3 konur og 5 menn. Þetta voru hressir krakkar en ég áttaði mig fljótt á því að þau voru ekki alveg minn tebolli, en ég ákvað hins vegar að láta það ekki eyðileggja ferðina, enda stutt í kofaveiki þegar svo þröngt er á þingi.
Þegar allir voru komnir til hvílu var ég orðinn einn eftir ásamt áhöfninni, en við þurftum að setja upp hengirúmið og lítið plastsegl sem átti að skýla mér fyrir regni og vindi. Nóttin var mjög fögur og stillt með nánast fullu tungli sem ég naut til hins ítrasta, sjá mynd. Hins vegar átti ég erfitt með svefn þar sem að vindar fóru að blása og þar af leiðandi var báturinn og hengirúmið á fleygiferð alla nóttina. Eftir að hafa skellt í mig nokkrum sopum af rommmi, náði ég loks að sofna.

Við lögðum í hann snemma um morguninn enda framundan lengsti leggurinn á siglingaleið okkar um San Blas eyjaklasann, sem innheldur 365 mismunandi stórar eyjur og því hægt að heimsækja nýja eyju alla daga ársins. Sjórinn var frekar úfinn og því var mannskapurinn ekki upp á marga fiska þann daginn, en þynnkan spilaði þar stórt hlutverk. Ég var sem betur fer ekki sjóveikur en hins vegar lítið sofinn eftir rokk og ról í hengirúminu, þannig að ég lagðist til hvílu í einum af þeim rúmum sem í boði voru niðri í þilfari. Þegar ég loks vakna erum við farin að sigla meðal eyjaklasanna sem voru vægast sagt fallegir á að líta, hvítur sandur og pálmatré, nánast óraunverulegt. Þegar við loks komum að eyjunum þar sem við ætluðum að eyða nóttinni, sjáum við mastur standa uppúr sjónum hjá einu kóralskerinu. Skipstjórinn tjáði mér að þarna hefði verið á ferð hópur í sömu erindagjörðum og við, en skipstjórinn hefði misreiknað sig og steypt þar af leiðandi á skerið. Tilraunir til að bjarga bátnum misheppnuðust og því fór sem fór, ekki fór hins vegar sögum af afdrifum ferðahópsins sem var um borð.
Hvert skipti sem við nálguðumst eyjaklasa þurfti að grípa til sérstaks korts sem greinir frá kóralrifum og hvernig á að sigla á milli þeirra, það tók því alltaf smá tíma að nálgast eyjurnar, þar sem að kapteinninn sat á stefni skútunnar og benti í hvaða átt ætti að beygja hverju sinni.
Um leið og bátnum hafði verið komið fyrir á góðum stað, stakk ég mér í volgan og heiðbláan sjóinn og synti til annarrar eyjunnar. Þar var nokkra vinalega frumbyggja að finna og frábær strönd. Ég synti fljótlega aftur í bátinn til að ná mér í pípu-köfunargræjur í þeim tilgangi að skoða kóralrif sem voru á næsta leiti. Þar náði ég að sjá nokkra fallega fiska og önnur kvikindi sem lifa við rifin. Það sem stóð samt upp úr var ljónfiskur (lionfish) sem er þakinn af eitruðum nálum, ég þurfti náttúrulega að lenda í návígi við hann þar sem ég gat ekki komið mér frá honum sökum sjávarstrauma en slapp með skrekkinn. Sökum sömu strauma var ég svo óheppinn að skera mig meira á fótunum en fínir skurðir frá kóralrifum svíða helvíti mikið og það í nokkra daga. Ég náði á endanum að koma mér í land á eyjunni í þeim tilgangi að rölta á stað þar sem væri styttra að synda yfir í skútuna. Ég ákvað að rölta hringinn í kringum eyjuna, sem er eins og hálf Viðey, í þeim tilgangi að skoða betur híbýli Kuna fólksins sem er ættbálkur indjána sem hefur búið á þessum eyjaklasa frá upphafi byggðar. Frumstæðari verða varla híbýlin en fólkið var hið vinalegasta og virtist vera hamingjusamt.

Næstu dagar fóru í að sigla í þessu stórkostlega umhverfi þar sem stoppað var um miðjan dag til að njóta eyjanna og sjávarins í kringum þær. Skútunni fylgdi einn kajak og einn tuðrubátur til að ferja fólk á milli, en oftast nær synti maður á milli í tærum sjónum. Ég byrjaði t.d. alla morgna á því að rísa úr hengirúminu og stinga mér beint í volgan sjóinn, algjör snilld. Á kvöldin var alltaf smá partýstand en unga fólkið fór þó alltaf fyrst að sofa á meðan ég, kapteinninn og konan hans sátum frameftir að spjalli. Ég var sá eini sökum aðstöðu minnar á bátnum sem náði að njóta stjörnuskinsins og ferska vindsins yfir nóttina, sem gerði það að verkum að ég svaf heldur minna en hinir. Sérstaklega svaf ég lítið þriðju nóttina þegar gerði smá storm með tilheyrandi rigningu, þannig að regnið steyptist undir seglið sem átti að skýla mér. Stuttu síðar kemur skiptstjórinn út þar sem að báturinn er farinn að reka að eyjunni og náðum við rétt svo að koma honum frá áður en hann strandaði, en það mátti engu muna. Að lokum slotaði veðrinu og ég sofnaði nokkuð votur en reynslunni ríkari.
Það var draumi líkast að sigla í þessu umhverfi og sleikja sólina ásamt því að skoða kóralrifin umhverfis eyjurnar sem við stöldruðum við hjá. Hins vegar var ég engan veginn í takt við sígjammandi enskumælandi farþega bátsins sem höfðu ferðast saman um tíma og því um nokkuð lokaðan hóp að ræða. Af þeim sökum hélt ég mér nokkuð til hliðar og notaði hvert stopp til að rölta um eða kafa eins míns liðs, á meðan hinir héldu hópinn blaðrandi. Síðustu nóttina bjuggum við til varðeld á ströndinni og sátum frameftir kvöldi eða þangað til unga fólkið fannst það þurfa komast aftur í bátinn, það þarf varla að taka því fram að ég var síðastur frá eyjunni það kvöldið.
Yfir höfuð var þetta ein sú besta ferð sem ég hef upplifað, þrátt fyrir að félagsskapurinn hefði getað verið betri. Þeim til varnar þá var ég þegar búinn að fá mig fullsaddann af enskumælandi túristum á ferðalagi mínu, sem hefur sjálfsagt haft einhver áhrif á mína upplifun á þessum ferðafélögum, sem eru þegar á botninn er hvolft, ágætis fólk.

Ég steig síðan í land í frumskógi Kólumbíu (sem skilur að Panama og Kólumbíu) um kvöldmatarleytið á laugardeginum 29. jan. s.s. á fertugasta afmælisdegi Fjólu systur. Mér var því nokkuð í mun að komast í internetsamband til að hringja til Vestmannaeyja, en var þó vonlítill þar sem að bærinn sem við námum land í var ekki líklegur til að hafa slíkan munað. Engu að síður komst ég loks í internettengingu og eftir að hafa strögglast við að komast í skype-samband náði ég loks til Vestmannaeyja en varla þó, svo lélegt var sambandið. Ég náði þó að kasta kveðju á systur mína og móður, sem voru í banastuði, enda partýið löngu byrjað. Þá nóttina gisti ég í tjaldi við ströndina, sem var ákveðin millilending frá hengirúms-nóttunum þar á undan. 

Næst mun ég fjalla um dvöl mína í Kólumbíu! ATH. myndirnar stækka ef smellt er á þær!






























4 ummæli:

  1. það er bara einn eins og þú! Skemmtilega skrifuð og lifuð stund. Hlakka til að heyra meira. Kveðja, Zordis

    SvaraEyða
  2. Takk fyrir það Þórdís mín og gleðilegt nýtt ár!

    SvaraEyða
  3. Mjög skemmtileg lesning Addi. Kveðja, Stjáni Sverris

    SvaraEyða