Fyrri skrif

mánudagur, 12. mars 2012

Fyrstu dagarnir í Kólumbíu...


Ég gleymdi að segja frá einu atviki sem ég og þjóðverjinn lentum í þegar við vorum að leita að gistingu eftir að við komum í land frá skútunni í þorpinu Zapzurro sem stendur við landamæri Panama og Kólumbíu. Allur hópurinn fór saman á eitt gistiheimili til að athuga með verð og aðstöðu. Aðstaðan var mjög fín en verðið var mjög hátt og því ákváðum ég og þjóðverjinn að athuga með aðra möguleika í nágrenninu, ekki síst til að fá sitthvort einkaherbergið. Við röltum aðeins út fyrir þar sem að nokkur hús stóðu við ströndina og sáum á skiltum sem stóðu við göngustíginn að um gistiheimili var að ræða. Það fyrsta sem við sáum var nýlegt og lítið strandhús með nokkur tjöld í garðinum. Okkur þótti báðum tilhugsunin að sofa í tjaldi við sjávarsíðuna mjög góð og ákváðum að banka upp á og athuga með laust rými og verð. Við bönkuðum uppá og kölluðum „Hola“ til að gera vart um okkur en fengum hinsvegar engin viðbrögð. Ég fór þá að skoða sturtuaðstöðuna sem var utandyra og athuga betur með tjöldin en þegar á því stóð ákvað þjóðverjinn einhverra hluta vegna að opna dyrnar til að athuga hvort einhver væri inni. Allt í einu kemur maður fram í dyrnar, alveg trylltur og hótar saklausa þjóðverjanum öllu illu. Ég náði að róa manninn örlítið niður og útskýra að hann hefði opnað hurðina í hugsunarleysi og að við værum ekki þjófar. Hann var hins vegar enn mjög reiður og sagðist hafa verið að njóta ásta með konunni sinni og að honum hefði brugðið mjög við þessa truflun, svo mikið að hann gleymdi að leita að skammbyssunni sem hann geymir við rúmgaflinn. Þjóðverjinn var alveg miður sín, svo miður sín að brunnið andlit hans var orðið mjög fölt að sjá. Á meðan þjóðverjinn stóð stjarfur og fölur, steig ég fram fyrir hann og bað manninn innilega afsökunar á þessu háttarlagi en tjáði honum jafnframt að við hefðum verið að hrópa fyrir utan í þeim tilgangi að athuga með gistingu en engin svör fengið. Hins vegar væri ekki hægt að útskýra hegðun þjóðverjans með öðrum hætti en að hann væri að jafna sig eftir siglinguna og reyndar mjög þreyttur eftir lítinn svefn undanfarnar nætur. Maðurinn sem sagðist vera frá Kólumbíu og bar það einhvern veginn með sér útlitslega séð, þ.e. hann var með þetta típíska útlit sem kólumbískir glæpamenn bera í bandarískum kvikmyndum. Hann hins vegar róaðist fljótt niður þegar hann áttaði sig á því að við vorum saklausir ferðalangar og tjáði okkur að við gætum vel gist í sitthvoru tjaldinu fyrir lítinn pening og að ég gæti fengið að athuga hvort ég gæti náð netsambandi til að hringja til Íslands. Það er ekki hægt að segja annað en að mín tvö fyrstu kynni af kólumbíumönnum í ferðinni hafi verið skrautleg, fyrst munngælarinn í Panamaborg og síðan þessi, sem var tilbúinn að skjóta mig með skammbyssunni sinni, reyndar fyrst og fremst þjóðverjann!

Stemmingin í þorpinu var ekki svo frábrugðin stemmingunni í þorpinu við strendur Panama, allir mjög afslappaðir og lítið um að vera. Ég reyndar tók eftir einu skondnu atviki þegar ég var að versla í sjoppunni sem stóð við hlið kirkjunnar. Þar var presturinn að bíða eftir að einhver myndi láta sjá sig í messu hjá honum. Loksins kom gömul kona og að mér virtist barnabarn hennar, sem þýddi að hægt væri að hefjast handa við messuhald. Ég gægðist stuttu síðar inn í kirkjuna og tók þá eftir að messunni var að ljúka og einungis einn hefði bæst í áheyrendahópinn, sem sagt ekki mikil kirkjustemming á þessum bæ. Sökum stemmingsleysis ákvað ég að fara snemma í háttinn og klára bókina sem ísraelska konan í Nigaragua gaf mér eftir matarboðið í Granada. Ég svaf eins og steinn þessa nóttina enda þægilegt að fá sjávargoluna inn í tjaldið á meðan öldurnar skullu á ströndinni 20 metrum frá tjaldinu.

Morguninn eftir fór allt föruneytið yfir í næsta bæ á mjög svo frumstæðum hraðbát í miklum öldugangi. Í þessum bæ, sem heitir Capurgana, gátum við fengið vegabréfsáritun en einnig áframhaldandi 3 tíma „spíttbáts-siglingu“ yfir til borgarinnar Turbo sem hefur vegatengingu við meginlandið, sjá kort. Það sama var upp á teningnum líkt og áður í þessu ferðalagi, vegabréfsáritunin var gefin án vankvæða. Næst fór ég með eigendum skútunnar, Bruno og Ingrid, til að skála í nokkrum bjórum í kveðjuskyni. Við tylltum okkur við lítið borð sem stóð í námunda við litlu höfnina þar sem var verið að afferma gamlan dall með trúarlegri áritun, líkt og tíðkast með rúturnar í Mið Ameríku. Þarna sátum við að spjalli mitt á milli þess sem að við vorum að sinna lítilli forvitinni stúlku sem var heilluð af myndbandsupptökutæki sem hjónaleysin voru með. Þá kemur aðsvífandi kvenlegur karlmaður og kynnir sig fyrir okkur. Hann segist vera frá Austurríki og sé að vinna að ljósmyndaverkefni og spyr mig hvort ég vilji sitja fyrir hjá honum. Ég spurði um hvað málið snérist og tjáði hann mér að um væri að ræða mynd af mér með fisk í hendi, líkt og ég hefði veitt hann sjálfur, þema verkefnisins var s.s. ferðamenn á fiskveiðum. Við brostum yfir þessari bón og ég sló til og hann tók nokkrar myndir af mér með stórum fisk í hendinnni, á meðan Ingrid og Bruno tóku myndir af atburðinum skellihlæjandi. Ljósmyndarinn bað mig síðan um netfangið mitt til þess að senda mér þá mynd sem yrði fyrir valinu og var hinn ánægðasti með fyrirsætuna þennan daginn (hann sendi mér myndina 4 vikum síðar). Ég kvaddi síðan Bruno og Ingrid með virtum þar sem að þau þurftu að koma sér með síðasta bátnum yfir í víkina þar sem að skútan var staðsett. Ég ákvað hins vegar að staldra við í þessum heillandi bæ þar sem að aðal farskjótarnir voru hestar, hestvagnar og reiðhjól, þar sem að eina vélknúna faratækið var traktor með vagn í eftirdragi sem notaður var til ruslasöfnunar. Sem sagt frekar afslappað ástand!

Ég varð að finna mér gistingu og ákvað að fara eftir ábendingu skipstjórans sem sagði mér frá gistiheimili sem stæði við strandlengjuna og þar gæti ég fengið einkaherbergi fyrir lítinn pening. Ég rölti um dágóða stund til að finna gistiheimilið og þegar ég loks fann það varð ég ekki fyrir vonbrigðum. Íburðalítið en fallegt gistiheimili með einkaherbergi og eigin sturtu. Ekki skemmdi fyrir að hafa útsýni yfir sjóinn og hengirúm á svölunum. Gistiheimilið var rekið af ungri fjölskyldu sem voru hin vinalegustu og vildu allt fyrir mann gera. Um kvöldið gerði ég mér göngutúr um þennan mjög svo afslappaða bæ og síðan á gistiheimilið þar sem að föruneytið var niðurkomið. Ég hafði hug á því að þá hressustu með mér til að spila pool á einni knæpu sem ég rakst á í göngutúrnum. En þeir voru ekki á staðnum, þannig að ég yfirgaf hina fljótlega enda hafði ég enga þörf fyrir félagskap þeirra. Þetta þýddi aðeins eitt, að skella sér á malartorgið þar sem að litli flugvöllurinn er staðsettur og fá sér einn kaldann. Á leið minni þangað fór ég að taka eftir hversu margir hermenn voru á vappi í bænum og gerði mér fljótlega ljóst að þeir væru þarna sökum þess að skæruliðahreyfingin FARC er staðsett í frumskóginum milli Panama og Kólumbíu. Á þessu tímapunkti var ég orðinn svo gegnsósa af allskyns vopnaburði á ferðum mínum, þannig að mér þótti þetta ekkert tiltökmál. Ég fór frekar snemma í háttinn til að lesa og njóta þess að vera loksins kominn með einstaklingsherbergi, með viftu „nota bene“!

Daginn eftir skellti ég mér í bakaríið sem stendur við endan á malarlögðum flugvellinum til að fá mér kaffi og með því, (reyndar sá ég aldrei flugvél á brautinni á meðan ég dvaldi þarna). Þegar ég kem í bakaríið þá eru þar fyrir 3 unga hermenn og spænskt par. Ég settist á næsta borð við hermennina og tók fljótlega eftir því að þrír M-16 riflar stóðu upp við vegginn í u.þ.b. einni armlengd frá mér, s.s. allt eins og það á að vera á friðsælum og fallegum morgni. Ég lenti fljótlega á spjalli við spænska parið og kom þá í ljós að þau væru að bíða eftir að hitta aðila sem gæti siglt með þau á skútu til Panama. Ég tjáði þeim að ég væri nýkominn úr slíkri ferð og mælti eindregið með því að þau skelltu sér í þessa ferð því hún væri ævintýri líkust. Stuttu síðar kemur Ingrid (kona skipstjórans) aðsvífandi að okkur þar sem við sátum fyrir utan bakaríið og kom þá í ljós að hún væri þessi aðili sem spánverjarnir voru að bíða eftir. Ég hjálpaði Ingrid með að útskýra tilhögun mála útfrá sjónarhorni ferðamannsins sem endaði með því að spánverjarnir slógu til. Ég spjallaði síðan aðeins við Ingrid sem tjáði mér að ég gæti leigt hesta í bænum til að skoða mig um í frumskóginum. Ég kvaddi hana með virtum en ákvað síðan að rölta þangað sem hún sagðist hafa leigt hross. Aumingja hestarnir sem voru til leigu voru bundnir við girðingu á meðan sólin bakaði þá, án þess þó að þeir kæmust í vott né þurrt. Af þessum sökum voru þeir ekki burðugir í vexti og því erfitt að skera úr um hver væri best til þess fallinn að bera mig yfir daginn. Ég ákvað að velja þann yngsta sem eigandinn sagði að væri 5 vetra en hrossið leit hins vegar út fyrir að vera nær tuttugasta vetrinum. Áður en ferðin gæti hafist þurfti ég að ganga frá fataþvottinum, því að allir larfarnir voru komnir á tíma og því best að nýta sólina til að þerra þá fyrir kvöldið. Þegar ég kem á gistiheimilið segir konan mér að ég þurfi ekkert að standa í þessu, hún muni sjá um þetta fyrir mig, enda stæði hún hvort sem er í miðjum þvottum. Virkilega almennileg kona þar á ferð.

Ég fór því að sækja hestinn en á leiðinni velti ég því fyrir mér hvort vesalings skepnan gæti yfir höfuð staðið undir mjög svo lágstilltum væntingum mínum. Þegar ég mætti var búið að leggja á klárinn en ekki gat ég séð að hann hefði fengið einhverja næringu í millitíðinni, þannig að ég ákvað að fara hægt yfir a.m.k. þangað til að ég væri búinn að finna grösugan stað til að hrossið safnað kröftum fyrir áframhaldandi leiðangur. Ég fór því að mestu á feti í gegnum bæinn og meðfram flugvellinum í áttina inn í frumskóginn. Þegar ég kom að fyrstu ánni ákvað ég að brynna hrossinu og leyfa því að bíta gras í 15 mín eða svo. Á meðan á þessu stóð röltu framhjá mér nokkrir innfæddir sem voru á leið í bæinn að sinna einhverjum erindagjörðum en fyrir utan bæinn var að finna eitt og eitt hús á stangli. Það var komið vel yfir hádegi og sólin var farin að berja á hausnum á mér, ég ákvað því að koma mér sem fyrst inn í skólendið og skuggann. Ferðinni var heitið að fossi sem átti að vera í u.þ.b. klst. göngufæri frá bænum en þar ætlaði ég að baða mig í köldu lindarvatninu. Hrossið lifnaði aðeins við að fá einhverja næringu ásamt því að ég beitti mér í því að vekja hann aðeins, enda hrossið vant því að hafa óvana túrista á herðum sér og var því dofin eins vill verða með leiguhross. Eftir að hafa farið yfir nokkra læki í viðbót með stór flöktandi fiðrildi ásamt ókunnugum en fallegum fuglasöng , ákvað ég að þræða mér upp með einni lítilli á. Þegar ég hafði þrætt ánna í 15 mín eða svo gerði ég mér grein fyrir því að ég hlyti að hafa farið á mis við réttu leiðina. Ég steig því aftur af hrossinu til að leyfa því að bíta, á meðan vafði ég mér sígarettu og hugleiddi næsta leik í stöðunni. Þá kemur aðsvífandi eldri maður með stóra sveðju í hægri hendi og virðist vera á leið upp í fjalllendið. Ég kasta á hann kveðju og við byrjum að spjalla saman. Hann sagði mér að hann byggi skógivöxnu fjalllendinu og hefði gert það síðastliðinn 25 ár. Hann hafði alist upp á þessum stað en ákveðið sem ungur maður að fara í borgina til að freista gæfunnar. Eftir 20 ár í borginni ákvað hann að snúa aftur á heimaslóðir enda fannst honum hann aldrei finna sig í hringiðju borgarinnar. Hann tjáði mér að nokkuð væri um að fólk byggi eins og hann þar sem að lífið er dregið af gjöfum náttúrunnar. Að lokum benti hann mér á að ég væri löngu farinn framhjá afleggjaranum sem lá að fossinum og þyrfti því að snúa við og leita að skilti á hægri hönd. Ég þakkaði honum kærlega fyrir og karlinn kvaddi mig glaðbeittur yfir þessum óvænta fundi okkar.
Ég var fljótur að átta mig á því hvar mér hafði misfarist áður og var því kominn á áfangastað fyrr en varði. Ég þurfti að skilja hestinn eftir nokkuð frá staðnum en það var allt í góðu því hann hafði gras og skugga til að láta sér líða vel. Ég kem því næst að húsi og einhverskonar opnu móttökskýli þar sem fyrir voru hjón sem bjuggu þarna og sáum um þetta verndarsvæði. Þau tjáðu mér að það þyrfti að greiða aðgangseyri sem ég fúslega greiddi enda orðinn spenntur fyrir að sjá þennan foss og baða mig í hylnum. Ég hóf því að ganga inn í lágstemmt gil en var fljótur að átta mig að þetta gæti nú ekki verið íburðamikið vatnsfall þar sem að þetta var hálfgerð spræna sem rann mér við hlið. Það kom svo á daginn að fossinn var lítið annað en spræna sem rann niður klettana, engu að síður var umhverfið mjög fallegt með alls kyns plöntum og dýrahljóðum, ekta frumskógarstemming! Ég naut þess því að kæla mig í fersku vatninu og tók mér góðan tíma í þann gjörning. Hesturinn var allur að hressast við í bakaleiðinni enda búinn að nærast þónokkuð yfir daginn. Ég stoppaði aðeins einu sinni á leiðinni til baka, svona til að gefa hestinum loka pústið fyrir síðustu kílómetrana. Það gerði honum gott því að hann var orðinn tilbúinn til að skella sér á stökk síðasta spölinn inn í bæinn. Ég reið síðan um flestar götur bæjarins sem var upplifun á við að vera kominn inn í einhverskonar latínskan vestra, moldargötur og engin bifreið á svæðinu. Frábær dagur var að kvöldi kominn og við tók rafmagnsleysi nánast allt kvöldið og nóttina, þar sem að rafmagninu sló út 25 sinnum.

Næstu dagar fóru í að baða sig í sólinni og sjónum, fara í göngutúra, drekka bjór og snæða í rólegheitum í félagskap hermanna, sem fannst mjög merkilegt að hafa víking við borðið og spurðu mikið um mínar heimaslóðir. Eftir 5 nætur á þessum yndislega afskekta stað var komið að því að halda ævintýrinu áfram og bregða sér í borgina Turbo, ég var einnig orðinn nánast peningalaus en það var helvítis mál og dýrt að nálgast meiri gjaldeyri á þessum stað. Til að komast þangað þarf að ferðast með opnum tré-hraðbát í u.þ.b. 3 klst. oft á tíðum í ágætis öldugangi. Ég vaknaði snemma til að vera öruggur með far en í kæruleysi mínu hafði ég ekki pantað farið deginum áður. Þegar ég kem að bryggjunni var ekkert pláss laust fyrr en daginn eftir og ég einungis með pening fyrir farinu og tveimur máltíðum. Ég var því staddur í krísu þar sem að augljóst var að ekki var til peningur fyrir gistingu. Engu að síður rölti ég aftur að gistiheimilinu til að fá að geyma farangurinn, en þegar ég útskýrði fyrir hjónunum hvernig væri komið fyrir mér buðu þau mér fría gistingu í sama herberginu, yndislegt fólk í alla staði. Vegna peningaleysis fór dagurinn í lestur og einn göngutúr til að snæða fyrir restina af peningunum, ásamt því að kaupa vatn og brauð fyrir sjóferðina daginn eftir.
Framhald síðar.... (sjá myndbönd hér að neðan)















Engin ummæli:

Skrifa ummæli